17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Það var aðeins örlítil aths., sem mig langaði til að færa fram. Ég hefði tekið allt öðruvísi á þessu máli, ef um járnbraut hefði verið að ræða. Þá hefði ég tekið undir ummæli hv. 1. þm. Reykv. — Öll mín ummæli hafa hnigið í þá átt að sýna fram á, hversu mál þetta er lítið undirbúið. Ég skal ekki segja neitt um það, hvort betra hefði verið að verja nokkrum millj. í járnbraut. Ef hv. 1. þm. Reykv. efast um afstöðu mína til þessa máls, get ég lýst yfir því, að ég er fylgjandi því að gera nýjan veg frá Svínahrauni og yfir í Ölfus. Það er búið að eyða mörgum millj. í eldri vegina, og sé ég ekki ástæðu til að eyða tugum milljóna í þessa nýju vegi.

Það er auðvitað misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv., að svona gífurlegt framlag til þessa vegar muni ekki íþyngja um vegaframkvæmdir annars staðar á landinu. Það er t. d. augljóst, að vegna þess að veitt hafa verið hundruð þúsunda kr. í Krýsuvíkurveginn, hafa aðrir vegir orðið að sitja á hakanum, og þannig mun það einnig verða, ef veittar verða milljónir króna í Austurveginn, að vegaframkvæmdum víða annars staðar á landinu seinkar.