11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

144. mál, Austurvegur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég á hér brtt. með hv. þm. S.-Þ. á þskj. 498. Eru þær um frv. þetta.

Ég skal taka það fram, að ég tel bæði rétt og gott að gera öruggan veg eða samgöngubót, svo að öruggar samgöngur megi á komast milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. En ég er á báðum áttum um, hvar bezt sé að hafa veginn. Hefur og ætíð verið mikið um þetta vandamál rætt, og kom í öndverðu fram, hvort eigi væri rétt að leggja járnbraut. Síðan var fundinn upp einn ágætur vegur, sem aldrei gæti brugðizt, um Krýsuvík, og það var talin fullnaðarafgreiðsla á málinu, þegar búið var að afgreiða þann veg hér. En nú er komið annað upp úr kafinu. Nú er komin fram áætlun um veg yfir Þrengslin, hvort sem það verður nú lengi talið bezta vegarstæðið. E. t. v. kemur enn ein ný n., sem kemst að allt annarri niðurstöðu, á næsta þingi, um að enn annars staðar sé bezta vegarstæðið austur fyrir fjall. En úr því að hv. þm. hafa ákveðið að hefjast handa um þetta mál, tel ég rétt að fylgja þeim að málum í tilraun um að koma þessum vegi yfir í Suðurlandsbyggðirnar. En ég sé hins vegar ekki, að það liggi það mikið á nú að ákveða um þennan veg, að það þurfi endilega að fara að taka lán eða veita nýja lánsheimild fyrir upphæð svo að tugum milljóna skipti til vegar þessa nú þegar, áður en farið er að hefjast handa um framkvæmdir við hann. Ég get verið með því, að byrjað sé á þessum vegi, miðað við það, að honum sé lokið á sex árum, eins og í frv. er gert ráð fyrir, en að það fari eftir því um framkvæmdina, sem ríkið í raun og veru getur. En mér þykja það vera dálítið skrýtnir framtíðardraumar um fjárhagsafkomu ríkissjóðs, ef sagt er, að það sé sama og að drepa þetta frv. að fresta að samþykkja heimildina fyrir lántökunni. Ég vona, að hægt verði að veita til þessa vegar á fjárl. eitthvað um 3 millj. kr. og gera það þannig, eins og hv. þm. Barð. tók fram, að þar fyrir verði ekki tekið fyrir nýbyggingar annarra vega á landinu. Ég verð að segja það sem mitt álit, að ef útlitið er svo nú, að það, að veita ekki lánsheimild þessa nú þegar, þýði sama og dauða þessa frv., þá tel ég enn síður ástæðu til þess að fara að þjóta til að samþ. þessa lánsheimild. Og ég held, að hæstv. ríkisstj. sé orðin nokkurn veginn södd á þeim lánsheimildum, sem hún ýmist hefur aflað sér eða hefur verið troðið upp á hana, sem nema nú eitthvað töluvert, á annað hundrað millj. kr., ef ég man rétt. Mér sýnist því, án alls kala til þessa vegar, ástæðulaust að fara að binda sig nú við tugmilljónalán út af vegi þessum, sem kemur hvort sem er smátt og smátt, svo framarlega sem nokkur geta verður hjá ríkissjóði og svo framarlega sem þörf verður talin á þessum vegi, sem ég vænti nú, að verði. Og ég get ekki séð, frekar en hv. þm. Barð., að þessi vegur eigi sérstaklega að auglýsast þannig, að hann megi ekki vera í hópi annarra vega hér á landi, þannig að veitt verði fé til hans eftir getu úr ríkissjóði á hverjum tíma til að leggja fé til þess að koma honum áfram. En með þessu frv. er þó að vissu leyti gerð áætlun um hann, ef fé er veitt til þess á fjárl. Viljum við hv. þm. Barð. ekki, að farin sé önnur leið með þennan veg en nokkurn annan veg.