04.03.1946
Neðri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

184. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Þessi till., sem felst í frv. því, sem liggur hér fyrir og er um breyt. á því fyrirkomulagi, hvernig eignir og afurðir landbúnaðarins skuli fram taldar eða skýrslur um þær gerðar og gefnar, miðað við það, sem verið hefur, og þannig, að nú skuli skattanefndir taka að sér að sjá um þessar skýrslur og gefa þær síðan eða halda þeim í lagi og senda þær síðan frá sér á einn eða annan hátt, sem er nú ekki alveg vel ljóst, hvernig skuli hagað — þessi breyt. er fram komin, að því er virðist, vegna einhvers konar bollalegginga, sem átt hafa sér stað á búnaðarþingi, og liggja hér fyrir þau bréf, sem á milli hafa farið um málið, prentuð sem fylgiskjöl með málinu.

Mér virðist, að hagstofustjóri hafi ekki alveg verið reiðubúinn til þess að gera sjálfum sér og öðrum grein fyrir, hvað hér er um að ræða, og því er þetta nokkuð í lausu lofti. Því er þannig farið, að hreppstjórum er skylt — og hefur lengi verið — að safna að vorinu til svokölluðum fardagaskýrslum um búfjáreign bænda og senda síðan til sýslumanns, sem oft og einatt hefur mistekizt það síðar talda, að koma skýrslunum í tæka tíð. En til sýslumanns eiga þær að fara, þótt oft komist þær það ekki fyrr en að haustinu. Síðan koma haustskýrslurnar um landbúnaðarafurðirnar, sem á að safna og senda sömuleiðis. Þessar skýrslur allar eru svo loks sendar til hagstofunnar, og úr þeim vinnur hún sína greinargerð, sem hún gefur út um landbúnaðinn, sem heita Hagskýrslur landbúnaðarins, og kemur af þeim samandregið yfirlit í ritlingum frá hagstofunni. — Nú er einn aldagamall ágalli við þetta, og aðeins einn. Og sá ágalli virðist mér mundu verða engu síður, þótt þetta frv. yrði samþ., sem sé sá, að framtöl eru alltaf meira og minna í lausu lofti. Það vita allir kunnugir, og það er mjög erfitt að fást við það. Það er svo erfitt, að um landið þvert og endilangt hafa hreppstjórarnir sjálfir orðið að taka í sínar hendur þetta mál. Þeir hafa ekki fengið bændur nema með höppum og glöppum til að koma með sín framtöl, og alls ekki nákvæm, og hreppstjórarnir hafa víða um landið hreint og beint áætlað það, sem setja þurfti á framtölin, og jafnvel án þess að hreppsskilaþing hafi verið haldin, sökum fásinnis þeirra, sem þangað áttu að sækja. Hreppstjórarnir geta víða ekki haldið hreppsskilaþing nema með miklum undandrætti og mjög ófullkomin. Þess vegna verða þeir meira og minna að áætla þetta, og þá getur eðlilega skeikað. En nú, síðan skattamálin komust í horf, þá hefur þetta af sjálfu sér lagazt, að því er snertir framtal til skatts. Við það framtal koma landbúnaðarskýrslur frá búendum, og undan því komast þeir ekki, þó að þar skeiki nokkuð um nákvæmnina, en það er ekki meir þar en yfirleitt í skattaframtölum. En nákvæmari og réttari skýrslur hafa ekki verið fáanlegar öðruvísi en með þessum hætti.

Nú er mér spurn: Er það tilætlunin með þessu frv. um lagabreyt., sem sýnilega er komið fram vegna till., sem samþ. hefur verið á búnaðarþingi vegna þeirra vandkvæða, sem í þessum efnum eiga sér stað og einhverjir fulltrúar þar — væntanlega hreppstjórar — hafa fundið á því fyrirkomulagi, sem nú gildir um að fá þetta upp, — mér er nú spurn: Er tilgangurinn að afnema þetta skýrslufyrirkomulag, því að ef það er ekki tilgangurinn, þá er allt í sama farinu, því að það verður eins erfitt að afla þessara framtala, þó að skattanefndirnar hafi með það að gera? Raunar má segja, að þær geti samræmt það eftir framtalsskýrslum til skatts, en það verður alltaf ónákvæmt. Á þessu vænti ég að fá nokkrar skýringar hjá hv. frsm. þessarar breyt., hv. 2. þm. Skagf., sem er þessu kunnugur frá upphafi. En í þessu, eins og það er sett fram, er áberandi megingalli, sem þarf að girða fyrir og setja nánari ákvæði um, svo að skýrslur þeirra, sem gefa þær, verði þó til einhverra verulegra nota, svo að hægt sé að segja: hér er skráð allt það, sem bændur eiga, búfé þeirra, afurðir þeirra, hér er atvinna þeirra saman komin.