12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti hv. þm. S.-Þ. yfir því, að hann mundi gera grein fyrir atkv. sínu við þessa umr. Hann hefur nú haldið hér 2 klukkustunda ræðu í sambandi við þessa yfirlýsingu. — Það hefur nú tekizt í hv. Nd. að gera þetta litla mál að einhverju stærsta pólitíska máli þingsins. Þar var það þvælt dag eftir dag í löngum og hörðum umr., og nú virðist hér vera byrjað á því sama, að halda hér um þetta margar og langar ræður, ef marka má á frumræðu þeirri, sem hv. þm. S.-Þ. flutti hér í dag. Hann byrjaði að vísu með því að ætla að skýra það fyrir okkur, sem höfum greitt atkv. móti frv. hingað til, hvað við værum á rangri leið. Annars gekk ræða hans, eins og svo oft áður hér á þ. síðustu ár, út á það að gera alveg sérstaklega uppgjör í Framsfl. á milli hans og núv. formanns flokksins. Kom þá kafli ræðunnar lítið við þessu máli, og skal ég ekki blanda því inn í mínar aths. Ég vil hins vegar í tilefni af því, sem hann skaut til mín, að ég væri hér algerlega á rangri línu og hefði ekki kynnt mér þetta stutta frv., — benda honum á, að það, sem hann hélt fram í ræðu sinni, bendir til þess, að hann hafi alls ekki lesið frv. Hann hélt því fram okkur til leiðbeiningar, og sneri sér aðallega til mín og hv. þm. Dal., að þetta væri prófsteinn á það, hvort við tryðum bændum til þess að fara með þetta fé eða ekki, því að þeir gætu alltaf skilað þessu fé aftur til Búnaðarfélagsins. En nú vil ég benda hv. þm. S.-Þ. á það, að í 3. málsgr. frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Fé sjóðsins skal um næstu 10 ár skipt á milli búnaðarsambanda landsins í réttu hlutfalli við það, sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum. Skulu samböndin verja þessu fé til jarðræktar og annarra félagslegra framkvæmda á sambandssvæðinu, eftir því sem aðalfundur ákveður á hverjum tíma.“ Hvernig má skilja það, þegar Búnaðarbankinn er búinn að skipta þessum gjöfum eða þessu fé til bænda, að þá geti þeir hlaupið með það í búnaðarfélögin, ef þeir eiga að uppfylla þessi ákveðnu lög? Mér skilst, að hér sé fyrirskipað, að þessu fé skuli varið til opinberra framkvæmda.

Öll ræða hv. þm. S.-Þ. var sem hann mælti á móti betri vitund, og er augljóst, að hann hefur ekki lesið þetta frv. Annars minnti ræða hans helzt á gamlan tengdaföður, sem tapað hefur auðugum biðli vegna ljótrar og illrar dóttur sinnar, eða hjónabandsmiðlara, sem misst hefur milliliðagróða, sem hann átti von á.

Ég orðlengi ekki um þennan hluta ræðu hv. þm. S.-Þ., en vegna tilefnis mun ég snúa orðum mínum til þeirra manna, sem hafa sótt þetta mál í báðum deildum. Frv. gerir ráð fyrir því, að fé sé safnað í sjóð en dreift síðan út á meðal bænda. Útgerðarmenn mundu sakna þess, ef eins væri farið að með þeirra sjóð. Það er alls enginn munur á því að skipta öllum fiskveiðasjóði á milli útvegsmanna á öllu landinu, og að skipta búnaðarmálasjóði milli bænda, nema þá að einhver önnur öfl séu á bak við en nefndarálitið segir til um, og ég vona, að sú óhamingja hendi ekki hér í hv. Ed. Alþ., að sú stefna verði ofan á. Mér þótti rétt að taka þetta fram, að ég er í andstöðu við minn flokk í þessu máli.

Það er hættulegt að halda áfram á þessari braut, en ég ætla nú ekki að orðlengja þetta frekar, en áður en ég lýk máli mínu, þá leyfi ég mér að bera fram skrifl. brtt. við 1. gr. frv., að 3. málsgr. hennar falli niður. Ef hún verður samþ., fær sjóðurinn að standa óhreyfður, unz hv. sækjendur þessa máls vitkast betur.