06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Ég var hálfpartinn að búast við því, að hæstv. samgmrh. tæki hér til máls. (Samgmrh.: Hann heyrir). Mér hefði verið meiri ánægja að heyra eitthvað til hans, því að ég hafði búizt við, að hann bæri þær tilfinningar í brjósti fyrir sínu fóstri, þar sem lagzt er svona hroðalega á það og reynt að tortíma því, og að hann mundi ekki horfa á slíkt án þess að bera fram einhverjar varnir. Það hefði mátt ætla, að móðurtilfinningarnar væru það ríkar. Og áður en ég nota minn veika rétt, sem hæstv. forseti hefur gefið mér, væri mér mikil þökk á að heyra álit hæstv. samgmrh. En það getur þó komið á eftir, og ég vona, að það verði til varnar frv. í Ed., sem með þessu frv. á gersamlega að tortíma.

Það verður aldrei skilið öðruvísi, hvað mörg orð sem verða sögð um það, að efni þessa frv. afturkallar mikið af hinu frv. fyrir stór svæði landsins, og eins og kom eðlilega fram í ræðu hv. þm. Borgf., þá verður framkvæmdin í raforkumálunum á annan veg með þessu frv. en gert er ráð fyrir með því frv., sem er í hv. Ed., því að þau brjóta gersamlega í bága hvort við annað. En verði hinum svæðunum gefinn sami réttur og hér er ætlazt til, að gert verði um virkjun Sogsins fyrir Reykjavík, verða Austfirðir og Vestfirðir algerlega eftir og algerlega búið að eyðileggja heildarvirkjunina. Ef Laxárvirkjunin gengur þannig fyrir sig og Akureyrarbær stendur að henni, og ef svo þeir, sem hafa rétt til Andakílsár, fara eins að, og Sogið virkjað fyrst að hálfu leyti, skulum við segja, sem stendur þó til, að verði að öllu leyti, hvað er þá eftir? Það eru Austfirðir og Vestfirðir, af því að þeir eru utan við þetta kerfi. Milli þessara höfuðstöðva kynnu að koma einhverjar smástöðvar. Það kynni að vera, að það bætti eitthvað úr, en meginkjarni frv. þess, sem upphaflega var talað um, er allur runninn sundur og án nokkurs samhengis, og málið er komið með þessu í hendur félaga, sumpart bæjarfélaga og annarra félaga, en ekki í höndum ríkisins. Menn geta náttúrlega haft þessar framkvæmdir, en þá þýðir ekki að vera með þessi látalæti og tala um, að þetta frv. sé í samræmi við hitt frv. og það sé tryggt með slíkri löggjöf að koma á heildarvirkjun, sem ríkið standi að. Það var við því að búast, að hv. þm. Borgf. léti þessa skoðun í ljós. Og þó að hv. þm. Ak. sé ekki farinn að tala í þessu máli, þá er ekki nema eðlilegt, að hið sama komi fram hjá honum. En ég harma það, að svo virðist sem hv. þm. Borgf. sé til með að fylgja fram þessari stefnu. En þær fullyrðingar hv. þm., að ekki væri enn farið að virkja Andakílsána, ef þeir aðilar, sem hafa haft verkið með höndum, hefðu ekki gert það, efa ég að séu réttar, enda hefur ekki staðið á okkur, sem í mþn. störfuðum, og öðrum, sem vilja koma þessu heildarkerfi á, að láta ríkið gera ráðstafanir í þessa átt, og aðstoð okkar var boðin fram varðandi virkjun Andakílsárinnar.

Hv. 8. þm. Reykv., sem hefur verið aðalandmælandi minn í þessu máli og, eins og skiljanlegt er út frá hans sjónarmiði, virðist líta svo á, að þessi mál séu bezt komin í höndum einhverra félaga, í þessu tilfelli Reykjavíkur, það er náttúrlega hans skoðun, og við því er ekkert að segja. En hv. þm. ætti ekki að vera að gera það að gamni sínu að reyna að telja mönnum trú um, að ákvæði þessa frv. séu í samræmi við hitt frv. Slíkt þarf ekki að bera fram fyrir nokkurn mann, sem skilur íslenzkt mál. Enda kom það greinilega fram í ræðu hv. þm. Borgf., að hann finnur mun á efni þessara frv., og þar skakkar líka miklu. Hv. þm. sagði, að þetta frv. sé í samræmi við ákvæði raforkulagafrv. um framkvæmdir, vegna þess að í 1. gr. frv. fælist heimild til handa þeim stöðum, sem eiga rafveitur, til að fara með þær eins og hér er stofnað til fyrir Reykjavík. Það fyrsta, sem ég vil segja þessu viðkomandi, er það, að ef svo er, þá skilst mér, að ekki sé þörf að setja sérstök lög um virkjun Sogsins. Þarf tvöföld lög til þessa? Nægir ekki heimild í einum lögum? Ein lög hafa verið látin nægja. Aldrei hef ég að minnsta kosti heyrt gildi laga vefengt vegna þess, að ákvæði þeirra hafi aðeins staðið í einum lögum. Þetta er því aðeins játning þess, eins og líka rétt er, að heimild til svona framkvæmda er ekki til í lögum. Þess vegna þarf að setja lög um það. Og ég vil einmitt minna á það, að við umr. um raforkufrv. hér í d. minntist ég einmitt á það, að svo kynni að fara, að þetta ákvæði 1. gr. yrði reynt að túlka í þessa átt, og gerði ég í því sambandi fyrirspurn til hæstv. samgmrh. um, hvernig skilja bæri þessa gr. Hæstv. samgmrh. var svo góður og hreinskilinn, að hann ræddi ýtarlega, hvað í þessu ákvæði fælist, og hæstv. ráðh. taldi, að því færi fjarri, að þessi heimild næði til þessarar virkjunar. Ég vil geta þess að gefnu tilefni, að ég lít alls ekki á mig sem kunnáttumann í rafmagnsmálum eða félaga mína í n. Ég held meira að segja, að mþnm., sem klauf sig út úr, sé ekki heldur neinn kunnáttumaður. Hann er verkfræðingur, — ég held ég megi segja byggingaverkfræðingur. En þeir kunnáttumenn, sem eitthvað hafa um þetta mál fjallað, t. d. Steingrímur Jónsson, Jakob Gíslason o. fl., man ég, að skrifuðu undir ýtarlega skýrslu, þar sem þessi skoðun, sem ég held fram, er sett fram af þeim sjálfum. Svo sannar það vitanlega ekki neitt, þótt það kunni að vera, að þessir menn telji nú, að Reykjavík eigi að virkja Sogið. Það varðar mig ekkert um: Ég ber enga ábyrgð á því, þótt þeir fallist nú á till., sem brýtur í bága við það, sem þeir hafa áður talið einfaldast og hagkvæmast í framkvæmd. Það er ekki mitt að svara fyrir það.

Hv. þm. vék að því, að ég hefði staðið að till. um dreifingu á raforkumálasjóðnum. Það er rétt, að ég flutti till. um að útiloka ekki þá menn, sem eru alveg útilokaðir frá þessum kerfum og hafa enga leið til að fá raforku til sinna nota nema með því móti að standa straum af því sjálfir. Sú till. var felld, en mig minnir, að önnur till. væri samþ., sem útilokar það ekki, að veitt verði til mótor- og vatnsstöðva á þessum svæðum, en það má líka veita til slíkra stöðva innan heildarkerfisins. Það var ekki eftir minni till. Hæstv. forseti er nú orðinn óþolinmóður, og ég ætla mér ekki að misnota þolinmæði hans frekar.

Hv. 8. þm. Reykv. taldi það óþarfa af mér að telja það geta orkað tvímælis, hvað telja skuli Sogið hálfvirkjað, því að það lægi ljóst fyrir. Ég hygg, að það liggi ekki ljósara fyrir en t. d. ákvæði 1. gr. raforkulagafrv. með þeirri skilgreiningu, sem fram hefur komið. Er þó þegar búið að snúa svo út úr því ákvæði, að það er talið vera í samræmi við ákvæði frv., þar sem leyfa á Reykjavík að virkja hálft Sogið.

Þakka ég svo hæstv. forseta þolinmæðina.