06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

149. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Ég vil svara nokkru aths. hv. þm. V.-Húnv. Þá er fyrst aths. hans við 5. gr. frv. Ég gat þess í framsöguræðu minni, að í þessu atriði væri um misgáning að ræða í frv., og benti ég jafnframt á það, að n. mundi athuga það nánar. Þetta gat hv. þm. vitað, ef hann hefur hlustað á framsöguræðu mína.

Viðvíkjandi 10% álagningu, sem ræðumaður gat um, veit ég ekki vel, hvernig sá hundraðshluti er tilkominn, því að þetta mun vera úr gömlum lögum, en þetta má athuga.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum til þm. Borgf. Ég þóttist hafa svarað beiðni þm., hvort n. vildi ekki taka till. til baka. Okkur þótti rétt að hafa þessa till. í sérstöku frv., en fella hana ekki inn í hitt frv. En þetta verður athugað á fundi n. Enn fremur taldi þm. Borgf., að rök mín fyrir, að veita beri ábyrgð fyrir allri upphæðinni, væru ekki nóg. En ég segi fyrir mig, að mér finnst frekari raka ekki þörf. — Þm. sagði, að Rvík ætlaði eftir þessu að selja orku með ágóða, en hann athugar það ekki, að Rvík er skylt að láta í té raforku til nærliggjandi héraða með kostnaðarverði.

Hv. þm. lét í ljós, að þetta frv. væri óviðeigandi, þar sem það mundi brjóta í bága við frv. um rafveitur, sem nú liggur fyrir þinginu. En þetta er ekki rétt, þar sem Reykjavík hefur mikla sérstöðu, auk þess sem þetta frv. færir henni engin sérstök hlunnindi. En ég lofa því, að þetta skuli allt athugað í nefndinni.