02.04.1946
Efri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Fyrir hönd þess hluta landbn., sem ég hef framsögu fyrir, skal ég vera fáorður. Þetta mál hefur verið mjög rætt hér á Alþ. og annars staðar og með meiri ákafa en efni standa til. Hins vegar er ekkert hik um afstöðu mína til þess. Ég tel réttmætt, að fé búnaðarmálasjóðs renni til sambandanna til ráðstafana. Ég vil geta þess, að þegar búnaðarmálasjóður var stofnaður, þá var ég því mótfallinn að vera að þessu. Ég vildi láta bændur hafa óskipt umráð sem mynduga menn. Og því nær, sem ég sé, að heildarákvörðunarrétturinn er þeirra eiginn, því betur tel ég farið. Ég tel þetta frv., um að færa ráðstöfunarréttinn til bændanna eða nær þeim og þeirra verkahring, því spor í rétta átt. Og í trausti þess, vitandi að þeir verja þessu fé vel sem öðru, þá tel ég, að öllu sé óhætt með þessa ráðstöfun. Það væri að vísu einnig æskilegt að hafa fé til ráðstafana, beint eða óbeint í þágu bændastéttarinnar, t. d. ef fé fengist til byggingar á húsnæði hér í Reykjavík, en ég tel ekki rétt að verja þessu fé til þeirra ráðstafana, heldur senda féð heim í héruðin til bændanna til þeirra eigin ráðstafana.

Það getur vel verið, að menn vilji vekja langar umr. um þetta, en ég vil ekkert gera til að lengja þetta, og legg því til, að frv. verði samþ.