02.04.1946
Efri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Jónsson:

Það er táknrænt fyrir þetta frv., að hvorugur þeirra hv. þm. úr landbn., sem hafa lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt, þolir að vera inni, á meðan málið er rætt. Það er eins og eitthvað brenni undir sitjanda þeirra, — eða eru þeir bundnir svo sterkum pólitískum aga, að þeir þora ekki að hlusta á rök í málinu?

Ég vil benda á það, hvort hv. 7. landsk. hefur ekki átt sæti í Nd., þegar þetta mál var þar til afgreiðslu, og ef svo er, hvort hann hefur þá rétt til að greiða atkv. hér. Annars reikar þessi hv. þm. hér um eins og fló á skinni, og enginn veit, undir hvaða merki, en þetta skal verða rannsakað.

Ég vil benda á það, að þegar þetta mál kom fyrst fram, þá var það borið fram af mér og hv. þm. Str., og átti að vera sárabætur fyrir þá rangsleitni, sem bændum var sýnd með orlofslögunum. Þeir fengu þessi fríðindi, að mega leggja þennan skatt á sjálfa sig, en síðan var þessu breytt eftir ósk bænda, svo að þeir mættu verja þessu fé til ferðalaga, menningarmála eða annars þess, sem þeim kæmi betur. Ég greiddi atkv. á móti því, að þetta yrði að heyra undir ráðh., en þó voru nokkur rök fyrir því, því að með þessu er sú skylda lögð á herðar ráðh. að innkalla þetta fé. En hér er um að ræða að leggja skatt á bændur, og því ætti ríkið ekkert að skipta sér af þessu, en lofa bændum að leggja á sig þessi útsvör til framkvæmda, sem Alþingi hefur viðurkennt, að því beri að styrkja, með jarðræktarlögunum. Það má nærri geta, hvort Búnaðarbankinn fari að reikna út, hvað hver bóndi á að fá. Þetta verður að vera í höndum Búnaðarfélagsins, en ekki Búnaðarbankans.

Hér stendur í frv.: „Fé sjóðsins skal um næstu 10 ár skipt á milli búnaðarsambanda landsins í réttu hlutfalli við það, sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum.“ Hvernig hugsa menn sér, að Búnaðarbankinn geti gert þetta? Ég er alveg undrandi yfir, að menn skyldu geta látið þetta þannig frá sér fara. Með þessu er verið að lögfesta útsvar á bændur í 10 ár. Ég fylgi ekki þessu frv. og tel það vansæmd fyrir Ed. að ganga frá þeirri hugmynd, sem var á bak við, er þessi sjóður var stofnaður. Það er að reka hnífinn í bak okkar, sem stóðum að þessu og bárum það fram til sigurs. Ég skal játa það, að hv. 2. þm. Árn. hefur alltaf verið fjandmaður þessa máls, ýmist sýnt því linju eða slepju, en langoftast fullan fjandskap. Ég mun svo ekki halda uppi þrefi um þetta, en mun greiða atkv. á móti frv., en get fylgt hinni rökstuddu dagskrá.