11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði rétt í þessu, að hann óskaði, að hæstv. ráðh. gætu verið viðstaddir, þá læt ég þess getið, að málinu hefur verið frestað dag frá degi, vegna þess að ekki var unnt að taka það á dagskrá, svo að hæstv. ráðherrum hefur gefizt tími til að tala sig saman um það. Það hafa nú liðið þrír fundardagar svo, að málinu hefur verið frestað æ ofan í æ.

Ég hafði tal af hæstv. samgmrh., að nú yrði málið tekið á dagskrá, ef hann vildi gera svo vel að vera viðstaddur og láta vilja sinn og álit í ljós. En hann taldi vafasamt, að hann gæti það, af því að hann væri vant við látinn vegna máls eins í Nd. Þó kvaðst hann mundu gera aths. sínar við 3. umr., og ættu þær þá að geta komið fram. Hann sagði þetta við mig og eru það aðeins skilaboð frá mér til háttv. deildar. En hv. þm. Barð. getur leitað nánari skýrslu um málið.

Hæstv. fjmrh. gekk hér um rétt í þessu. Honum ætti því að vera hægurinn hjá að taka til máls, ef honum sýnist, láta vilja sinn koma fram, ef hann hefur áhuga á málinu. — Hæstv. samgmrh. sagði, að málið ætti að ganga til 3. umr., ef hann gæti ekki verið hér viðstaddur nú.

Brtt. liggja fyrir hér á þskj. 498. Þótt ég hafi ákveðna skoðun á þeim, veit ég ekki, hvort ég á að mæla nokkur orð um þær. Ég kann síður við að ræða um þær, þar eð tveir hv. flm. hafa ekkert látið frá sér heyra um þær. Ég læt þess getið, að reyndar hefur ekki verið haldinn fundur í samgmn. d., en till. hafa verið bornar undir ýmsa menn. Er það einróma álit okkar að mæla gegn þeim. Mælist því samgmn. til þess, að brtt. á þskj. 498 verði felldar.

Aðalatriðin í brtt. eru tvenns konar. Í fyrsta lagi, að til framkvæmda vegagerðarinnar skuli árlega veitt fé í fjárl. og framkvæmdir standi og falli með þeim fjárveitingum, og í öðru lagi, að lánsheimildin í 6. gr. frv., allt að 20 millj. kr., verði felld niður. Ég lít svo á hins vegar, að hv. flm. hefðu gengið hreinlegar til verks með því að vera algerlega á móti frv., því að þúsund ára Þyrnirósarsvefn er lítið annað en dauðinn sjálfur.

Síðast í fjárl. var einungis þetta framlag borið fram, er í fyrri lið getur. Við fjárlagaumræður var togstreita um málið, en að lokum fékk það hægt andlát við atkvgr. Ég vona, að sama sagan endurtaki sig ekki hér. Frá sjónarmiði þeirra, sem vilja, að frv. verði annað en pappírsgagn eitt, er einsætt að vera á móti brtt. Skilningurinn á málinu og nauðsynin á framkvæmdum skipta hér miklu máli.

Um hitt atriðið, að nema brott lánsheimildina, er reyndar alveg sama að segja og hitt. Þeir, sem eru þeirrar trúar, að verkið eigi rétt á sér, mega skilja það, að allur er varinn góður, og ekki er verra að hafa þessa heimild. Hér er ekki um að ræða skyldu til lántöku, en heimildin er fyrir hendi, ef stjórnin þyrfti á þessu fé að halda. Hv. þdm. vita glöggt, hvaða munur er á heimild og skyldu.

Árið 1932 voru samþ. lög á Alþ. um nýjan veg á austurleið á sömu slóðum og nú er ráð fyrir gert, þ. e. frá Lækjarbotnum austur í Ölfus. Voru þau lögð undir fjárveitingarvaldið. Þessi l. standa auðvitað óhögguð í stjórnartíðindunum, en eru orðin 14 ára gömul. Þó eru vegfarendur ekki farnir að verða vegarbótanna varir. Hér er ekki um annað að ræða en að ganga rösklega að verki við þetta, styðja að framkvæmdum og taka einbeittum tökum á málinu. — Náttúrlega eru brtt. á þskj. 498 prýðilegur millivegur til tafar framkvæmdum.

Hæstv. samgmrh. heimilaði að láta málið ganga til 3. umr. Ég sé nú, að þessi varnagli má að engu verða, þar eð hæstv. ráðh. er nú kominn. Læt ég svo niður falla frekari orðalengingar vegna viðurvistar hans.