12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Við atkvgr. við 2. umr. þessa máls gat ég þess, að ég mundi ræða þetta mál stuttlega við þessa umr., og er það út af sérstöku atviki og raunar utan við málið sjálft, en snertir þó suma menn í þessari hv. d. En áður en ég vík að því, sem er aðalatriðið, vil ég segja fáein orð um þetta mál, eins og það liggur fyrir, og vil þá sérstaklega, í sambandi við áhuga hv. þm. Barð. og hv. þm. Dal., segja það, að mér finnst þeir hafa sýnt óþarflega mikinn dugnað við sínar till., þar sem það er sýnilegt, að sá skoðanamunur, sem er um meðferð þessa fjár, er þess eðlis, að það mun í framkvæmdinni, þó að frv. verði samþ., nást það, sem vakir fyrir þessum hv. þm. Ég vil benda á, að skoðanamunurinn er aðeins sá, hvort þetta fé sjóðsins á að vera undir stjórn Búnaðarfélags Íslands í einu lagi eða hjá búnaðarfélögum héraðanna. Þess vegna er það, að þegar því er haldið fram, að það sé skaðlegt, að búnaðarfélög héraðanna hafi þetta með höndum, þarf að færa fyrir því nokkur rök, sem ekki hefur verið gert. Vil ég í þeim efnum sérstaklega skora á hv. þm. Dal., þar sem hann er einn af helztu mönnum í sínu búnaðarfélagi og hefur sýnt áhuga á því að bæta fjárhag félagsins. En það vekur nokkra furðu hjá mér með þessa tvo hv. þm.; að þeir virðast ekki hafa veitt því eftirtekt, að ef búnaðarmálasjóði er skipt upp, þá er bændum í lófa lagið að greiða þetta fé þangað, sem þeir vilja hafa það. Ekkert bannar sumum einstaklingum að senda sjóðinn aftur til Búnaðarfélagsins, en ég býst ekki við, að það verði, því að bændur munu telja nóg brúk fyrir hann. Ég segi, að sú staðreynd er fullkomin sönnun þess, að sjóðurinn eigi að koma til félaganna. Ég vil friða þessa hv. þm. með því að benda þeim á, m. a. hv. þm. Dal., að láta Dalamenn sýna trúnað sinn í verkinu með því að senda peningana aftur. Það er ekki þar fyrir, að mér er líka að mörgu leyti vel við það að reisa gistiheimili fyrir bændur, en ég tel bara þörfina fyrir þessa peninga miklu meiri í sveitunum sjálfum.

Ég vil þá víkja sögulega að málinu. Ég hygg, að það hafi verið Alþfl. frekar en Sósfl., sem beitti sér fyrir orlofshreyfingunni. Þetta var umfangsmikil hreyfing til þess að auðvelda mönnum við sjávarsíðuna að fá sér upplyftingu gegnum orlofin. Er að þessu kom, þótti nokkrum þm. úr sveitakjördæmum, að sveitamenn ættu líka að fá rétting sinna mála. En þegar það gekk ekki, að sveitafólk fengi sérstök orlof, þá var till. fram borin um að veita ákveðna fjárhæð handa bændum til ferðalaga. Fróðum mönnum reiknaðist svo til, að 10 kr. kæmu á hvern bónda. En víst er um það, að ekki varð úr þessu fyrirtæki. Bændur sjálfir áttu ekki frumkvæðið að þessu, og þeir voru ekkert að hugsa um orlof. Orlofsl. voru orsökin til þessarar hreyfingar, sem síðan kom upp, að skattleggja bændur í þessu skyni. Svo var samþ. frv. um þetta á Alþ., en með þeirri klásúlu, að landbrh. skyldi samþ. allar gerðir sjóðs þess, sem stofnaður var í þessu skyni. Þetta var mjög nýstárlegt og setti sjóðinn í spaugilegt ljós. Meiri hl. Alþ. hafði ekki nægilega trú á Búnaðarfél. Íslands. Þetta var vantraust á Búnaðarfélagið. Ég álít, að þetta skipulag sé óheppilegt, fyrir báða aðila, ráðh. og bændur. Ef úr þessu yrði, þá væri afstaða ráðh. lík og afstaða Nellemanns til Íslands. Hann gat neitað því, sem hann vildi, og gerði það stundum. Ef stirfni væri milli stjórnarinnar og Búnaðarfél. Íslands, og það er ekki frítt við, að svo sé nú, þá gæti ráðh. neitað að samþ. ráðstafanir þess, og mundi það leiða til sífelldra árekstra. Svo er málum komið nú, að meiri hluti þings hefur tryggt sér vald í þessum efnum. Til þess að stuðla að því, að þetta verði ekki stöðugt deiluefni utan um Búnaðarfél. Íslands, væri næg ástæða að gera breyt. á skipulagningu sjóðsins. En svona var málið, þegar gengið var frá þessari löggjöf. Ég vil nú segja það til leiðbeiningar fyrir hv. þm. Str., að Gunnar í Grænumýrartungu var andvígur frv. Gunnar reyndi að fá mig til þess að hefja andróður gegn frv. Gunnar sagði: Ef þið samþ. að draga saman þessa fjárhæð, þá gengur það í 1–2 ár, en ef harðnar í ári, verður farið að taka fjárvaldið af Búnaðarfél. Ísl., er það fær frá ríkinu. Ég segi þetta til leiðbeiningar hv. þm. Þetta er ekki frá bændum sjálfum, heldur tilviljunarmál; sprottið frá orlofsl. Hér er Búnaðarfélag Íslands sett undir áhrif Alþ. Framsýnir bændur hafa séð fyrir, að þetta verður til ólukku fyrir bændastéttina. Sumir hafa haldið því fram, að bændur hafi verið ákafir til þessa máls. Ég vil segja, að eftir að ákveðið var að senda peningana heim í héruðin, þá hafa t. d. verið gerðar samþykktir í Búnaðarsambandi Suðurlands um að senda áskoranir um, að þetta næði fram að ganga. Mótmæli hafa kannske komið vestan úr Dölum.

Ég vil þá víkja að þeirri hættu, sem Búnaðarfélag Íslands hefur sett sig í undanfarið. Ef það hefði í öllum aðgerðum sínum verið ópólitískur félagsskapur, er líklegt, að engir úfar hefðu nokkurn tíma risið og öll aðstaða þess hefði verið betri en nú er. En nú undanfarið hefur félagið staðið í stórræðum bæði við að mynda og fella ríkisstj. og mótmæla þeim. Ég fer ekki út í það, hvort þetta var réttmætt eða eigi. En svo mikið er víst, að þetta er nýjung, sem hefur gefizt illa, því að það kom allt önnur stjórn en félagið ætlaðist til. Fram hefur komið vantraust á hana frá Búnaðarfélagi Íslands, en hún hefur aldrei setið fastar en einmitt eftir að þessi mótmæli komu fram. Ég held, að allar tilraunir félagsins til þess að eiga við ríkisstj. hafi ónýtzt eða farið út um þúfur. Sá orðrómur hefur komizt á kreik, að Búnaðarfélag Íslands væri að gera sér virki. Það getur auðvitað verið gott að hafa virki, ef árás er yfirvofandi, en getur að öðrum kosti ekki verið til annars en að skaða aðra. Þessar stjórnarmyndunartilraunir hafa engan árangur borið. Ég er nokkuð kunnugur Búnaðarfélagi Íslands frá því 1919, og Tryggvi Þórhallsson hugsaði sér aldrei að draga það inn í pólitík.

Sumarið 1944 var kvatt saman búnaðarþing. Það sumar hafði verið mikil elja við að reyna að mynda ríkisstj., en þegar á leið haust, sögðu forkólfar Framsfl., að ljóst væri, að ekki væri hægt fyrir þá að vinna með sósialistum. Morgunblaðið, sem oft segir satt, en ekki þó alltaf, sagði, að þetta búnaðarþing væri kvatt saman fyrir tilstuðlan Framsfl. og Sjálfstfl. og þá fyrir forgöngu Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar. En er búnaðarþing var komið saman, var þingfulltrúum sagt, að eiginlega væri afráðið að mynda samstjórn þessara tveggja flokka. Þessir áhugamenn töldu hentugt, að búnaðarþing lýsti yfir því, að það væri þess ekki hvetjandi, að bændur fengju þá hækkun, er þeim bar skv. landbúnaðarvísitölu. En þá um veturinn hafði Dagsbrún fengið kauphækkanir, er mikla þýðingu höfðu úti um land. Bæði Morgunblaðið og Tíminn sögðu, að allir mættu una við 16% kauphækkun í Reykjavík. Bæði blöðin sögðu, er sex manna nefndar samkomulagið kom, að þá gerði ekkert til, þó að kaupið hækkaði, því að þá hækkaði afurðaverðið líka, og héldu því fram., að sáttmáli þessi væri nokkurs konar Móselög, meðan stríðið stæði. Og eftir sáttmálanum hafði þá umrædd kauphækkun áhrif á söluverð bænda. Nú sögðu þessir ágætu menn, að bændur skyldu ganga á undan í því að lækka sínar tekjur, og svo mundu aðrar stéttir koma í kjölfarið. Reynt var að fá menn til þess að undirskrifa þetta, en það er mála sannast, að það gekk treglega, eins og í Kópavogi. Trúboð þetta gekk illa. Einn mann tókst að fá til að láta undan eftir hálftíma.

En nú er skemmst frá að segja, að þetta fréttist austur fyrir fjall, að það ætti að láta bændur gefa eftir samtals 8 millj. kr. af afurðaverði því, sem þeim bar, og vaknaði þá almenn alda um allt Suðurlandsundirlendi hjá fylgismönnum beggja flokkanna, er að þessu stóðu. Sunnlendingar höfðu fengið að kenna á 16 prósentunum, og boðaði þá Búnaðarsamband Suðurlands sína 40 fulltrúa á fund að Selfossi, og ætluðu þeir að verða búnir að gera fundarsamþykkt, áður en búnaðarþing lyki störfum. En þann sama eftirmiðdag sem fundurinn var á Selfossi var ályktunin gerð á búnaðarþingi, og aðeins 2 menn sluppu óskaddaðir þaðan. En nú þótti stórhöfðingjum Reykjavíkur ekki við eiga, að bændur væru að sýna mótþróa. Þótti nú mikið við liggja, og voru nokkrir þm. sendir austur að Selfossi til þess að telja um fyrir bændum, og héldu þeir þar margar ræður og túlkuðu skoðanir vina sinna, þ. e. skoðanir sjálfra sín. Bændur stóðu upp í hárinu á þm., og bar þessi för engan árangur, þrátt fyrir hinar ágætu ræður þingmannanna. Aðeins einn maður greiddi ekki atkvæði. En bændur Suðurlands sigruðu þm., þó að þeir væru ekki eins góðir ræðumenn, en af því að þeir höfðu betri málstað. Næst gerðust þau tíðindi, að blöðin neituðu að geta um fundinn, því að þetta var uppreisn gegn þeim stóru í Reykjavík, og útvarpið, sem er eins og Spegillinn, að vilja alltaf vera með stjórninni, neitaði að taka ályktun sambandsins til birtingar. Ég var þá, eins og oftar, nokkuð utan við þessa hluti, hafði ekki verið beðinn liðsinnis við þessa starfsemi. — Mér fannst ánægjulegt, að stórhöfðingjar flokkanna kæmu austur að Selfossi. Þess vegna boðaði ég til fundar á Selfossi og bauð form. Framsfl. og form. Sjálfstfl. jafnan ræðutíma á við mig sem fundarboðanda og þá, sem voru á Selfosslínunni. En nú byrjar ógæfan í þessu máli, því að um leið og útvarpsstjóri fær auglýsingu mína um fundinn í hendur, sem var hlutlaus, fer hann með hana í herstöðvar flokkanna og segir hér vera landráð á ferð og það sé eins gott, að stjórnarvöldin hindri, að slíkar almennar umr. fari fram. (BBen: Voru þeir þá orðnir stjórnarflokkar?) Ég kem að því síðar, í hvaða ástandi tilhugalifið þá var, en ég skal ekki hlaupa yfir það. — Nú hefði verið langeðlilegast, að útvarpsstjóri hefði tilkynnt mér, ef honum hefði þótt svo vera, að auglýsingin væri þannig, að hann vildi ekki taka hana. En hann gerði það ekki, heldur fór með hana til flokkanna. Og út úr því kemur það, að hv. þm. Str. virðist hafa ákveðið að boða til sprengifundar á Selfossi einum eða tveimur dögum áður en fundurinn átti að vera, sem ég hafði ákveðið þar. Og ef ég man rétt, voru formenn beggja þessara þá tilvonandi stjórnarflokka undirskrifaðir þessa auglýsingu. Það leiðir af sjálfu sér, að þegar útvarpið tók þessa auglýsingu þeirra á undan minni auglýsingu, þá gat enginn, sem á það hlustaði, haldið annað en að ég væri með sprengifund þarna, þegar mín auglýsing er lesin á eftir, en þeirra fundur dagsettur á undan fundinum, sem ég boðaði. Þetta var vissulega gert með allmikilli herkænsku í sambandi við útvarpið, til þess að reyna að kæfa uppreisn bændanna, því að það var talið sannað, að ég væri riðinn við þeirra samtök. — Ég varð náttúrlega að sætta mig við, að þarna væri haldinn fundur á Selfossi, áður en ég hélt minn fund. Mér kom það ekkert við. En það, sem fór að vekja nokkurn grun um, að þessi trúlofun væri ekki eins traust og búast mátti við, var að form. Sjálfstfl., sem hafði tilkynnt, að hann mundi ekki mæta á mínum fundi, hann mætti ekki heldur á þessum fundi, sem haldinn var á undan mínum fundi, heldur sendi á fundinn hina vöskustu menn. Þar var valið lið á fundinum, því að auk hv. þm. Str. var þar skilnaðarforsetinn Gísli Sveinsson, og var ekki úr betra að velja á sjálfstæðisheimilinu, úr því að sá tilvonandi forsrh. var ekki til staðar. Það var prýðilega til vandað þarna á Selfossi. Og þá var ekki síður til vandað á Skeiðunum, því að þangað sendi Sjálfstfl. bíl með hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. A.-Húnv., sem síðan hefur fengið ýmis stíf efni að heyra frá framsóknarmönnum, en var á þeirri stund það hátt í náðinni hjá flokknum, að hv. form. þingflokks framsóknarmanna, 2. þm. S.-M., fór upp í bílinn með þessum „kvislingi“, sem hv. þm. A.-Húnv. hefur stundum verið nefndur í Tímanum upp á síðkastið. (BBen: Kom þeim ekki illa saman í bílnum?). Það vonast ég til, að komi fram í sjálfsævisögum þeirra síðar meir. En það eina, sem opinbert er því viðkomandi, er það, að þeir unnu saman í kristilegum anda og bróðerni á Skeiðunum og fullyrtu við bændur, að stjórn væri ákveðin, aðeins eftir að ákveða um ráðherra, sem yrðu úr Sjálfstfl. og Framsfl. Þetta líkaði Skeiðamönnum vel. En það þótti Skeiðamönnum svik, þegar þeir fréttu, að þetta allt væru ósannindi og tálvonir, sem þeim var tjáð um þetta, og þykir þeim skömm að, þegar minnzt er á þennan fund, þar sem þeir voru vélaðir svo mjög.

Austur á Rangárvöllum var líka fundur, og þar komu saman hv. þm. Rang. allir, sem þar eru búsettir, og var þar hinn mesti fagnaðarfundur. Þar var vináttan svo mikil með þeim hv. 1. þm. Rang., hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. V.-Sk., sem er búsettur þar í Rangárvallasýslu, að það mátti heita, að þeir hefðu allir þennan dag svarizt í fóstbræðralag og lýst yfir einlægri sátt og samlyndi. Og þeir voru í því skapi, sem fermingarbörn eru, sem ganga til altaris. Og þeir munu hafa lýst því, a. m. k. hver við annan, að það væru engin Pýreneafjöll á milli þeirra. Og einmitt sá maðurinn af þeim, sem hafði haft kjördæmið í Vestur-Skaftafellssýslu, sagði, að honum mundi aldrei detta í hug að bjóða sig fram aftur á móti öðrum eins ágætismanni eins og þáv. hæstv. forseta sameinaðs þings. En það er að segja af fundarsókninni þarna í Rangárvallasýslu, að þar var nokkur tregða á, því að á fundinum voru það eitthvað 20 eða 25, sem greiddu atkv. En það er lítil uppskera, þar sem hvor þessara flokka held ég hafi um 1000 atkv. á kjördegi.

En e. t. v. var frægastur fundurinn á Selfossi. Þangað var sendur maður, sem hafði verið 8 ár forsifi., og sjálfur forseti sameinaðs þings, — sem hafði „frelsað landið“ þá um vorið, ef ég man rétt, á Þingvöllum. — En einhvern veginn var það, — eins og Lárus í Klaustri sagði einu sinni — að það var einhver óhugur í þeim. Og sjálfstæðismenn hefur grunað, að það mundi verða lítil fundarsókn. Reyndin varð sú, að það var safnað saman þeim kommúnistum, sem handbærir voru þarna, þannig að þetta varð enginn bændafundur, sem m. a. sannaðist líka með því að hæstv. forseti sameinaðs þings lýsti, að sér sýndist, að fjórir bændur væru þarna saman komnir á fundinum. Hins vegar var töluvert þarna af unglingum, sem, ef ég man rétt, samþ. till. um, að þeir væru mjög fylgjandi þessari 8 millj. kr. eftirgjöf af hálfu bænda. Hygg ég, að þá hafi þáv. hæstv. forseta sameinaðs þings verið að verða ljóst, hversu ísinn var farinn að veikjast um stjórnarmyndun.

Rétt eftir þennan fund kom það í ljós í sambandi við búnaðarþing, að þeir framsóknarmenn, sem höfðu hvatt til þess, að það væri kallað saman, höfðu verið vélaðir og blekktir, því að það kom að vísu ný ríkisstj., en það var allt önnur ríkisstj. en átti að koma eftir óskum búnaðarþings. Það komu sem sé í stjórnina tveir burgeisar úr Reykjavík fyrir Sjálfstfl. og svo tveir kommúnistar og tveir Alþfl.-menn. Sérstaklega mun mega líta svo á, að búnaðarþing hafi haft ömun að hinum alrauða flokki, sem þá í fyrsta skipti settist í ráðherrastólana og ekki hafði nú verið með nein blíðmæli eða tæpitungu við bændur, hvorki í blöðum né öðruvísi. En áður en þetta var svo langt komið allt, og skiptir ekki, þótt það muni dögum, en það sýnir, hvernig þessu var niður raðað, þá var það svo, að eftir að búnaðarþingi lauk, þá skrifuðu þessir tveir aðalforkólfar flokkanna, sem ætluðu að stíga í eina sæng, grein, annaðhvort báðir saman eða annar fyrst og hinn afritaði svo greinina með dálítið breyttu orðalagi, því að þar var orðamunur, en ekki efnismunur, og önnur greinin kom út undirskrifuð af Ólafi Thors, en hin undirskrifuð af Hermanni Jónassyni. (BBen: Hvor skrifaði sína grein á undan?). Efni bréfanna og undirskriftirnar eru aðalatriðið fyrir mér, hvor sem meiri áhrif hefur haft á orðalagið. En í þessu plaggi var sagt, að bændur væru ánægðir með það, sem gert hefði verið. Því var það talið sem sjálfsagt, að þingið færi ekki að troða inn á bændur þessum 8 millj. kr., fyrst búnaðarþing kærði sig ekki um það. Og það var sagt í báðum þessum greinum, að bændur hefðu sýnt hinn mesta drengskap. Í annarri greininni var sagt drengskap, en hinni þegnskap. Svo segja þeir í þessu plaggi, að bændur megi vera þakklátir fyrir þessa forsjá, því að þeir séu réttlausir. Sex manna nefndar álitið sé ekki virði þess pappírs, sem það er skrifað á. Svo þökkuðu þessir menn búnaðarþinginu fyrir það að hafa sýnt sanna ást á föðurlandinu og velferð þess. Og svo koma undirskriftirnar. Nú leiðir það af efni málsins, að þessi grein hefur verið skrifuð í einu eða tvennu lagi og prentuð og birt áður en upp úr slitnaði þessari trúlofun, alveg eins og hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm: S.-M. voru í friði og elskulegheitum bæði á Skeiðunum og í bílnum, enda þótt kárnað hafi um vinskapinn og farið hafi stíf orð á milli síðan, eins og oft er, þegar trúlofun er riftað. Þannig var þetta yfir alla línuna, að þar sem kærleikar voru áður, má segja, að hatrið hafi komið í staðinn.

Það er skemmst af því að segja, að eftir að þetta er allt búið, búið er að setja sprengifund á fund minn og sunnlenzku bændanna, með þeim árangri, að það komu svo sem engir á þann fund, og eftir að búið var að skrifa þessar greinar og sérstaklega það, að báðir þessir forkólfar flokkanna voru búnir að afneita gersamlega þessu „magna charta“, sem bændur höfðu treyst á, þá kemur það „eins og þjófur úr heiðskíru lofti“, eins og máltækið segir, að mynduð var ríkisstj. En þá kom það fyrir, sem oft á sér stað, þegar foreldrar ætla sér að eiga dreng, þá fæðist stúlkubarn — eða öfugt —, þá kemur þessi erki-syndaselur, hv. þm. G.-K., sem búið var af núv. samstarfsmönnum hans að setja út af sakramenti fyrir stórkostleg pólitísk afbrot með blaðagreinum, — hann kemur og hefur í ríkisstj. með sér hið austræna lið og ýmsa aðra menn, og er þá sannarlega nokkuð digurbarkalegur. (MJ: Hann var með alla með sér nema þá, sem hann átti að hafa með). Ég hef reynt í mínum orðum að láta það koma fram í flutningi máls míns, hverjir áttu að koma í ríkisstj. og hverjir ekki. Svo komu búnaðarþingsmenn heim til sín af þinginu, og væntu þá, að mynduð yrði ríkisstj., sem sumir a. m. k. bjuggust við, að hv. þm. Str. mundi verða forsrh. í og kannske þá hv. þm. G.-K. meðráðh. eða a. m. k. einhver góður maður eða menn frá honum. Þetta höfðu þeir vonazt eftir að heyra. En í staðinn fengu þeir þann ráðherralista, sem við þekkjum nú svo vel, og svo tilbærilega stefnuskrá, sem ríkisstj. sú hin nýja lét útbýta og útvarpa. Síðan sjá þeir í Morgunblaðinu, að gengið hefur verið frá dauðu þessu litla plaggi, sem þeir treystu á. Þannig sáu bændur þá, að með þá var farið eins og fífl og þeir ginntir til Reykjavíkur og þeim þar sagt allt ósatt í þessum efnum, þeim gefnar vonir, sem svo ekki voru uppfylltar, og þeirra trúnaður misnotaður eins og frekast var hægt. Þarna var kippt burt þeim grundvelli, sem bændur áttu siðferðislega kröfu á, að byggt væri á. Og þar að auki er sá flokkur, sem ekki komst í stjórn, sem talið er, að hafi mest fylgi hjá bændum, búinn að bæta því við að svipta bændur, í nokkurs konar flokksnafni, þeim siðferðislega rétti að halda því fram, að þetta hafi verið rangt. Þannig sættu bændur tvöföldu misrétti, þar sem þetta haust komu líka kauphækkanir hjá verkalýðnum, og svo voru hækkuð laun starfsmanna ríkisins með launal., eins og þau komu á eftir, meðan bændur fengu engan rétt til að fara eftir sex manna nál. um verðlag á sínum vörum. Þetta var gert, eftir að búið var að láta bændur gefa eftir peninga, sem voru þó ekki nema 8 millj. kr., en þeir samt áttu rétt á, eins og embættismenn á kauphækkununni, og þá var einnig búið að taka frá bændum allan siðferðislegan rétt til þess að halda sínum málum til streitu. Enda var litið svo á, að hv. þm. Str. og hv. þm. G-K. hafi hvor fyrir sína menn algerlega afskrifað sex manna nefndar sáttmálann.

Nú er skemmst af að segja, að búnaðarþingsmönnum þótti þetta orðið illa komið málum. Og þegar svo kom til stjórnamyndunar þeirrar, sem hv. þm. G.-K. stóð fyrir, þá gengu 5 af hans vöskustu mönnum úr liðinu, — ekki úr flokknum, — en neituðu að styðja ríkisstj. Og í þeirri fylkingu voru þrír búnaðarþingsmenn, þeir hv. þm. Borgf., hv. þm. Dal, og hv. 2. þm. Skagf. Enn fremur var svo í þessum liðssafnaði hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk. þm., þáv. forseti sameinaðs þings. Ekkert sýnir betur en aðgerðir þessara manna, að þeir þóttust hafa orðið fyrir greypilegum vonbrigðum af sínum flokkskollegum. Því að það er vitað um a. m. k. þrjá af þessum mönnum, sem lengi hafa verið þm., að þeir hefðu ekki yfirgefið þannig vini sína í Sjálfstfl., ef þeim hefði ekki fundizt greypilega af sér brotið gagnvart bændum. Það, sem þeir hefðu átt að gera, var að láta leiðtoga sinn í flokknum fá verðugt þakklæti fyrir. En að þeir gerðu það ekki, býst ég við, að hafi stafað af því, að þeim hafi fundizt hann hafa nóg annað að bera og ekki viljað á það bæta. En þá kom það undarlega fyrir í þessu, sem e. t. v. er erfitt að útskýra, nema út frá reynslu táldreginna kvenna í ástamálum, sem stundum gera nákvæmlega öfugt við það, sem búast mátti við, nefnilega að þessir fulltrúar, sérstaklega þessir þrír hv. þm. úr Sjálfstfl., sem ég nefndi, að voru á búnaðarþingi, hefðu sýnt réttláta gremju sína við þessa sína menn fyrir að taka þátt í nokkurri spilamennsku. Það var eðlilegt, að þessir þrír hv. þm. hefðu sagt: Nú erum við ekki lengur með á þessari línu. — En í stað þess dragast þeir nokkuð inn í þessa spilamennsku, sem eiginlega hefur ekki borið neinn árangur, heldur aðeins skaðað. Því að það var eðlilegt, að þessir búnaðarþingsmenn og aðrir, sem á því þingi sátu, hefðu sagt: Við viljum bíða hér í Reykjavík og sjá, áður en við samþ. að afsala fyrir hönd bænda þeirra siðferðislega grundvelli fyrir réttmætum kröfum, hvaða ríkisstj. kemur og hvaða ákvarðanir hún vill taka á móti. — En þetta var ekki gert. Og það ætla ég að segja sérstaklega við hv. þm. Dal., af því að hann hefur talað hér í dag, að þó að það hefði ekki verið neitt annað en þessi misheppnaði leikur, sem búnaðarþing hefði gert, þá á það ekki skilið að fá þennan sjóð handa á milli. Þessir menn úr Sjálfstfl. eru sjálfsagt ágætir menn við þau störf, sem þeir hafa kunnáttu til og er þeirra fag. En þeir hafa sýnt, að sem fulltrúar á Búnaðarþingi kunnu þeir ekkert til þeirra starfa, sem þeim var trúað fyrir. Þeir voru þar komnir á annað plan en þeirra rétta. Og það hefði verið eðlilegast, að þessir menn hefðu sagt: Nú sjáum við, að við höfum gert axarskaft, og við komum aldrei að þessu aftur. — En, það var síður en svo, að þetta yrði tilfellið. Búnaðarþing vill nú blanda sér sem mest í það, sem liggur utan við svið búnaðarþings: Og það kom þá í, ljós, að sunnlenzku bændurnir, undir forustu hins 82 ára rausnarbónda, Guðmundar á Stóra-Hofi, höfðu sagt sem svo : Nú, eftir Selfossfundinn og það, sem þar gerðist, getur okkur ekki annað en verið ljóst, að við verðum að vinna saman sem stétt, hvað sem okkur ber á milli að öðru leyti. Hver einasta stétt, þó ekki séu nema 10 menn í henni, myndar stéttarfélag, og við verðum að mynda okkar stéttarfélag, bændurnir. Þetta var eðlilegast. Menn geta haft mismunandi skoðanir á mörgum hlutum. En ef þeir eru bændur, eiga þeir að standa saman um hagsmunamál sín sem bænda. — Nú hefði mátt búast við, að bændafulltrúarnir á Alþ. hefðu fagnað þessu. En því var ekki að heilsa. Þá koma hv. þm. Str. og hv. 2. þm. S.-M., sem höfðu verið á hinum fræga Skeiðafundi — og að því er virðist hefur hv. form. Sjálfstfl. átt þátt í því, — og hafa sinn fund á miðju sumri, eingöngu í því skyni að eyðileggja frjáls samtök bænda. Svo koma búnaðarþingsmenn saman í Reykjavík. Og þegar hæstv. ríkisstj. fær um það að vita, beinir hún þeim tilmælum til fulltrúa bændanna þar, að ef þeir séu eitthvað að hugsa um dýrtíðarmálið, þá finnist hlutaðeigandi ráðh. ánægjulegt, ef þeir vildu tala við Alþýðusamband Íslands. Og þetta verður úr. Menn eru þá sendir úr hópi bænda til þess að tala við kommúnistann, sem stýrir Alþýðusambandinu. Og skemmst er af því að segja, að kommúnistar hafa þar skjót svör uppi. Þeir segja, að þeir vilji ekkert tala um verðlag og kaup við þessa bændafulltrúa, en þeir skuli skipuleggja með þeim landbúnaðinn, hvernig hann eigi að vera, til þess að hann beri sig. (ÞÞ: Hvaða vitleysa). Það er ekki hægt að gera fullkomnara grín að fulltrúum bænda en þetta. Og niðurstaðan varð sú, að það var ekkert gert í þessu máli. Eftir alla ósigrana var þetta það allra grátspaugilegasta að fara að tala við kommúnista, þótt þeir kunni vel að halda á sínum stéttarmálum og hafi sýnt, að þeir eru ekki auðunnir á þeim vettvangi. Það eina, sem gerðist á þessu búnaðarþingi, var það, að fulltrúar þar komu sér saman um, að þeir skyldu ganga að bændasamtökum Sunnlendinga dauðum. Og síðan sendir stjórn Búnaðarfélags Íslands menn út um allt land til þess að agitera í kosningum til stofnfundar stéttarsambands, og beitt var í því efni öllum venjulegum aðferðum, sem flokkar beita í slíkum erindagerðum. En Sunnlendingar höfðu engan áróður, heldur treystu bændunum og málstaðnum. En allur kraftur áróðursins frá Búnaðarfélaginu var settur í það, að stjórn Búnaðarfélagsins gæti náð þessum trúnaðarmannasamtökum undir sig. Ég hefði álitið fullt svo heppilegt, að stjórn Búnaðarfélags Íslands hefði í sumar í óþurrkunum reynt að gera eitthvað til þess að hjálpa bændum til þess að verka hey sitt í stað þess að vera að agitera fyrir kosningu fulltrúa á stofnfund stéttarsambands bænda. En því gerði hún ekkert. Og þegar svo kom að stofnfundi stéttarsambands bænda, var þar undirbúinn meiri hluti frá Búnaðarfélagi Íslands. Þessi meiri hl. ákvað fundarstjóra á fundinum og stjórn í þessu nýja félagi, og létu þeir allmikið yfir sér. En ef þessir menn frá Búnaðarfélaginu hefðu ekki skipt sér af þessum stofnfundi, hefði risið þarna upp ópólitískt stéttarsamband bænda. Svo var kosin stjórn og þetta kallað stéttarsamband bænda. Og það, sem hefur svo gerzt síðan í þessu, er það að samhliða því, að hæstv. ríkisstj. tók málið algerlega í sínar hendur, eftir að búnaðarþing er búið að koma saman og búið er að fara þessa spaugilegu ferð til kommúnistanna, þá mun ríkisstj. hafa séð, að það væri ekkert á að byggja í þessum efnum og sjáanlega líka ekkert á þessum stéttarsamtökum, þau mundu renna út í sandinn. Og þá kallaði ríkisstj. saman 25 menn, að yfirgnæfandi meiri hl. úr tveimur flokkum, sem bændur yfirleitt aðhyllast annan hvorn. Upp af þessari 25 manna n. var svo kosin verðlagsnefnd, og þessi verðlagsnefnd ákvað svo afurðaverð bænda þetta ár. Og ég fer ekkert sérstaklega út í það atriði út af fyrir sig, því að það liggur utan við ramma þessa máls, sem hér er um að ræða. Og ef frá er tekið eitthvað ofurlítið af mótmælum frá búnaðarfélögum og pólitískum andstæðingum, hefur bændastéttin kannske raunverulega látið við þetta sitja. Bændur eru seinir til vandræða, og má segja, að ef það hefur verið meining hæstv. ríkisstj. að koma á einræðisvaldi bæjarflokkanna um afurðasölumál bænda, þá hafi það tekizt þannig, að ekki hafi skapazt nein sýnileg óánægja, sem líkur séu til, að óánægðir flokkar hafi gagn af. Þar með er ég ekki að segja, að þeir ættu ekki að hafa gagn af því. Það skref, sem hæstv. ríkisstj. tók í þessu máli, er algerlega eins dæmi. Og það er líklega eins dæmi, að ein stétt sé algerlega máttlaus og valdalaus og liggi við fætur valdhafanna. Ég hygg, að þeir, sem standa að ríkisstj., hafi ekki farið eins illa með bændur og búast mætti við. En hvers vegna eru íslenzkir bændur samt sem áður varnarlausir í þessum efnum? Fram til síðustu styrjaldar, áður en dýrtíðin hófst, höfðu bændur sláturfélög, mjólkurbú og kaupfélög, sem önnuðust slátrunarstarfsemi og framkvæmdu verðlagningu á afurðunum. Þessar stofnanir bænda réðu þá verðinu á þessum afurðum, líkt og verkamenn ráða sínu kaupi, og það er það eðlilega í málum bænda. En þegar svo dýrtíðin er orðin svo mikil sem hún er hér, að maður, sem hirðir kýr í fjósi, heimtar 1000 kr. á mánuði og allt frítt, þá varð verð á landbúnaðarafurðum utan við eðlilegan grundvöll. Þetta kaup, sem ég nefndi, var miðað við kaup í bæjum hjá setuliðinu. Verkamenn notuðu sitt vald áfram, er dýrtíðin kom, og héldu upp kaupinu nokkuð stíft, margir kannske töluvert meir en hyggilegt var, en þó aldrei meir en svo, að vinnan hélzt. Og ef bændur hefðu farið eins að og sagt : Þið fáið ekki kjöt frá okkur eða mjólk, nema þið borgið þetta verð fyrir það, sem við setjum á vörurnar, viljið þið það ekki, fáið þið ekki neitt, — það hefðu getað orðið verkföll um þetta — en þetta var það vald, sem hægt var fyrir bændur að beita. Og ef Laugarvatnsfundurinn hefði farið fram í friði, þá trúi ég því persónulega, án þess nokkur hafi sagt mér það, að núv. hæstv. landbrh. mundi hafa tekið tillit til þess félagsskapar, sem þar hefði verið myndaður. Ég vil ekki spá því, að hæstv. ráðh. hefði farið að öllu eftir vilja félagsskaparins. En eftir því, sem fram hefur farið, finnst manni líkur til, að ríkisstj. hefði látið undan eðlilegum kröfum bænda. En nú voru þær kröfur ekki til. Það var ekki eftir nema rústir. Kaupfélögin og sláturfélögin gátu ekkert sagt. Þau höfðu ekkert verðmyndandi vald lengur.

Af því að ekkert raunverulegt stéttarsamband var stofnað á Laugarvatni, urðu bændur að snúa sér til Búnaðarfélags Íslands. En hvað hefur svo gerzt í vetur? — Það er ekki af aðdáun á form. Dagsbrúnar, að ég nefni það, en í vetur hefur sá góði maður kallað út sinn her og sagt honum að vinna ekki eina viku. Og eftir að þessi vika var liðin, leggur þessi Dagsbrúnarkappi 1350 kr. í lófann á hverjum verkamanni. En hvað skyldi hafa gerzt í bændasamtökunum undir stjórn Sverris í Hvammi og í Búnaðarfélagi Íslands undir stjórn Bjarna á Reykjum? Það hefur ekkert gerzt fyrir bændur, þó að Sverrir hafi komið hér öðru hverju og haldið fundi, af því að þetta félag, sem hann er fyrir, hefur enga peninga, en hefur ætlað að fá peninga úr búnaðarmálasjóði. Og ég hygg, að álitið sé, að það eigi að fara til landbrh. og fá þar peninga. Og þetta er það alspaugilegasta í þessu fyrirtæki og sýnir, að allt þetta búnaðarsjóðsmál er vanhugsað frá byrjun. Það kemur ekki heldur fyrst fram frá bændum sjálfum, heldur áhugamönnum í hópi fulltrúa bænda, sem sé nokkrum hv. þm. Þegar orlofslögin voru sett fyrir fáum árum, þótti þessum fulltrúum bændanna bændur settir hjá, og þeir vildu skattleggja bændur til þess að þeir fengju eitthvað á móti. En bændur gátu sagt: Af því að okkur finnst, að okkur sé misboðið með því, að búnaðarþingið ákvað okkur þessa 8 millj. kr. eftirgjöf, þá viljum við lofa Búnaðarfélaginu að sjá um sig, en annast okkar stéttarsamtök sjálfir. Þetta var vilji bændanna úr báðum sveitaflokkunum, þangað til þeir voru blekktir af búnaðarþinginu haustið 1944. Búnaðarfélagi Íslands hafði alls ekki komið til hugar að stofna stéttarsamtök bænda, eins og sást á því, að ráðamenn þar voru ákaflega reiðir út í Guðmund á Hofi og hans félaga fyrir að vera með nokkurt braml í því skyni að reyna að stofna slík óháð samtök bænda. Framkoma ráðamanna í Búnaðarfélaginu var þess vegna ekki annað gagnvart þessari tilraun til myndunar stéttarsamtakanna en óvinátta frá byrjun, þangað til þeim loks tókst að yfirtaka þessi samtök til þess að eyðileggja þau svo. — Og afleiðing þess er sú, að bændastéttin hefur engan rétt fengið. Það eina, sem þessir menn, sem telja sig forsjá bænda, hafa gert í vetur, er að halda fundi, og þeir hafa gefið út einhvern pésa, sem er algerlega þýðingarlaus. Og meðan bæjarflokkarnir hafa hækkað laun sín stórum skrefum, hefur ekkert verið gert hliðstætt fyrir bændur. Það er því óhugsandi annað en að leggja þetta mál fyrir þjóðina sjálfa. Og ég hef gert það í þessari ræðu minni, og getur vel verið, að ég noti hana til þess að gefa fólkinu eitthvert hugboð um þær blekkingar, sem bændur urðu fyrir, þegar mynduð var ríkisstj. haustið 1944.

Ég held, að ég verði að segja það hér við hv. þm. Dal., þó að ég sé ekki eins lærður í því eins og kommúnistar, að ég hef þó lítillega fylgzt með því, hvernig stéttarfélög eru mynduð. Og þessar aðgerðir Búnaðarfélags Íslands í sambandi við stéttarsamtök bænda eru fyrir neðan allar hellur. Því að stéttarfélög eru mynduð af áhugamönnum, sem gera sjálfir samþykktir um stéttarfélagsskapinn og borga sjálfir í félagssjóð, gera svo sambönd slíkra félaga af sama tagi og afla áframhaldandi fjár í félagssjóð hjá sjálfum félagsmeðlimunum, gera svo verkföll eða sölubönn, ef því er að skipta, til þess að hafa sitt mál fram. Og í þessum framkvæmdum eru þessi félög frjáls. Þau geta orðið yfirbuguð, en þau eru frjáls. Ef leiðtogar Búnaðarfélags Íslands hefðu ætlað að mynda stéttarsamband bænda, hefðu þeir getað það, ef þeir hefðu farið rétt að. En þegar þeir höfðu gert axarskaft í þessu efni, vildu þeir ekki viðurkenna það. Og af því að þeir höfðu reynt að mynda félagsskap bænda, þrátt fyrir það þó að þeim hefði mistekizt það, vildu þeir, að bændur skyldu hlýða þeim. Þess vegna er það, að Búnaðarfélag Íslands, sem er ekkert annað en deild í stjórnarráðinu og hefur alla sína peninga þaðan og ráðh. verður að samþykkja búnaðarmálastjórann, er félag, sem er fjarri því að hafa nokkurn minnsta rétt gagnvart stjórnarvöldunum. Og þetta er undirstrikað með því, að önnur stjórnarvöld en samtök bændanna ráða formann búnaðarmálanna og aðalmanninn í þessari starfsemi, sem Búnaðarfélagið rekur. Og Búnaðarfélagið getur nákvæmlega alls ekkert gert af sínum framkvæmdum, nema ríkið veiti til þess peninga. En af þessu leiðir það, að Búnaðarfélagið er algerlega óhæft til þess, — ekki óhæft til þess að standa fyrir ræktunarmálum og úthlutun styrkja til landbúnaðarmála, því að til þess er það stofnað, — heldur óhæft til þess að standa fyrir málum bænda gagnvart ríkisstj., af því að það er háð henni. Þess vegna er það ekki nema hringavitleysa að segja, að Búnaðarfélag Íslands eigi að sinna slíku. Þó að leitað væri á allri jarðarkringlunni, þá mundi ekki finnast eitt einasta stéttarfélag, sem gerði slíka tvöfalda vitleysu eins og Búnaðarfélag Íslands hefur gert sig sekt um. Í fyrsta lagi að ætla að láta fyrirtæki, sem ríkisstj. réð yfir, standa fyrir stéttarmálefnum vissrar stéttar, og í öðru lagi að ætla að láta félagssjóð stéttarfélags vera peninga, sem löggjafarsamkoman ákvæði með skattgjaldaákvæðum og sjálft ríkið innheimti.

Ég held, að ég hafi gert skil þessu máli, sem litið er að forsögu, og lýst, hvernig það hefur þróazt, að Búnaðarfélag Íslands, síðan sú stjórnarmyndun mislukkaðist, sem ég hef greint frá, hefur skoðað sig í andófi við hæstv. ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. í einhverju andófi við það, þó að þetta hafi farið heldur rólega, eins og má búast við, þar sem núv. hæstv. landbrh, er meiri friðarmaður en styrjaldar. Þó hefur í þeim samskiptum gerzt nokkuð tíðinda, m. a. það, að Búnaðarfélag Íslands hefur óskað eftir því, að hæstv. landbrh. fengi þessu kjöltubarni sínu verðlagningarvald. Þessu virðist hæstv. landbrh. hafa neitað, og það legg ég út þannig, að hann hafi enga ástæðu séð til þess, af því að hann gæti búizt við því, að Búnaðarfélagið skapaði ríkisstj. erfiðleika með verðlagningunni. En af því að það er háð ríkisstj., þá kom það eðlilega ekki í þá afstöðu að vera í andstöðu við ríkisstj. Ríkisstj. hefur sennilega ekki heldur treyst hlutleysi Búnaðarfélagsins og þess vegna skipað þetta búnaðarráð svo kallaða. En þetta er ákaflega háskalegt fordæmi. T. d. gæti maður hugsað sér, að eftir skamma tíð verði í sæti landbrh. harðsnúinn andstæðingur sveitanna, og gæti þá það vald, sem hæstv. núv. ráðh. hefur um verðlagningu landbúnaðarafurða, orðið miklu hættulegra í höndum hans en manns eins og hæstv. núv. landbrh., sem vili fara gætilega.

En svo kom annað fyrir, sem ég vil hreyfa hér, sem sýnir, að ríkisstj. fulltreystir ekki stjórn Búnaðarfélags Íslands. Það er það, að í sumar sem leið kom upp deila í Búnaðarfélagi Íslands milli stjórnarinnar þar og ritstjóra Freys, þess manns, sem hefur verið einhver duglegasti áhugamaður í landbúnaðarmálum, sem til er hér á landi, og hefur gert meira en nokkur annar ráðunautur til þess að koma á véltækni við landbúnaðinn. Nú skal ég ekki segja, hvernig á því stóð, nema stjórn Búnaðarfélagsins vildi ekki hafa þennan mann við ritstjórn Freys og sagði honum upp. En þetta félag, sem komið var upp til þess að bana stéttarsamtökum bænda — því að sagt er, að Árni G. Eylands hafi vitað, að það átti að segja honum upp, — það skrifaði undir, og þar með 22 af 25 búnaðarþingsmönnum, áskorun til ríkisstj. um það, að þeir vilji hafa Árna G. Eylands áfram við Frey. En það var svo mikill einræðiskraftur í stjórn Búnaðarfélags Íslands, að hún lét hann fara. En Árni Eylands rís upp, eins og fuglinn Fönix, í margfaldri dýrð og að lokum uppi í stjórnarráði og er þar sérfræðilegur þjónustumaður hjá hæstv. landbrh. Nú veit ég ekki, hvort hæstv. landbrh. hefur tekið þátt í þessari deilu. Mér þykir sennilegast, að hann hafi ekkert skipt sér af henni. En hitt er víst, að hann gerir það, sem enginn ráðh. gerði áður, að fá sérfræðilegan mann í landbrn. Þetta er fyrst og fremst skynsamleg ráðstöfun, að hafa kunnáttumann á landbúnaði í landbrn. (BBen: Mundi vera þörf á því, ef hægt væri að treysta Búnaðarfélaginu?). Ég álít að vísu, að þetta hafi verið jafnrétt, þó a ð þetta hafi verið elskulegur stuðningsmaður ríkisstj. En ég er ekki viss um, að þessi þarfa framkvæmd hefði komizt á, ef ekki hefði fengizt í þessa stöðu maður, sem hvarf frá þessu verki hjá Búnaðarfélaginu.

Það mætti víst tilfæra eitthvað fleira en þetta til að sýna, að ríkisstj. sé meira og meira að skapa vald í landbúnaðarmálum í stjórnarráðinu. Og nú vildi ég segja það, ef einhver úr stjórnarliði Búnaðarfélags Íslands væri hér viðstaddur, að ég vil ráða þeim, sem í þeirri stjórn eru, til að hætta þeirri pólitík, sem þeir reka. Þeir hafa hingað til tapað hverjum einasta leik í viðureigninni við stjórnarvöldin í landinu. Mér þætti ekki ósennilegt eftir því, sem á undan er gengið, að það þyrfti ekki að byggja sérstakt búnaðarfélagshús, heldur mundu ráðunautarnir og búnaðarmálastjóri lenda í stjórnarráðinu. og allir þeir peningar, sem í Búnaðarfélagið koma utan af landinu. Þess vegna er það, að þeir góðu menn, sem hafa sent mér nokkrar hnútur út af því, að ég hjálpaði ekki til að drepa þetta frv. við 2. umr., geta tæplega búizt við öðru en að ráðunautarnir flytjist upp í stjórnarráð og sendi gróðann þaðan út um landið. En þá er eins gott að hafa mín ráð og draga sig út úr þessu pólitíska veseni. Ef þeir vilja hafa pólitík í þessu, þá er það ekki mín sök, því að ég hef gefið þeim aðvörun.

Ég er þá kominn svo langt í þessu máli að hafa leitt rök að því, að búnaðarmálasjóður er orðinn til af tilviljun, fyrir orlofsbaráttuna, enn fremur að stéttarsamband bænda, sem hefur vaxið í nánu sambandi við Búnaðarfélagið og er kosningatæki, er og verður þýðingarlaust, því að stéttarfélag hefur aldrei lifað á ríkisstyrk.

Ég ætla þá að segja frá atviki, sem nýlega kom fyrir. Á fundi framsóknarmanna, sem nýlega var haldinn, lýsti hv. þm. Str. því yfir, að Framsfl. hefði skapað skipulag Búnaðarfélagsins, það sé flokksverk og að Búnaðarfélagið sé að skapa stéttarsamband bænda, og af þessu leiði svo það, að núv. formaður Framsfl. álíti, að Búnaðarfélagið sé útvirki Framsfl. og stéttarsamband bænda sé útvirki líka, og hv. þm. lét orð falla um það, að menn eins og ég og nokkrir aðrir álitu, að stéttarsamtök bænda ættu ekki að vera háð neinu valdi nema bændanna sjálfra. Hann gaf í skyn, að við ættum að eiga von á hörðu eins og uppreisnarmenn. Hv. þm. Str. er þarna í baráttu fyrir því að gera Búnaðarfélagið að útvirki. Hann hugsar sér tvö útvirki fyrir Framsfl., Búnaðarfélagið og stéttarsambandið. Hvað ytra útvirkið snertir hygg ég, að jafnveikur félagsskapur hafi aldrei verið á flotsettur, en býst við, að hv, þm. Str. hafi samt hina mestu ánægju af þeirri virkisgerð. En nú vil ég sem framsóknarmaður segja það, að ég er ekki að efa, að þetta hafi verið af fullum heilindum gert og til gagns bændastéttinni. Hins vegar er ekkert að því, þó að slíkt félag sé tengt við einhvern stjórnmálaflokk. En ég vil taka annan félagsskap, það er samvinnufélagsskapurinn, sem margir líta svo á, að hafi stutt Framsfl. og Framsfl. stutt hann. Nú er vitað, að í samvinnufélagsskapnum er mikið af sjálfstæðismönnum. Alþfl.-mönnum og sósíalistum, en samt sem áður má segja, að langflestir menn í samvinnufélögunum hafi, a. m. k. á fyrri árum, hallazt að Framsfl. Ég er búinn að vera 24 ár á þingi og hef stundum orðið að ráða fram úr um þessa hluti, en ég verð að segja það, að ég hef þó alltaf verið fyrst og fremst samvinnumaður og þar næst framsóknarmaður. Ef hagsmuni samvinnufélaganna og Framsfl. greindi á, áleit ég, að hagsmunir samvinnufélaganna ættu að ráða. Aftur á móti hefur þetta farið öðruvísi fyrir sumum flokksbræðra minna, sem m. a. sömdu um það við Sjálfstfl. 1942 að leggja stríðsgróðaskatt á samvinnufélögin í landinu. Þetta var afneitun á samvinnulögunum frá 1921. Þessi skattur er svo hár, að Kaupfélag Eyfirðinga hefur orðið að borga 300 þús. kr. af verzlun félagsmanna. Það, að tilteknir framsóknarmenn gerðu þennan sáttmála í góðri trú, svona óhagstæðan samvinnufélögunum, er árangur af því, að það hefur farið of mikið í flokkinn, það hefur farið meira í hann en í samvinnufélögin. En mér sýnist alveg ljóst af ræðu hv. þm. Str., að hann dragi ekki dul á það, að Framsfl. hafi skapað Búnaðarfélagið, og það er nokkuð rétt í þessu út af fyrir sig, þ. e. a. s., Framsfl. setti lögin og það er líka rétt, að Búnaðarfélagið hefur skapað stéttarsambandið í því ástandi, sem það er, en þar fyrir álít ég ekki, að Framsfl. eigi rétt á því að hafa hlunnindi af slíku almennu fyrirtæki. Þegar ég var að basla við að koma upp Laugarvatnsskólanum og færa út skólann á Akureyri, þá stóð í Morgunblaðinu, að ég ætlaði mér að verða skólastjóri í öðrum hvorum þessum skóla. Þetta er sami hugsunarhátturinn og hjá hv. þm. Str. og Framsfl., að menn, sem fást við almenn mál, eigi að fá fyrir það vegtyllur og launabætur. Ef hv. þm. Str. heldur þessu til streitu, þessari eitrun á móti þeim, sem viðurkenna, að svona fari, er það til erfiðleika fyrir hann og Búnaðarfélagið. Stéttarsambandið þarf ekki að tala um á þessum grundvelli. Ástæðan til þess, að ég er mótfallinn þessu, er sú, að ég vil, að hér rísi upp heilbrigt stéttarsamband. Ég vil almennilegt Búnaðarfélag, almennilegt ráðuneyti og stjórnarráð. Ég álít, að þessi fyrirtæki, Búnaðarfélagið og stéttarsambandið, eigi að vera miðuð við þarfir bænda, en ekki nokkurra valdamanna í Reykjavík.

Ég held ég fari þá að nálgast nokkuð síðasta þáttinn í þessu efni, sem er um mína persónulegu afstöðu til þessa máls. Hún er sú, að ég hef, frá því að þetta mál komst á hreyfingu, en það er sprottið af Selfosshreyfingunni, séð, hvernig farið er með bændur og hvað máttlaust Búnaðarfélagið er. Þess vegna hef ég enga trú á Búnaðarfélaginu og álít, að það eigi ekki að leika sér með þessa peninga. Þegar þetta mál var komið frá neðri deild og komið til 2. umr. hér í d., fékk ég einn dag bréf frá form. og ritara Framsfl., þar sem mér var tilkynnt, að flokkurinn hefði gert þetta mál að flokksmáli, — gert það að flokksmáli, að þessi löggjöf, eins og hún liggur fyrir, yrði felld í efri deild. Ég skrifaði svo þingflokknum og þakkaði fyrir þessa skilgreiningu og sagðist mundu leggja fyrir form. þingflokksins við 3. umr. nokkrar spurningar um það, hvernig flokkslögunum væri beitt, hvernig þeim hafi verið beitt, sérstaklega á árunum 1942–1944, þar sem mér sýndist það vera nokkuð sérkennileg aðferð, og gaf í skyn, að ef flokkslögin hefðu verið hlutlaus, hefði verið til athugunar, hvort mér bæri að hlýða því frekar en öðru. Það næsta, sem ég sé, eftir að ég hafði vísað þessu máli til 3. umr., þar sem ég vildi fá fleiri upplýsingar, áður en ég greiddi atkv., er það, að í „Tímanum“ kom kröftug skammagrein um mig. Var sagt, að ég hafi svikið bændur með því að hjálpa til, að þetta frv. væri ekki drepið við 2. umr. hér í d. Ég þykist vita, að sá mikli og góði glímukappi, hv. þm. Str., muni hafa staðið að þessari greinargerð, sem er kröftuglega samin, eins og sæmir um aflraunamann, og er ekkert út á hana að setja út frá því sjónarmiði. Nú vil ég beina til hans þeim orðum, sem munu hafa áhrif á, hvernig ég greiði atkv. um málið. Ég vil taka það fram, að eftir það að Sósfl. var myndaður, sem hafði nokkuð kröftuga stefnuskrá 1937, í sambandi við Alþfl., heimtaði hann að hafa leyfi til þess að taka tillit til þess, sem gerðist í Rússlandi, og lét á sjá, að hann starfaði undir vissum kringumstæðum og eftir fyrirmælum utan að. Þá gerðist það á flokksþingi Framsfl. 1937, að það er ákveðið, að Framsfl. skuli ekki starfa með byltingarflokki. Það mátti breyta orðunum þannig, að Framsfl. ætlaði ekki að starfa með Kommúnistafl. og ekki með Nazistafl. Þetta gerðist 1937, og þessu var fylgt nokkurn veginn, þannig að Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl. stóðu í hörðum deilum við Kommúnistafl., og fóru stór orð frá þessum unga flokki. Ég ætla, að þetta hafi verið trúlega haldið af flestra hálfu. Það heyrir ekki hér undir, hvort nokkur vinsemd hafði verið frá hálfu Sjálfstfl. í þessu efni, því að nú er það Framsfl. og hans afstaða til kommúnista, sem um er að ræða. Ég tel það sönnun fyrir því, að þetta hafi verið alvarlega meint hjá Framsfl., að núv. form. flokksins beitti líkamlegum aðgerðum í pólitískri deilu hér í þessum sal við þáv. og núv. form. kommúnista. Form. kommúnista hafði sagt mjög mikið ósatt og kom fram á annan hátt en átti að vera, en núv. form. Framsfl. taldi við eiga að beita líkamlegum aðgerðum við þennan hv. þm. og hélt því fram, að þetta hefði verið íslenzkur kinnhestur, sem hann hafði veitt honum. Ég álít að vísu, að forkólfar kommúnista hafi brotið af sér, en sé samt ekki, þó að um byltingarmenn væri að ræða, að ég geti gefið þessu meðmæli. Það, sem ég vil sanna, er, að á þessum tíma, áður en stríðið skall á, var núv. form. Framsfl. alvara um það að halda sér frá samstarfi við leiðtoga kommúnista.

Annað dæmi kom fram, sem mér finnst rétt að segja frá; úr því verið er að rekja þessa sögu hér. Ég hef ekki borið gæfu til samlyndis við kommúnista og þeir ekki við mig. En það var nokkur kunningsskapur milli mín og þess þm. Sósfl., sem nú er háttsettur maður í nýsköpunarráðinu. Við þekktumst á yngri árum. Þessi kunningsskapur hélzt milli mín og þessa þm. kommúnista þrátt fyrir skoðanamun. Einhvern tíma var það, að við spjölluðum eitthvað saman í nokkurri glettni. En eftir það veitti núv. form. þingfl. Framsfl. mér átölur fyrir það, að ég skyldi vera að brjóta góðra manna siði með því að vera að sækjast eftir persónulegum kunningsskap við þessa andstæðinga, sem svo mjög voru á annarri línu, eins og ég hef sagt frá.

Nú líður fram að stríðinu, til ársins 1940, þegar þjóðstj. réð hér. Þá var samþ. hér till. með flestum atkv. þjóðstjórnarþm., sem spratt af deilunni um Finna, var það nokkurs konar bannfæring á kommúnista. Þetta var samþ., og bar ekki á því, að núv. forráðamenn Framsfl. hefðu neitt út á þetta að setja, heldur voru þeir stuðningsmenn þess. Ég segi þetta til að sýna, hvaða skoðun þessir menn höfðu á sósíalistum 1940. Líður nú að næsta flokksþingi Framsfl. Þá er endurtekin sama línan, að ekki verði hafður félagsskapur við kommúnista, heldur sé það stefnumark flokksins að byggja á samvinnuhreyfingunni og frjálsum samtökum og hann gæti ekki átt pólitíska samleið með flokki, sem vildi koma fram málum með ofbeldi. Þannig var þá tvisvar búið að samþ. það, að svona skyldu framsóknarmenn hegða sér. Árið 1942 liðast þjóðstj. sundur.

Ég held ég geri hér lítilfjörlegan útúrdúr til þess að upplýsa atriði, sem er eins gott að hv. þm. viti glöggt um. Þegar þjóðstj. var að liðast sundur, fékk ég því til leiðar komið, að sett var á sáttanefnd manna úr Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl., þar sem reynt var að koma á málamiðlun. Margir menn voru þessa máls fýsandi, þar á meðal Gísli Sveinsson, 10. landsk. þm., og margir aðrir góðir menn. Upp úr þessum deilum, sem verið höfðu, kemur bréf frá Sjálfstfl. til okkar framsóknarmanna, þar sem Sjálfstfl. segir: Við bjóðum upp á tvo kosti: Annars vegar, að forsrh., Hermann Jónasson, hætti við að leysa upp þingið, það verði engar kosningar og ríkisstj. sitji áfram, eða, ef forsrh. endilega vilji leysa upp þingið, þá geti þeir ekki annað en farið inn á þá leið að samþ. kjördæmamálið. Af því að þetta spor, þessi upplausn 1942, varð síðar þýðingarmikið atriði í okkar sögu, þ. e. a. s., hvernig tókst til með dýrtíðina, álít ég æskilegt, að hv. þm. Str. geri grein fyrir því, hvað það var, sem kom honum til að leysa upp þingið 1942.

Svo kom hinn þátturinn. Það kom ný stjórn, gífurlegar kauphækkanir, það var horfið frá að halda dýrtíðinni niðri. Hvað gat hv. þm. Str. gengið til að gera þetta? Hvernig gat maður, sem þá var stjórnarform., látið það tækifæri ónotað að stöðva dýrtíðina, þegar átti að tryggja honum völd áfram? Ég get ekki skilið það öðruvísi, þar sem hann hafði verið forsrh. í 8 ár og talið sig til þess vel færan, en að hann hafi þá eygt möguleika til þess að vera það áfram undir öðrum kringumstæðum.

Stuttu eftir að þetta leystist upp, fer annar flokkurinn, Framsfl., að halda því fram, að nú eigi að koma vinstri stjórn. Framsfl. eigi að mynda stj. með kommúnistum og Alþfl. Upp úr þessu myndast svo verulegur skoðanamunur milli mín og þessara manna í Framsfl. Ég stóð á gamla grundvellinum, ég áleit ólöglegt fyrir flokkinn að fara út af honum. Svo líða 2 ár, yfir á vordaga 1944, þangað til næst er haldið flokksþing framsóknarmanna. Þá beitti hv. þm. Str. sér fyrir því að fella burtu þetta bann á samvinnu við byltingarflokk. — Ég tek frá árin 1942–1944, þegar núv. formenn flokksins beita sér fyrir að þverbrjóta samþykktir flokksins. Nú vil ég spyrja hv. þm. Str.: Hvaða afsökun hefur hann fyrir því að þverbrjóta svo samþykktir flokksins? Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að eftir að stofnlög flokksins höfðu verið þverbrotin, hafi skipulag þeirrar stofnunar verið brotið niður. Þess vegna er það, að samhliða því að ég óska eftir svörum frá hv. þm. við þessum spurningum, þá geta þau harðyrði, sem hann sendir mér í blöðum, ekki grundvallazt á öðru en því, að ef ég nú skyldi fylgja þessu frv. í andófi við samþykktir flokksins, þá væri ég brotlegur. Nú vil ég ekki fullyrða, hvað ég geri. Það gætu komið fram svo glögg rök frá hv. þm. Str., að mér fyndist, að ég ætti að beygja mig fyrir flokkslögunum. Ég er að bíða eftir því að fá að heyra hjá hv. þm. Str. rök fyrir því, hvernig honum dettur í hug, að nokkur maður áliti, að flokkslög Framsfl. gildi, eftir að ráðamenn flokksins eru búnir að troða á þeim í tvö ár. Jafnframt álít ég, þó að það liggi ekki beint við, að það sé rétt, að hann útskýri, hvernig stóð á því, að hann tók þessa undarlegu kúvendingu til samstarfs við kommúnista, þvert ofan í samþykktir flokksins. Ég veit, að hv. þdm. skilja það, að svo framarlega sem hv. þm. Str. getur ekki komið með mjög skilmerkilega greinargerð fyrir því, hvernig honum og hv. 2. þm. S.-M. leyfist að þverbrjóta stofnlög Framsfl., þá geti það tæplega talizt svo mikil höfuðsynd, þó að mér, sem gömlum manni, detti í hug að fara í fótspor þessara ungu og rösku manna og brjóta eitthvað lítils háttar einu sinni. Ég bíð eftir hinu viturlega orði frá hv. þm. Str.