04.02.1946
Neðri deild: 63. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

149. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Þetta frv. er flutt af iðnn. samkv. ósk bæjarstjórnar Reykjavíkur. Nm. hafa áskilið sér óbundnar hendur um breyt., sem fram kynnu að koma. Þetta frv. er endurskoðun á l. um virkjun Sogsins frá 1933, endurskoðun, sem fer í þá átt, að þar sem þau l. ná aðeins til eins virkjunarstaðar í Soginu, tekur þetta frv. til fullvirkjunar alls Sogsins. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist lán, sem Reykjavíkurbær og Sogsvirkjunin kunna að taka til að koma upp mannvirkjum við Sogið. Er sú upphæð tiltekin 34 millj. kr. Með þessu frv. er Sogsvirkjuninni og Reykjavíkurbæ heimilað að reka fyrst og fremst orkuver við Ljósafoss og reisa einnig og reka önnur orkuver við Sogið og gera afspennistöðvar til þess að sem hægast sé að afhenda orkuna til Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða til annarra notenda utan orkusvæðis Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Áður en ráðizt er í aukningu samkv. frv., er Sogsvirkjuninni og Reykjavíkurbæ skylt að senda ráðh. uppdrætti og lýsingar, og það er á hans valdi að krefjast breyt. á þeim, ef hann eða sérfræðingar ríkisstj. telja þær æskilegar vegna almennra hagsmuna.

Þá er í frv. ákvæði um það, að ríkisstj. láti í tæka tíð gera umbætur á vegum, sem nauðsynlegar verða vegna flutninga í sambandi við fyrirhuguð mannvirki, og að ríkið kosti þessa vegagerð að helmingi móti Sogsvirkjuninni. Enn fremur er ákveðið, að Sogsvirkjunin megi telja þennan kostnað til stofnkostnaðar. Þá eru enn ákvæði í frv., að telja megi til stofnkostnaðar vatnsréttindi, sem þegar hafa verið keypt, og enn fremur að Sogsvirkjunin greiði ríkissjóði andvirði þeirra vatnsréttinda, sem hann á, jafnskjótt sem fengið er lán til framkvæmda, eftir nánari ákvæðum, sem til eru tekin í gr., sem um þetta fjallar. Þá er, eins og ég sagði áðan, tiltekið, að ríkissjóður ábyrgist allt að 34 millj. kr. til Reykjavíkur til þessara framkvæmda, enda samþ. ráðh. lánakjör. Ég býst við, að hér sé svo til ætlazt af bæjarstjórn Reykjavíkur, að þessi upphæð komi til viðbótar. þeim milljónum, sem ríkissjóður hefur þegar ábyrgzt vegna orkuversins við Ljósafoss. Samkv. ákvæðum síðustu gr. þessa frv. eru úr gildi numin l. nr. 82 19. júní 1933, um virkjun Sogsins. Ég tel það þess vegna réttara, að aukið verði hér inn í, að þessi ábyrgðarupphæð komi til viðbótar þeim upphæðum, sem ríkissjóður er þegar ábyrgur fyrir, og mun ég milli umræðnanna bera mig saman við meðnm. mína um þetta atriði.

Þá segir í 6. gr., að Sogsvirkjunin selji raforku til Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en eins sé henni skylt að láta í té raforku við stöðvarvegg í orkuverum og við afspennistöðvar til almenningsnota í nálægum héruðum við kostnaðarverði og að viðbættum allt að 10%. En verðið má þó aldrei vera hærra en svo, að jafngildi því verði, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur borgar fyrir raforkuna miðað við afhendingu á sama stað. Ef það þykir nauðsynlegt til þess að fullnægja raforkuþörf að auka við þessa virkjun, þá er Reykjavíkurbæ skylt að framkvæma þessa aukningu, þar til Sogið er virkjað að hálfu leyti, enda ábyrgist ríkissjóður lán í þessu skyni fyrir Reykjavíkurbæ. En þegar að því kemur að auka virkjun fram yfir fullvirkjun til hálfs, ber ríkissjóði að sjá um þessa aukningu, nema öðruvísi verði um samið. Er þá ríkissjóði ætlað að gerast meðeigandi í Sogsvirkjuninni, og kaupi hann tiltölulegan hluta af þeim mannvirkjum, sem fyrir eru í fyrirtækinu, þannig að hann verði meðeigandi fyrirtækisins að sömu tiltölu og nemur aukningu vélaaflsins móts við það vélaafl, er fyrir var, og eigandi að helmingi, þegar fallvatnið er fullvirkjað.

Ég hef nú rakið í stuttu máli innihald þessa frv. Eins og ég gat um, er það flutt að tilmælum bæjarstjórnar Reykjavíkur. Hefur hún athugað það á sínum tíma og gert á því nokkrar breyt. til samræmis við frv. til raforkulaga, sem liggur fyrir Alþ. Það er ætlazt til, að þetta frv. komi á eftir samþykkt raforkulagafrv. Eins og kunnugt er, er fullvirkjað orkuver við Ljósafoss, og orkan, sem þaðan fæst, er að heita má fullnotuð. Mest af þeirri orku er notað í Reykjavík, eða um 90%, en afgangurinn í Hafnarfirði og hér í nágrenni.

Þetta er endurskoðun laganna um virkjun Sogsins, og aðalbreyt. er sú, að þetta nær til alls Sogsins og hefur í för með sér aukna ábyrgð fyrir ríkið. — Ég óska svo eftir að málinu verði vísað til 2. umr.