17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Ef hv. þm. Árn. hefði hlustað á mína ræðu eða skilið hana, þá hefði hann getað sparað sér sína löngu ræðu. Ég er ekki að mæla móti þessu máli, en ég tók það aðeins fram, að ekki mætti taka þessa áætlun eins og einhvern biblíulestur. Í þessu felst engin tilhneiging til að halda fram Hellisheiðarveginum. Mér virðist, að málið ,sé ekki nægilega athugað, og vildi ég benda hv. samgmn. á, að samkv. þeim till., sem fyrir liggja, er ljóst, að hægt er að bæta úr þessum málum á ódýrari hátt.

Mér skilst, að hér sé blandað saman óskyldum atriðum. Það er allt annað mál að bæta lélega vegi eða vegakafla eða fara að leggja nýja vegi, þar sem úrvalsvegir eru fyrir, svo sem er um veginn frá Elliðaám í Lækjarbotna. Þeir munu vafalaust margir, sem gætu fallizt á að leggja fram 3 millj. kr. til vega þar, sem augljós þörf er, þótt þeir hins vegar féllust ekki á, að aftan í það væri hnýtt 7 millj. kr. framlagi í óþekkta og vafasama leið. Og ég vil segja það, að hafi athugun þessa máls í n. ekki verið betri en skilningur hv. þm. Árn. á minni ræðu, þá hefur verið kastað til þess höndunum. Ég álít, að hv. samgmn. eigi að hafa öll héruð landsins í huga og meta meir að fullnægja brýnustu þörf, þar sem illir eða engir vegir eru, en að byggja upp vegi, sem sæmilega svara kröfum tímans. Ásælnin utan af landi mundi ekki vera slík, ef þar væru aðrir eins vegir og á þessu svæði. Og hv. þm. Árn. þarf ekki að undrast, þótt þm. annarra kjördæma fallist ekki orðalaust á slíkar till.

Ég ætlast til, að n. athugi þetta nánar án tillits til þess, hvað mþn. hefur ákveðið í þessu efni.