04.02.1946
Neðri deild: 63. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Það hefði nú verið eðlilegra, úr því að bæjarstjórn Reykjavíkur stendur að þessu frv., að það hefði verið flutt af þm. Reykjavíkur. Hv. iðnn. hefur tekið þetta mál að sér, en ég tel, að það heyri betur undir fjhn., og hefði því verið eðlilegra, að það hefði verið flutt af henni. Það má nú e. t. v. segja, að þetta skipti nú ekki svo miklu máli, en þó er það venja, að þær n., sem málin heyra aðallega undir, flytji þau. Um þetta mál er ekki að efast, að það heyrir undir fjhn., og mig furðar stórlega á starfshögun þessa máls. En eðlilegast hefði mér þótt, að þm. Reykv. hefðu flutt þetta. sökum þess, hvernig þessu er háttað. Hv. frsm. leggur þetta hér fyrir, en lætur þess ekki getið, hvort hann sé fylgjandi frv.

Þótt ekki megi segja, að stóra raforkulagafrv. sé alveg tekið aftur með þessu, þá er þó höggvið stórt skarð í það, því að eitt sveitarfélag hefur umráð um þessa virkjun. Ríkissjóður er enginn meðeigandi eða hluthafi í þessu, og brýtur það algerlega í bága við frv. um hina almennu raforkuvirkjun um landið allt. Ég tel engan vafa á því, að öruggast sé, að ríkið standi að þessu, og tel ég alveg fráleitt að taka upp aðferð sem þessa, sem brýtur í bága við hina almennu raforkulöggjöf. Ríkið getur alveg eins staðið að þessu eins og bæjarfélagið, þar sem ríkið gengur í ábyrgð fyrir láni til framkvæmda þessara, og Reykvíkingar þurfa einskis í að missa, þótt ríkið standi að þessu. — En ef þessi leið verður farin, þá má gera ráð fyrir, að aðrir staðir geti einnig komið, t. d. Akureyri og Borgarfjörður, og ef svona er farið að; þá er búið að eyðileggja tilgang raforkul., og vil ég vænta þess, að hv. iðnn. taki þetta til athugunar.

Ef Reykvíkingar hafa óttazt, að stækkun Sogsvirkjunarinnar drægist, þá skal ég styðja það, að sú stækkun verði framkvæmd, svo að það tefji ekki, að Reykvíkingar fái þetta svo fljótt sem unnt er. — Og þetta frv. gengur í þveröfuga átt við þróun þessara mála í öðrum löndum, sem beinist að því, að ríkið sé sem mest eigandi að þessum framkvæmdum. Og það er lítilfjörleg bót, að ríkið geti orðið þátttakandi í þessu, þegar búið er að virkja, og ef nú einhver gróðavon yrði, þá fái aðrir en ríkið að gerast þátttakendur. Það er sungið við sama lag á, bænum þeim. Það er að vísu ekkert illt um þetta að segja, en það kann að dragast, að ríkið verði meðeigandi. Og hér eiga allt önnur ákvæði að gilda fyrir þá, sem búa utan Reykjavíkur, og eignarréttur þeirra ekki eins helgur. Ég drep á þetta aðeins til þess að sýna blæinn, þótt það sé aukaatriði hjá kjarna málsins. Þetta frv. hrópar gegn öllum röksemdum, og er lítt skiljanlegt, að slíkt skuli koma fram í réttarþjóðfélagi.