13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

149. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég þarf litlu að svara rausi hv. þm. V.-Sk. Þó mátti ráða af því, að hvað hann snerti, hefði mátt fresta afgreiðslu málsins. Þó að það sé hér eftir 3. umr., mátti sjá greinilega, að hann hafði ekki kynnt sér efni frv. Hann sagði, að sveitirnar yrðu afskiptar í rafmagnsmálunum, en Reykjavík mundi fá öllu sínu framgengt. En hverju vill Reykjavík koma fram? Það, sem hér er farið fram á, er það, að reist verði rafmagnsstöð fyrir Reykjavík. En í 7. gr. frv. segir, að rafmagn skuli og látið til hinna dreifðu byggða. Framsóknarmenn reyndu ekki að dreifa rafmagni um byggðirnar hér áður, eins og til er ætlazt í þessum l. Árið 1942 héldu þeir að sér höndunum í því máli. En það hefur svo sem komið í ljós, að ekki hefði veitt af að fresta afgreiðslu þessa máls vegna vankunnáttu þessa hv. þm. Það verður þó að teljast hart, þar eð einstakir þm. hefðu átt að geta kynnt sér málið rækilega. — Ég sé þá ekki ástæðu til þess að víkja meira að þessum hv. þm.

Ég veit ekki, hvað hefur komið hv. 1. þm. Árn., þeim orðvara manni, til þess að væna mig hér um ósannindi. Þetta er í þriðja sinn, sem hann bregður mér um ósannindi. Ég vil taka það fram, að þessar till., er hér um ræðir, eru samþ. gegn vilja meiri hl. iðnn. hér í þessari hv. d. og þrátt fyrir mótmæli meiri hl. n. Ég veit því ekki til, að ég hafi farið með ósannindi í þessu máli. En kannske segir hv. þm. þetta vegna þess, að mínar till. hafa fengið meiri byr hér en hans? Hann segir, að tal mitt hér beinist að því að torvelda, að rafmagnið dreifist út um landið. Ég átti sæti í raforkumálan. með hv. þm. Hún klofnaði, og var ég einn í minni hluta. Meiri hl. lagði fram fyrir Alþ. frv., sem reyndist svo gallað, að það var ekki tekið fyrir. Hins vegar var haldið áfram að vinna að málinu og var það birt eftir mínum till., sem bezt má sjá af því, að það er mín afstaða, sem mörkuð er þegar í l.

Ég er kannske ungur á mælikvarða hv. þm., þó að ég sé kominn yfir fertugt. En ég álít, að hv. þm. mætti vera þakklátur fyrir það, að afstaða hans í þessu máli gleymdist.