08.04.1946
Efri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

149. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Páll Hermannsson):

Herra forseti. Það eru nú í gildi lög um virkjun Sogsins, frá árinu 1933. Þau lög voru grundvöllur undir þær virkjunarframkvæmdir, sem þá voru fyrirhugaðar við Sogið. Aðalatriði þeirra l. var ákvæði 4. gr. þeirra um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast 7 millj. kr., sem verja skyldi til þeirra fyrirhuguðu framkvæmda. Nú eru þær fyrirætlanir, sem þá voru fyrirhugaðar, komnar í verk. Ef þetta frv. verður að l., falla gömlu l. um virkjun Sogsins úr gildi, en þau nýju koma í þeirra stað. Þau nýju verða sams konar grundvöllur undir þær framkvæmdir við Sogið, sem nú eru fyrirhugaðar, eins og eldri l. voru á sínum tíma undir þær framkvæmdir, sem þá voru ráðgerðar. Aðalatriði þessa frv. og meginkjarni eru ákvæði 5. gr., þar sem ríkisstj. er heimilað að takast á hendur fyrir ríkisins hönd ábyrgð á 34 millj. kr. láni til hinna nýju framkvæmda.

Þetta frv. var flutt í hv. Nd. og afgr. þaðan og tók þar nokkrum breyt. til samkomulags með mönnum. Iðnn. þessarar hv. d. hefur kynnt sér efni frv. og m. a. borið það saman við eldri lög um virkjun Sogsins, og er n. um það sammála að leggja það til við hv. d., að hún samþ. frv. óbreytt.