03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Eiríkur Einarsson) :

Að því er snertir andmæli þau, er fram komu við þau orð, sem ég lét falla í fyrri hluta þessara umr., þá er þeim raunar engu að svara. Þau voru öll sungin í sömu tóntegund og efni lágu fyrir um. Ég get að sönnu endurtekið það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að mér þykir orðræður manna allar í þessu máli á Alþ. meiri en svo, að mér þyki þær svaraverðar. Þær voru öllu harðari en ástæða var til. Rétt er hjá hv. þm. Barð., að ég hafi sýnt þessu máli fjandskap að því leyti, að ég lét í ljós, að ég teldi, að eigi ætti að klípa utan af afurðasöluverði bænda til þessarar sjóðsstofnunar, og þeir gætu sjálfir ráðið ráðum sínum í þeim efnum, og hef ég aldrei verið hrifinn af þessu máli. Það óskemmtilega er líka komið á daginn, að af því hafa hlotizt miklar kappræður á þ.; og leiðindi hafa og vaknað, og yfirleitt hefur þetta orðið Alþ. til lítillar sæmdar.

Reyndar er dálítið látið í té, þ. e. ½% gjald af söluafurðum landbúnaðarins, en það svarar varla þenslu málsins í þingsölunum. Hv. þm. Barð. er nú vikinn burt, sé ég er, en það gerir ekkert. Eru það líka engin lastmæli, þótt sagt sé, að meiri hluti landbn., sem vill ljá málinu fylgi hér í hv. Ed., hefði átt að búa betur um hnútana. Málinu er nefnilega ábótavant í mörgu. Ég hef ekki hirt um að láta til mín taka þá hlið málsins, er hér um ræðir, því að ég á þar eigi hlut að. En það verð ég að segja, að ég tel málið nær sínu takmarki, að bændur sjálfir hafi úthlutun fjárins með höndum, fremur en svo sé um búið sem ætlazt er til með l., eins og þau eru nú úr garði ger. Ég vil ekki gera lítið úr, að ýmsum framkvæmdum í þágu bænda hér, svo sem varðandi húsaskjól o. fl., er mjög ábótavant. Menn hljóta að sjá, að þessi leið er algerlega ófullnægjandi og nauðsyn sé til, að fé verði fundið til þessa á einhvern annan hátt. Ég held fram, að féð eigi að fást annars staðar að. Það mun fyrr eða síðar sjást, að hinar miklu og víðtæku þarfir landbúnaðarins og bændastéttarinnar gefa okkur miklu stærri verkefni um, hvernig úr skuli bæta, en svo, að æskilegt sé að auka pex og orðræður.

Hv. þm. Dal. var eitthvað að segja um vandkvæði á úthlutun fjárins. E. t. v. er það rétt. En það er ekki þar fyrir, að hann o. fl. eiga það til að grauta saman úr sömu skál. (ÞÞ: En ekki vanur að lepja úr henni.)