13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

149. mál, virkjun Sogsins

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. sagði, að ekki væri hér um neina stórbreyt. að ræða, en það er samt alls engin afgreiðsla á þessu máli, að því er nú fleygt í hendurnar á mönnum, og ég verð að segja það eins og er, að ég hef ekki haft tíma til að lesa frv. yfir, því að ég var upptekinn við önnur störf. — Hins vegar viðurkennir Ed., að hér sé um stórvægilega breyt. að ræða. Öðru breytti d. ekki í frv. Hv. 11. landsk. sagði líka svo, og er ég sammála honum í því og var líka auðheyrt á honum, að hér væri um stórmál að ræða.

Afgreiðslan á þessu máli er sú, að útiloka á hinar dreifðu byggðir frá því að fá rafmagn, og gefa einhverjum aðila sérstöðu til vinnslu raforku úr þessu vatni. T. d. væri þetta möguleiki fyrir Rvík, og hv. 6. þm. Reykv. hefur þau ítök hér á hæstv. Alþ., að hann getur tryggt Reykjavík einokunaraðstöðu í þessu máli. — Nú er farið að leggja línur að Hellu og í Þykkvabæinn, en raforkan, sem fæst, er frá 20 ha. mótor. Ef ríkið má ekki fá raforku inn á línuna, þá er hér um stórfenglega breyt. að ræða á frv. og hún er mjög vafasöm, að allir verði réttlausir, nema einn staður. Það er því fyllilega athugandi að fresta afgreiðslu þessa máls.

Hæstv. samgmrh. gerist nú órór í stólnum. Hann hefur talað alldigurbarkalega um auglýsingaraflínur sínar út um sveitirnar og rær að því öllum árum, að Rvík nái einkarétti á virkjun Sogsfossanna. (Samgmrh.: Má ég segja eitt orð?): Hæstv. ráðh. má tala og spyrja. (Samgmrh: Ég spyr þennan hv. þm. um auglýsingar mínar í blöðum eða útvarpi varðandi þetta mál). Í þskj., sem fylgir þessu máli, eru prentaðar upplýsingar frá rafmagnseftirliti ríkisins og segir þar, að aukning Sogsins geti ekki komið til framkvæmda fyrr en árið 1950. Rvík hefur ekki nóg rafmagn eins og er og hyggst að koma hér upp eimtúrbínustöð þegar á næsta hausti. Það er því alls ekkert annað en auglýsing hjá hæstv. samgmrh. um línulagningar á þessum og þessum stöðum. Ég áfellist skriffinnskuna og auglýsingarnar í þessu efni, því að vitað er, að Rvík hefur ekki nægt rafmagn og hin fyrirhugaða virkjun kæmi í fyrsta lagi til framkvæmda 1950. Þessar auglýsingar eru því ekki annað en pennastrik frá hæstv. samgmrh. Sannarlega er nóg komið af slíkum vinnubrögðum, og ég vil biðja um raunhæfar framkvæmdir og fá rafmagn á línurnar, en ef það fæst ekki, þá hefjist fólkið sjálft handa um eigin virkjun.

Þessi hæstv. ríkisstj. virðist annars vera heilög, og henni ferst illa að tala um tafir á málum, og ef mér sýnist rétt nú, þá eru bekkir stjórnarliðsins þunnskipaðir nú. Ef ekki má taka málið af dagskrá nú, þá vil ég atkvgr.