12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. þm. S.-Þ. hafði haslað hv. þm. Str. hér völl í kvöld, og mun ég eigi tefja þeirra vopnaviðskipti, en svara lítillega ummælum hv. þm. S.-Þ., þar sem hann taldi rétt, að sjóður þessi færi til búnaðarsambandanna, og er rétt, að hringrásin haldist, fyrst hún er byrjuð. Alþingi úthluti búnaðarsamböndunum fé og búnaðarsamböndin svo aftur Búnaðarfélaginu. Hér er um mikið alvörumál að ræða, og það má þingheimur vita, að ef þessi breyt. nær fram að ganga, að stéttarfélag bænda fái heimild til þess að innheimta þetta fé, þá er eins gott að gefa holl ráð, því að krókaleiðir eru leiðinlegar. Ég tek það fram, að breyt. er um það, að Búnaðarfélagið eigi að hafa umráð yfir sjóðnum. Búnaðarmálasjóður og Búnaðarbankinn er prófsteinn á það, hvort hv. þdm. treysta stjórn stéttarfélags bænda eður eigi.

Hv. þm. S.-Þ. virtist muna það, að nú er föstutími og að lesin sé nú píslarsaga. Hann snerist hatramlega að Búnaðarfél. Íslands og búnaðarþingi. Auðheyrt var á honum, að hann vildi refsa þessum stofnunum. Þessi hv. þm. sagði, að búnaðarþingsmenn hefðu verið undirokaðir og neyddir til eftirgjafar á kjötverði í fyrra hér á landi, og hann talaði einnig um óheimild okkar á búnaðarþingi til þess að ganga inn á þetta, en ég verð að segja þessum þm. það, að áður en þessi ákvörðun var tekin á búnaðarþingi, þá var ég búinn að halda 3 fundi um málið í mínu kjördæmi, áður en þetta var samþykkt. Hann áminnti einnig búnaðarþing og Búnaðarfélagið um að skipta sér ekki af því, sem þeim kæmi ekki við. Nei, þeir munu ekki láta hv. þm. S.-Þ. skapa sér reit.

Þá var þessum hv. þm. tíðrætt um hin nýju bændasamtök, sem stofnuð voru að Laugarvatni, og þótti það ærið í ráðizt, að búnaðarþing sagði ekki já og amen við þessum samtökum. En hvernig var þetta? Var ekki læðzt hér beint inn á starfssvið Búnaðarfélagsins, og var það ekki meiningin, að Búnaðarfélagið kysi menn á þetta þing? Ef svo hefði ekki verið um hnútana búið, þá hefði búnaðarþing ekki skipt sér af þessum samtökum. Mér skildist á þessum hv. þm., að ráðunautarnir væru teknir af Búnaðarfélaginu og settir upp í stjórnarráð og sætu þar án þess að vera á vegum félagsins. Þetta er svo mikil fjarstæða, að hún er ekki svaraverð, og ég verð að segja það, að þessi hv. þm. hefur oft verið nær sannleikanum áður en nú í þessari síðustu ræðu sinni.