04.03.1946
Neðri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú þegar búnar að standa nokkuð lengi og hefur verið frestað a. m. k. tvisvar sinnum. Ég held, að það hafi verið næstsíðast þegar málið var til meðferðar, að hv. 2. þm. N.-M. flutti hér ræðu, og m. a. kom það fram hjá honum, að hann taldi, að þetta frv., ef samþ. yrði, mundi verða mjög örðugt í framkvæmd, það mundi verða örðugt að skipta fé búnaðarmálasjóðs niður á þann hátt, sem fyrir er mælt í frv. Hv. þm. Borgf., sem einnig talaði að því sinni, kom nokkuð inn á þetta líka. Ég held, að þarna gæti nokkurs misskilnings, því að ég get ekki séð, að þetta yrði neitt erfitt í framkvæmd. Ég er alveg sammála þessum hv. þm. og öðrum, sem hér hafa talað, um það, að frv. þetta sé svo stórgallað og fráleitt á margan hátt, að það sé ekki rétt að samþ. það, og tel, að það sé til vansa fyrir þingið að afgr. þetta þannig, fyrst og fremst vegna þess, að í þessu frv. felst óverðskulduð árás á bændastétt landsins. En hitt fæ ég ekki séð, að það sé nein ástæða til þess að finna það að frv., að það mundi verða sérstaklega örðugt í framkvæmd. Mér sýnist við athugun frv. og laganna sjálfra, sem það er stílað við, alveg ljóst, hvað vakir fyrir þeim mönnum, sem hafa beitt sér fyrir að koma málinu í þetta horf, og framkvæmdin ætti ekki að verða sérstökum erfiðleikum bundin. Samkv. l. um stofnun búnaðarmálasjóðs, sem sett voru á þinginu í fyrra, 3. gr. þeirra, á það gjald, sem hér um ræðir og innheimt er, að greiðast af þeim verzlunum og sölumiðstöðvum, er fyrst veita vörunni móttöku, og þessum verzlunum og sölumiðstöðvum er skylt samkv. sömu gr. að afhenda hlutaðeigandi lögreglustjóra, tollstjóra í Reykjavík, skýrslu yfir það verð, sem þessar stofnanir greiða fyrir vöruna, og síðan eiga svo lögreglustjórarnir, í Reykjavík tollstjóri, að innheimta gjald þetta hjá viðkomandi stofnunum. En samkv. frv., eins og það nú er orðið eftir 2. umr. í þessari d., þá segir svo í 3. málsgr. 1. gr.: „Fé sjóðsins skal um næstu 10 ár skipt. á milli búnaðarsambanda landsins í réttu hlutfalli við það, sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum.“ Af þessu sýnist mér það alveg greinilegt, að verði þetta frv. samþ., þá fái hvert búnaðarsamband í sinn hlut það af tekjum sjóðsins, sem rennur í hann af viðkomandi sambandssvæði. Í framkvæmdinni verður þetta þannig, að búnaðarsamböndin, sem eru svo heppin að hafa stór sölufélög og landbúnaðarvöruverzlanir á sínu svæði, þau fá mest fé úr sjóðnum. Það er ekki hægt og þýðir ekki að vera með bollaleggingar um það eða tölur í því sambandi, hvað hvert samband mundi fá. En mér sýnist enginn vafi á því, að Búnaðarsamband Kjalarnesþings hljóti að fá meira af fé sjóðsins en nokkurt annað búnaðarsamband á landinu. Á þessu svæði, hér í Reykjavík, er meira verzlað með landbúnaðarvörur en á nokkrum einum stað öðrum hér á landi. Hér er t. d. stórt samvinnufélag, sem heitir Sláturfélag Suðurlands, sem er félagsskapur bænda á stóru svæði og ekki eingöngu hér í Gullbringu- og Kjósarsýslu, heldur eru einnig í því bændur úr Borgarfjarðarsýslu, Árnes- og Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Það er geysistórt félagssvæði Sláturfélagsins, og það tekur því á móti mjög miklu af landbúnaðarvörum til sölumeðferðar, og þess vegna mundi koma þaðan verulegur skildingur í sjóðinn. En það eru fleiri svona sölufélög og sölumiðstöðvar hér í Reykjavík, sem hafa mikið vörumagn. Það er t. d. Mjólkursamsalan. Auk þess sem hún tekur á móti mjólk frá mjólkurbúum, tekur hún einnig mjólk beint frá framleiðendum, ekki einasta hér á sambandssvæði Búnaðarsambands Kjalarnesþings, heldur einnig úr Borgarfjarðarsýslu á stóru svæði. Og fleiri slíkar stofnanir eru hér. T. d. Sölufélag garðyrkjumanna, sem tekur til sölu vörur úr ýmsum héruðum. Hér er skinnasala Loðdýraræktarfélagsins, og samkv. l. um stofnun búnaðarmálasjóðs má einnig taka gjald til sjóðsins af grávöru, sem þessi stofnun verzlar með, en hún fær sínar vörur til sölu frá framleiðendum um land allt. Hér eru fleiri kaupmannaverzlanir en nokkurs staðar annars staðar á landinu, og fjöldinn af þessum verzlunum verzlar með landbúnaðarvörur og kaupir talsvert af framleiðendum víða að af landinu. Það er nú svo, að gjaldið til búnaðarmálasjóðs af öllum þessum vörum, sem þessi sölufélög verzla með, samkvæmt þessu frv. eins og það nú er fer allt til Búnaðarsambands Kjalarnespings, og ég tel því alveg vafalaust, að það verði langmest, sem kemur í þess hlut. En þá hef ég verið að velta því fyrir mér, af hverju það stafi, að slík till. er fram borin og samþ. hér í hv. d., till. um það að taka þetta fé að öllu leyti undan yfirráðum búnaðárþings og veita miklum hluta þess til eins ákveðins búnaðarsambands í landinu. Ég held, að það sé ljóst við nánari athugun málsins, hvaðan alda sú er runnin. Þessi till., sem samþ. var við 2. umr., var fram borin af minni hl. landbn., og í þeim minni hl. eru hv. þm. A.-Húnv., frsm., og hv. 1. landsk. þm. Það var einmitt það, — þarna kom það. Það er nefnilega stefna hans og hans flokks, sem hér er verið að vinna fyrir. Við höfum oft lesið í blöðum þess flokks langar greinar um það, að það þyrfti að gera ýmsar róttækar breyt. á landbúnaði hér á landi, og sérstaklega væri sjálfsagt að efla landbúnað sem mest í nágrenni við hina stærstu kaupstaði, einkum Reykjavík, og hætta því „sporti“, sem það er kallað, að fást við búskap á útkjálkum. En í þeirra augum eru mörg af héruðum landsins einmitt útkjálkar. Kröftuglegast hefur þessum skrifum verið á lofti haldið af einum helzta rithöfundi sósíalista í blaði flokksins. Nú sé ég ekki betur en hv. 1. landsk. þm. hafi tekizt að fá þessa stefnu flokksins greinilega inn í þetta frv. og koma því til 3. umr. í þessari hv. d. þannig breyttu. Með þessu vinna sósíalistar tvennt í einu. Í fyrsta lagi taka þeir fjárráðin með öllu úr höndum búnaðarþings, og er þeim akkur í því, að stéttarsamband bænda hafi ekki fjárvald. Í öðru lagi geta þeir svo með þessu þokað áfram stefnu sinni í því að rýra fjárhag bænda, sem búa fjarri Reykjavík, og beint fjármagninu hingað til Reykjavíkur eða í næsta nágrenni höfuðstaðarins. Þeim þykir gott að fá á þann hátt styrk frá bændum í Borgarfjarðar-, Árnes- og Rangárvallasýslum og víðar til ræktunarframkvæmda á löndum Reykjavíkurbæjar eða í Mosfellssveit og á Kjalarnesi, sem e. t. v. væri þá mögulegt síðar að leggja undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, eins og nýlega hefur verið gert með hluta af Mosfellssveit. Þetta er allt ofur skiljanlegt frá þeirra sjónarmiði, og vel að unnið hjá hv. 1. landsk. Hann hefur komið ár sinni vel fyrir borð hér. En hvernig stendur á því, að hann skuli ekki vera frsm. minni hl.? Þar kemur e. t. v. fleira en eitt til greina. T. d. er hv. 1. landsk. miklu hlédrægari maður í umr. hér en hv. þm. A.-Húnv., og hefur honum líka fundizt heppilegra að ýmsu leyti að beita hv. þm. A.-Húnv. fyrir sig í málinu. Nú er það líka alkunna, að í seinni tíð hefur verið allnáið samstarf milli þm. sósíalista og hv. þm. A.-Húnv. Hér hefur því orðið að samningum milli þeirra. Sósíalistum þykir líka nokkurs um vert að fá þm. úr fjarlægu héraði til þess að beita sér fyrir því stefnumáli að flytja fjármagnið hingað til Reykjavíkur. En svo hafa þeir líka orðið fyrir því happi að fá einn nýjan og óvæntan liðsmann utan landbn. með sér, þar sem er hv. 2. þm. Rang. Það er vitanlega mjög skemmtilegt fyrir sósíalista að fá þennan hv. þm. til liðs við sig, nota hann sem dráttarhest fyrir sinn vagn og láta hann strita fyrir sig í því að flytja fé bænda í Rangárvallasýslu og víðar hingað til Reykjavíkur til ráðstöfunar fyrir Búnaðarsamband Kjalarnesþings.

Ég get svo látið máli mínu lokið. Ég ætlaði ekki að taka hér til máls upphaflega, en flaug í hug, að hv. þm. hefðu ekki gert sér grein fyrir því, að hverju hér væri raunverulega stefnt og hverjir hér ættu mestan hlut að máli.