22.02.1946
Neðri deild: 73. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. við 7. gr. frv. þess, er hér liggur fyrir. Mér sýnist nú, að allmjög sé horfið frá því, er raforkulagafrv. var hér á ferðinni, að höfuðorkustöðvarnar skyldu vera reistar af ríkinu, en nú er til þess ætlazt, að Reykjavík hálfvirki Sogið, og þegar lengra er komið, gerist ríkið meðeigandi og haldi svo virkjuninni áfram. En þó segir svo í 7. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta: „Þegar auka þarf virkjun fram yfir það, að Sogið sé virkjað til hálfs,“ — enda er þá miðað við 86000 kw. orku í Soginu fullvirkjuðu, „skal ríkisstj. framkvæma aukninguna og gerast meðeigandi að Sogsvirkjuninni, nema samkomulag verði við Reykjavíkurbæ um aðra tilhögun.“ 1. tölul. í brtt. minni er að fella niður orðin „nema samkomulag verði um aðra tilhögun. Ef ríkið á á annað borð að virkja, virðist tími til kominn, að það gerist nú þátttakandi í þessari virkjun. Ég legg því til, að þessi orð falli niður. Og ég vænti þeirrar sanngirni af Reykjavíkurbúum, að þeir gefi þetta eftir og hafi þetta ekki sem gróðafyrirtæki. Og ekki býst ég heldur við, að þeir vilji gera þetta á kostnað annarra landsmanna. Þá eru brtt. við sömu gr. undir 2. og 3. tölul., og vildi ég biðja hæstv. forseta að bera þá báða upp í einu lagi. Ég get ekki séð neitt á móti því að gera það, sem þessar brtt. fela í sér. Ef ríkinu er það nokkur alvara að greiða fyrir þessu, þá verður það að hafa þarna hönd í bagga, enda hafa okkar helztu kunnáttumenn á þessu sviði hingað til talið bezt, að ríkið hefði þessar framkvæmdir með höndum, og þannig er þetta með ýmsum helztu menningarþjóðum nágrannalandanna.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta.