13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Ég kann ekki við það, að hæstv. samgmrh. skuli bera á móti aths., sem ég gerði um tölur, því það er ekki hægt. Við skulum taka dæmi. Segjum, að varasjóður sé 900 þús. kr., hlutur Reykjavíkur 800 þús. kr., og segjum, að tveimur héruðum séu ætlaðar 100 þús. kr., sinn helmingurinn hvoru, — þá falla þessar 50 þús. kr. ekki í þeirra hlut, sú eign fer til ríkisins, og skiptir ekki máli, þó að ríkið ætli að annast útvegun rafmagnsins í þessi héruð, því ber einnig skylda til í framtíðinni að láta Reykjavík þetta í té. Þess vegna er það rétt, sem ég sagði, en það er ekki rétt, eins og hæstv. ráðh. segir, að það standi nákvæmlega eins á. Hitt er annað mál, að það munu ekki verða stórvægilegir fjármunir frá öðrum héruðum í þessum sjóði, svo að að því leyti varðar það ekki miklu fyrir þau, enda höfuðatriðið, að framkvæmd málsins fari þannig úr hendi, að héruðin fái nægilega raforku, en það er annað mál og breytir ekki þessu. En ég kann ekki við, að hæstv. ráðh., sem er bæði minnisgóður og skýr og þar að auki reikningsmaður, sé að bera á móti þessu.