13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

184. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. Breyt., sem með þessu frv. á að gera á l. um tekjuskatt og eignarskatt, er sú ein, að skattanefndir skuli semja svo kallaðar búnaðarskýrslur, sem hreppstjórar hafa samið áður, og senda þær til hagstofunnar, og er ætlazt til þess, að framtalinu til skatts verði hagað þannig, að úr því megi fá allar upplýsingar, sem þarf til þess að semja búnaðarskýrslurnar. Áður hafa hreppstjórar aflað þessara upplýsinga einkum á hreppsskilaþingum haust og vor. Nú hefur bólað á því meir og meir, að þau mannamót hafa verið illa sótt og erfiðleikar við að ná saman upplýsingum til þess að gera réttar búnaðarskýrslur, enda jafnvel talið, að þær hafi engan veginn fengizt réttar, og á nú að breyta þessu þannig að fá þessar upplýsingar með öðru skattframtali frá skattþegnunum. Gert er ráð fyrir, að ef skattþegn telur ekki fram, verði að áætla þær upplýsingar, sem tilheyra búnaðarskýrslunum, eins og gert er um skattframtal þeirra, sem ekki telja fram.

Landbn. hefur athugað þetta frv. á fundi og leggur til, að það verði samþ. Einn nm., hv. 3. landsk. þm. (HG), var þó ekki mættur á þeim fundi. — Ég vil geta þess, að n. virðist óviðunanlegt orðalag á niðurlagi 1. málsgr., þar sem stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta: „enda verði þá eigi þörf þeirra skýrslna um þetta efni, sem lög nr. 29 8. nóv. 1,895, um hagskýrslur, gera ráð fyrir.“ Með þessu orðalagi, sem hv. Nd. setti inn í frv., mun vera átt við það, að allar líkur séu til þess, að skýrslur hreppstjóranna falli alveg niður, það verði sem sé alveg hætt að safna þeim, en með þessu á þó sennilega að slá þann varnagla, að ef skýrslugerð hjá skattanefndunum — raunar hreppstjórum í þessu tilfelli líka, því að hreppstjórar eru formenn skattan. — yrði ábótavant, þá kynni kannske að vera þörf á því að taka þessar venjulegu skýrslur allra fyrst. Landbn. hefur það til athugunar, hvort hún kemur með brtt. viðkomandi þessu orðalagi — ekki efnislega við frv., heldur um orðalagið — við 3. umr. — Að öðru leyti leggur n. til, að frv. verði samþ.