01.03.1946
Efri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Ég hefði talið æskilegt, að hæstv. fjmrh. og samgmrh. væru viðstaddir við þessar umr., því að hér er nýmæli á ferð. Hæstv. fjmrh. hefur sagt í ræðu, að varhugavert væri að eyða svo miklu fé til verklegra framkvæmda, að það stöðvaði hér um bil alla framleiðslu í landinu. En nú langar mig til að vita, hvort hæstv. samgmrh. hugsar sér að fara inn á þessa braut. Hér er ákveðið, að einn vegur sé tekinn út úr vegalögunum. Hér er farið inn á algerlega nýja braut, og vildi ég, að þetta kæmi fram. Það kemur ekkert málinu við, hvort ég er með því að koma á veg austur í sveitir, en það þarf að leggja fleiri vegi á landinu. Hversu mikið vinnuafl er líka óhætt að taka frá atvinnuvegunum til vegabóta? Hér er líka lagt til, að mikið fé sé lagt til að leggja veg meðfram öðrum vegi, sem er vel nothæfur.

Ég get vel fylgt frv. að fengnum þeim upplýsingum frá ráðherra, að þessari stefnu muni verða fylgt annars staðar á landinu. Engar upplýsingar liggja heldur fyrir, bara áætlanir, og held ég, að ætti að vita, hvort ekki er hægt að rannsaka þetta nánar, áður en lögboðið er að leggja veginn þarna. Kunnugir menn segja, að þarna sé á löngu svæði algerlega botnlaust fen. Ég tel, að þessu þyrfti að breyta í 1. gr. Líka þarf að breyta því í 5. gr., að ef það á að setja takmarkið 6 ár, þá sé bætt við : enda tefji það ekki fyrir þeim vegaframkvæmdum, sem ríkið kynni að leggja í annars staðar á landinu.

Ég hef þá bent á þessi meginatriði og vona, að þetta verði athugað. En ég mun bera fram brtt., ef n. getur ekki fallizt á að gera á þessu breytingar.