17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

144. mál, Austurvegur

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég skil það vel, að hv. þm. Barð. talaði um málið eins og hann gerði. Ég skil það vel, að því ókunnugri sem menn eru þessu máli, því meiri vorkunn er þeim mönnum, þótt þeir misskilji það, sem að því lýtur. Ég heyrði það á ýmsum orðum, sem féllu hjá hv. þm. Barð., að hann brestur kunnugleika á málinu. Er ég því ekki að lá honum þau orð, sem hann fór með í sambandi við þetta mál. Mér virtist það vera meginatriði hjá hv. þm., hvort ekki væri hægt að nota þann Tanga veg, sem til er af gömlu leiðinni. Frá sjónarmiði n. og mínu og fjölda annarra, sem þarna þekkja til, þá hentar gamla vegarstæðið ekki, ef koma á á öruggum samgöngum milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins. Það er viðurkennt, að Hellisheiðarvegurinn er lagður þannig, að hann er undir sífelldri snjóahættu. Og þegar maður athugar, að því fylgir sífelldir snjómokstrar, mjólkurleysi fyrir höfuðstaðinn og annað slíkt, þá eru það miklir annmarkar. Vegurinn liggur sem sagt á meginleiðum, þar sem hann er óhæfur. Hann var ákveðinn í meginlínum í kringum 1890. Verkfræðingarnir miðuðu hann þá við allt annað en nú er miðað við. Þá var bara miðað við baggahesta og hestvagna, og miðað var við, að vegurinn yrði notaður á vorin, sumrin og haustin í mesta lagi. Við vetrarferðir var yfirleitt ekki miðað á þeim tíma. Það er því ekki undarlegt nú, þegar komið er fram á 20. öldina, þótt þessi vegur sé orðinn úr sér genginn og svari ekki tilgangi sínum. Og það er vonum seinna, sem farið er að svipast eftir öðrum stöðum, öðru vegarstæði. Við höfum leitað að þessu vegarstæði hvað eftir annað, og eru nú flestir sammála um, að vegurinn skuli lagður gegnum Þrengslin. Það er dálítið einkennileg tilviljun, að 1932 var lögfest vegagerð, sem skyldi vera gegnum Þrengslin. Niðurstaðan hefur orðið sú sama nú. En hvers vegna hefur þeim, sem rannsakað hafa þetta, orðið svona starsýnt á þessa leið? Það er vegna þess, að telja má víst, að þessi leið sé snjóléttust og því trygg allar árstíðir.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, gengur í þá átt, að ákveðin sé sú samgöngubót, sem örugga megi telja milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins o. s. frv. En á Alþ. hafa verið gerðar samþ. um annan veg. Það er því ekkert undarlegt, þótt hv. þm. Barð. og fleiri reki augun í þetta og spyrji, hvernig standi á þessum mörgu leiðum austur. Þarna á að lögfesta veg, sem kostar á þriðja tug millj. kr. milli Reykjavíkur og Selfoss, og svo er líka Þingvallavegurinn og Krýsuvíkurleiðin. Hvað á þetta að þýða? Ég álít, að ekki þurfi að eyða löngu máli til að svara þessu. Þingvallavegurinn er ekki til vegna höfuðstaðarins sérstaklega. Hann er til vegna þess, að helgistaðurinn Þingvöllur er í sveit settur þar sem hann er. Um Krýsuvíkurleiðina vil ég ekki ræða mikið að þessu sinni, það hafa orðið heldur leiðinlegar og langar umr. um þann veg. Ég vil taka það hér fram, að ég þóttist áður hafa orðað það málsatriði vægilega, svo að það þyrfti engan að, særa. En ég hef alltaf haldið því fram, að vegarlagningin í Krýsuvík væri ekki lausn á aðalsamgöngumáli Sunnlendinga. Sú vegargerð kemur ýmsum að notum og er fyllilega réttmæt. Minn fordómur á þeim vegi er nú ekki meiri en þetta. Það er þegar búið að gera þar svo mikið, að ekki verður snúið við. En þó að Þingvallaleiðin sé til og Krýsuvíkurleiðin og þær verði báðar til, þá megum við ekki láta það glepja okkur, því að það er ófullnægjandi frá sjónarmiði allra, sem þekkja aðstæður allar. Þótt niðurstöður segi, að Krýsuvíkurleiðin verði snjólaus, þá verður að taka það með í reikninginn, að Krýsuvíkurleiðin verður í kringum 40 km. lengri en Þrengslaleiðin. Þetta er meginatriði málsins. Á veturna, þegar ferðir hafa stöðvazt um Hellisheiði, er farin Þingvallaleiðin, sem lengur er fær. En það er eftirtektarvert, að um leið og nokkrir möguleikar eru á því, að hægt sé að gera Hellisheiði færa; þá eru allir, sem hlut eiga að máli, farnir að rífast í vegamálastjóra um að reyna að opna leiðina. Hvað snertir allan kostnað, munar það miklu, hvort farinn er 40 km. lengri eða skemmri vegur. Þetta kemur til með að vera mjög stórt atriði. Það varðar alla framtíð, að rétt afstaða sé tekin til þessa málsatriðis. — Nú er að athuga hitt, hvort mþn. hefur valið beztu leiðina með Þrengslaleiðinni eða ekki. Bezt er fyrir þá menn, sem hafa á þessu takmarkaða kunnugleika, að taka tillit til þess, sem fram hefur komið í málinu þessari leið til stuðnings. Bæði verkfræðilegt álit og upplýsingar fróðra manna, sem mark er á takandi, hníga í sömu átt hvað þetta snertir. Og það getur ekki verið nein tilviljun, að þessi leið skyldi einnig verða fyrir valinu 1932.

Hv. þm. Barð. virtist ætla að gera það að málsatriði, að stytta skyldi leiðina skáhallt frá Hjalla austur í Ölfus. Ég játa, að í þessu efni er allur varinn góður. Ég þakka hv. þm. Barð. fyrir að hafa vakið máls á þessu.

Hv. þm. Str. minntist á það í sinni ræðu, að það sé meira um vert að sjá um fé til vegarins en lögfestingu hans. Ég vil halda því fram, að með frv., eins og það nú liggur fyrir, þá sé sleginn sá varnagli, sem tryggi það, að fé verði til. Verði búskapur ríkisins svo góður, að hægt sé að veita fé til vegarins á fjárl. frá ári til árs, þá er það frá okkar sjónarmiði bezt. En þar sem margt er að gera í samgöngumálunum, þótti rétt að setja lántökuheimild í það. Mér heyrðist á hv. þm. Str., að hann væri í vafa um það, hvort rétt væri að ráðast í þessar framkvæmdir með lánsfé. Það er auðvitað ekki ákjósanlegt að þurfa að taka lán til hluta, en það er nú oft gert og talið nauðsynlegt. Í slíkum tilfellum er ekkert hægt að gera annað en að meta hverju sinni, hve brýn nauðsynin er, hvort hún er þess verð eða ekki. Mér heyrðist á sama hv. þm., að þetta væri mikið nauðsynjamál. Og hvað er þá annað hægt að gera en reyna að tryggja fjárframlög til þess? En okkur flm. langar ekkert til þess, að þessar framkvæmdir verði gerðar á kostnað annarra héraða.

Það er óþarfi að eyða að þessu fleiri orðum, þótt margt mætti fleira um þetta mál segja. Það er ekki minn vilji, að máli þessu sé flaustrað af, og tel ég, að allar skynsamlegar till. ættu að vera komnar fram áður en síðasta orð er sagt varðandi þetta stóra mál.