01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umr. um þetta mál, af því að mér virðist í rauninni deiluefnið ekki vera mjög mikils varðandi. Aðaldeiluefnið virðist nú vera orðið það, hvort búnaðarmálasjóður eigi að renna til heildarsamtaka bænda eða til undirdeildanna, til búnaðarsambandanna. Hins vegar eru allir sammála um það aðalatriði, að búnaðarmálasjóð eigi að nota einvörðungu til hagsbóta fyrir landbúnaðinn, eins og sjálfsagt er og aldrei hefur verið dregið í efa af neinum. Hitt eru skiptar skoðanir um, hvernig eigi að verja þessum sjóði, það lítur hver sínum augum á það, og ég álit það í rauninni ekki hafa mikla þýðingu að halda langar ræður um það hér á Alþ., því að það er hvort sem er ekki hlutverk Alþ. að kveða á um það. Ég vildi aðeins benda á það, að jafnvel þó að búnaðarsamböndin ættu að ráðstafa fé því, sem í búnaðarmálasjóð kemur, þá er það sjáanlegt, að það er ekki útilokað, að honum væri varið á líkan hátt og gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu, eins og búnaðarþing vildi gera síðast. Það þyrfti ekki nema lítils háttar breytingu á orðalagi frv. eins og það liggur fyrir. Í frv. segir, að verja skuli fé þessu til jarðræktar og annarra félagslegra framkvæmda á sambandssvæðinu, eftir því sem aðalfundur ákveður á hverjum tíma. Ekki þyrfti hér annað en fella burt orðin „á sambandssvæðinu“ til þess að fá framgengt vilja meiri hl. landbn.

Annars er það ekki af þessu, sem ég kvaddi mér hljóðs, heldur út af nokkrum staðhæfingum, sem færðar hafa verið fram hér um þetta mál. Hv. þm. Borgf. staðhæfði hér í gær, að það, sem gert hefði verið, væri að fyrirskipa skattheimtumönnum ríkisins að innheimta skatt. En hér er meira gert. Hér er það gert að skyldu að greiða þennan skatt. Ég álít, að erfiðara hefði reynzt að innheimta skattinn, ef ekki hefði lagafyrirmæli komið til. Hið veigamesta var því lögleiðing þess, að menn skyldu greiða þennan skatt. En einmitt það, að menn eru skyldaðir til þess að greiða hann með góðu eða illu, gerir það að úthlutun fjárins skuli háð samþykki landbrh. Þetta er mikill þyrnir í augum hv. þm. Borgf. o. fl., og sögðu þeir, að hér væri um að ræða móðgun í garð bænda og þetta væri einsdæmi í l. og engin hliðstæða væri til. En þetta er alger misskilningur. Finna má mörg hliðstæð dæmi í l. Ber þar fyrst að nefna fiskimálasjóð. Til hans er stofnað eins og búnaðarmálasjóðs. Fjár er aflað til hans með ½–3/4% af verði útflutts fisks. Hér mætti þá halda því fram, að fulltrúar sjávarútvegsins skyldu gera kröfu til þess, að sjómenn einir ráðstöfuðu þessu fé. En ég hef aldrei heyrt neinar kröfur í þá átt. Ekki einu sinni fiskiþingið hefur þar tillögurétt. Ráðuneytið veitir fé úr sjóðnum. Ég get satt að segja ekki séð neinn mun á. Það ætti þá engu síður að vera móðgun við sjómenn, að rn. úthlutar úr fiskimálasjóði, en við bændur, að það samþykki úthlutun úr búnaðarmálasjóði. Vitanlega er þetta ákvæði ekki sett til þess að rýra rétt landbúnaðarins, heldur til þess að tryggja hann enn betur. En satt bezt að segja, þá eru engar líkur til þess, að rn. fari að taka fram fyrir hendurnar á búnaðarþingi um þetta, nema um því meiri misnotkun á fé sjóðsins væri að ræða. Ákvæðið er einungis sett til þess að tryggja sjóðinn enn betur. — Þá mætti og minna á fleiri stofnanir en búnaðarþing, sem verða að fá samþykki rn. til þess að úthluta fé. Sýslunefndir mega ekki einu sinni samþ. lántökuheimildir án þess að fá samþykki rn. Ekki má einu sinni setja fjallskilareglugerð án þess að rn. samþykki hana, og finnst manni það þó óneitanlega einkamál hvers héraðs. Og svona mætti lengi telja. Annars eru svona ákvæði kannske heldur þýðingarlítil, en mjög algeng í l. En þau eru langt frá því að vera nokkur móðgun, heldur eru þau einmitt sett til þess að tryggja, að viðkomandi fé sé ekki misnotað. Ég skal hins vegar fúslega játa, að ég legg enga höfuðáherzlu á þetta. Og ég býst alls ekki við, að búnaðarþing samþ. nokkur þau ákvæði um úthlutun, sem rn. teldi gerræði. Ég hefði með glöðu geði getað samþ. frv. án þessa ákvæðis um samþ. landbrh. En ég vildi láta þetta koma fram, því að mér hefur fundizt þetta gert að of miklu æsingamáli.