04.02.1946
Neðri deild: 63. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

149. mál, virkjun Sogsins

Sigfús Sigurhjartarson:

Maður skyldi ætla af orðum hv. 1. þm. Árn., að hér væri ægilegt mál á ferðinni, sem hrópar gegn réttaröryggi og skynsemi. Hann sagði, að það væri óeðlilegt, að þetta frv. væri ekki flutt af þm. Reykjavíkur. Þetta mætti í fljótu bragði virðast rétt, en þegar nánar er að gætt, þá er þetta eina eðlilega leiðin. Það er kunnugt, að iðnn. fjallaði um það allsherjarfrv., sem lagt hefur verið fram um þessi mál, og bæjarstjórnin gat ætlað, að hér bryti e. t. v. eitthvað í bága við heildarlöggjöfina, og því eðlilegast, að sú n., er um það fjallaði, tæki einnig við þessu frv. Hefur n. gert á þessu samræmisbreytingar, og kann ég henni þakkir fyrir. — Hv. 1. þm. Árn. sagði, að þetta heyrði frekar undir fjhn., og er það rétt, að þetta heyrir líka undir hana, hvað ríkisábyrgðina snertir.

Þegar ég nú þannig hef minnzt á inngangsatriði hv. 1. þm. Árn., skal ég snúa mér að nokkru að efnishlið þessa máls, áður en ég rek einstök atriði í ræðu hans.

Hvernig er aðstaða Reykjavíkur samkv. þessu frv. ? Hver er réttur bæjarins og hver er réttur ríkisins? Reykjavíkurbær fær rétt til að reisa stöð við Sogið. Samkv. 3. gr. frv. er greinilega tekið fram, að ríkið á þar um allar framkvæmdir að hafa mjög víðtækan íhlutunarrétt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Áður en byrjað er á nýju verki, aukningu eða breytingu á mannvirkjum, sem fyrir eru, skal senda ráðherra uppdrætti að hinum fyrirhuguðu framkvæmdum ásamt lýsingu á þeim. Getur ráðherra krafizt þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun verksins, sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna að dómi sérfræðinga ríkisstjórnarinnar.“

Þetta er mjög rétt og eðlilegt. Með því er tryggt, að ríkisvaldið geti í öllum megindráttum ráðið, hvernig virkjunum er hagað, og gert kröfu til Reykjavíkur um það, að hagsmunir annarra landsmanna, sem hlut eiga að máli, séu einnig tryggðir. Fæ ég ekki betur séð en ríkinu sé gefinn hinn meiri réttur, og Reykjavík hinn minni.

Við höldum áfram að athuga málið nokkru nánar, og er þá 6. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Sogsvirkjunin selur raforku til Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Skylt er henni einnig að láta í té raforku við stöðvarvegg í orkuverum og við afspennistöðvar til almenningsnota í nálægum héruðum við kostnaðarverði og að viðbættum allt að 10%. Þetta verð má þó aldrei fara fram úr því, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur borgar fyrir raforkuna miðað við afhendingu á sama stað. Skal verð þetta, ef samkomulag næst eigi, ákveðið með mati samkvæmt 147. gr. 1. b. vatnalaganna frá 1923.“

Hér er nú hvorki meira né minna en ákveðið alveg skýrt, að Reykjavík sé skylt að láta raforku til annarra héraða, við verði, sem aldrei má fara fram úr verði, sem Rafveita Reykjavíkur kaupir rafmagn af orkuverum í Soginu. Og sé ósamkomulag, ber að skjóta málinu til mats. Mér sýnist hér, enn sem fyrr, að ríkið fái meiri réttinn, en Reykjavík hinn minni. Ég undirstrika, að Reykjavík er skylt að láta orkuna af hendi. Þetta er ekki nýtt ákvæði í l. um Sogsvirkjun. Þetta hefur verið í eldri l., og samkv. því ákvæði hefur bærinn látið orku af hendi við Hafnarfjörð og Keflavík, og fleiri þorp munu á eftir koma. Og þetta gerist á þeim tíma, þegar Reykjavík hefur ekki nægilega raforku fyrir sig. Það skal ekki á þetta deilt sérstaklega. Þörf og réttur Hafnarfjarðar og þorpanna suður með sjó til raforku er vitanlega rík, alveg eins og þörf og réttur Reykjavíkur. En ég get ekki annað sagt en að Reykjavík, sem í þessu tilfelli hefur reist orkuverin og rekið þau, hún fær minni rétt, þegar ríkinu er gefinn hinn meiri rétturinn, þar eð ákveðið er, að rafmagn skuli selt til annarra staða, jafnvel þótt eitthvað skorti á að fullnægja orkuþörf Reykjavíkur.

Þá er að athuga 7. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar auka þarf virkjun fram yfir það, að Sogið sé virkjað til hálfs, skal ríkisstjórnin framkvæma aukninguna og gerast meðeigandi að Sogsvirkjuninni, nema samkomulag verði við Reykjavíkurbæ um aðra tilhögun.“ Hér er mjög skýrt til orða tekið. Ríkið skal vera meðeigandi. Það er á valdi ríkisstj. að gera þetta skilyrðislaust. Hún skal gera þetta. Henni er að vísu heimilt að gera samkomulag við Reykjavíkurbæ um aðra tilhögun, en því aðeins, að vilji sé innan ríkisstj. Og að sjálfsögðu hefur Alþ. sitt vald og rétt til að skera að lokum úr, eftir því sem ástæða er til. Um eitt atriði er svo skipt réttindum og skyldum milli Reykjavíkur og ríkisins, að Reykjavík er skyld að halda áfram virkjunum þangað til Sogið er til hálfs virkjað, og skyld að láta öðrum héruðum í té rafmagn, jafnvel þótt Reykvíkinga sjálfa skorti rafmagn. Og ríkinu er skylt að ganga í þessa virkjun, þegar hálfvirkjað er, og verður fyrirtækið þar á eftir sameign ríkis og bæjar. — Ég hygg, að ef hv. þm. athuga frv. á rólegan hátt, muni þeir komast að þeirri niðurstöðu, að við erum ekki með frv. að gera uppreisn gegn heildarlöggjöfinni um virkjun Sogsins, og að hér er alls engin ósanngirni af hálfu Reykjavíkurbæjar, hvorki gagnvart ríkisvaldinu né gegn öðrum héruðum, sem þannig eru í sveit sett, að þau gætu notið rafmagns frá Soginu.

Þá er að lokum nokkur ástæða til að gera grein fyrir, hvers vegna Reykjavíkurbær vill nú hefjast handa um þetta, og að ekki er, eins og hv. 1. þm. Árn. heldur fram, rétt og eðlilegt, að Reykjavíkurbær stöðvi sínar virkjanir og ríkið taki nú þegar við. Hvers vegna Reykjavíkurbær vill út í þetta fara, er auðséð. Bæinn vantar rafmagn í stórum stíl, og sú vöntun mun verða enn brýnni sem lengra líður. Því er nú svo háttað, að bærinn hefur sjálfur leyst þessi mál sín, og það ekki með óeðlilegum hætti. Það er eðlilegt, að svo stórt bæjarfélag hafi leyst það nauðsynjaverkefni að koma upp rafveitu til almenningsnota. Bærinn hefur nú þegar gert mjög víðtækan undirbúning að framhaldsvirkjun, látið gera teikningar og ýtarlegar rannsóknir á því, hvernig þeirri virkjun verði bezt fyrir komið. Þessar áætlanir allar verða í samráði við Rafmagnseftirlit ríkisins, sem er fulltrúi ríkisvaldsins, og ég hygg, að segja megi með fullri vissu, að þessi undirbúningur sé það langt kominn, að mögulegt sé að hefja starf þegar á komandi sumri, og er það nauðsyn. Væri hinn hátturinn upp tekinn að láta verkið nú þegar í hendur ríkisins og stöðva framkvæmdir Reykjavíkurbæjar, tel ég litlum efa bundið, að verða mundi til tafar fyrir málið. Og það mundi verða eini vinningurinn, því að þó að ríkið færi að virkja, mundi réttur annarra héraða en Reykjavíkur á engan hátt verða betur tryggður en hann er tryggður í þessu frv. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að ríkisstj. geti hafizt handa o. s. frv. En einu vildi ég biðja hann að svara í því sambandi. Hvers vegna hefur ríkið ekki hafizt handa? Hver var, lofsællar minningar, um langt skeið ráðandi stjórn í landinu, sem þessi þm. studdi? Allan þann valdatíma streymdi Sogið sína leið til sjávar, flutti með sér þá geysiorku, sem við allir þekkjum, þetta bezta fallvatn landsins þá eins og nú. Og samkv. eldri l. um Sogsvirkjun gat ríkisvaldið hafizt handa eða gripið inn í, orðið meðeigandi að virkjuninni og hafið stórar framkvæmdir, lagt taugar um Árnessýslu og suður með sjó og út um hvippinn og hvappinn, eftir því sem við þótti eiga. Þetta gat ríkisvaldið gert, en gerði það ekki, — og ekki heldur, þó að það væru framsóknarmenn, sem sátu á valdastólum, og það væru framsóknarmenn, sem réðu mestu — stundum öllu — í sölum Alþingis. Ég er ekki í vafa um það, að reynslan hefur sýnt, að Reykjavíkurbær hefur verið mikilvirkari aðili á þessu sviði, enda er sannast mála, að Reykvíkingar eru þeir, sem brýnasta hafa fundið þörfina fyrir aukna raforku, og engum lá nær en þeim og þeirra fulltrúum að sjá um þessar stórkostlegu framkvæmdir. Og mér er nær að halda, að ef Reykjavíkurbæ hefði verið bannað að virkja Sogið, eins og mér skilst hv. 1. þm. Árn. vilja, að nú sé gert, — þá er mér nær að halda, að það hefði orðið um litlar framkvæmdir að ræða samanborið við það, sem nú er, og að þannig hefði verið séð fyrir þörf Reykvíkinga, að á engan hátt hefði verið við hlítandi, og er nógu slæmt eins og er.

Ég skal svo ekki eyða meiri tíma í að ræða þetta mál. Ég vil vænta þess, að hv. þm. taki þessu máli yfirleitt með sanngirni og skilningi. Ég veit, að hv. iðnn. mun hafa málið til meðferðar meðan það er innan þessarar d., og mun vera fús að ræða brtt. og taka við aths., sem fram kunna að koma, hvort heldur er frá þm. eða öðrum aðilum. Ég vænti þess, að frv. verði fljótlega afgr. gegnum d. og meginefni þess verði ekki haggað, því meginefni, að Reykjavíkurbæ verði kleift að auka sínar virkjanir og ríkinu jafnframt gefinn sá ríki réttur, sem í frv. felst, að hafa íhlutun og tryggja hag alls almennings í sambandi við þær virkjanir, sem fram kunna að fara.