11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

6. mál, togarakaup ríkisins

Gísli Jónsson:

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að vanir skipstjórar teldu, að það væri of lítið lestarrúm í þessum togurum. En ég vildi nú spyrja hv. þm., hvaðan honum kemur heimild til þess að fullyrða svona hluti. Ég hélt ég þekkti nokkuð til þessara mála, og ég get upplýst hv. þm. um það, að í fyrstu fékk ríkisstj. menn með sérþekkingu til þess að athuga, hvaða gerð væri heppilegust á togurum. Og áður hafði farið fram samkeppni og veitt verðlaun fyrir frumdrætti að framtíðartogurum, og kom þá margt fram, sem tekið var til greina við gerð þessara togara. Þegar svo er komið, er send út nefnd, tveir útgerðarmenn og einn bankastjóri, til þess að leita fyrir sér um byggingu á þessum skipum. Þeir hafa fund með útgerðarmönnum, áður en þeir fara, þar sem útgerðarmenn, sem stundað hafa þessa atvinnu yfir 30 ár, eru saman komnir, og þar er saman komin mesta þekking á þessum málum, sem fáanleg er hér á landi. Og þessir menn eru sammála um að gefa þessum mönnum þær upplýsingar, sem þá voru fyrir hendi í málinu, sem þó voru þá ekki annað en það, að þeir töldu réttast, að þessari fyrri n. væri falið að tryggja byggingarstöðvar og fá grundvallarverð, byggt á þeim beztu stærðum og útbúnaði á togurum, sem til væru í hverju landi. Annað er ekki þessum mönnum falið. Þeir leita fyrir sér á Norðurlöndum og fá þaðan tilboð og sömuleiðis í Englandi, — ekki hjá neinum fúskurum og viðvaningum, heldur allra beztu togarabyggingastöðvum, sem til eru í Bretlandi, og þeim einu togarabyggingastöðvum, sem Bretar sjálfir vilja láta byggja sín skip. Þessir menn gera svo tilboð á þeim grundvelli, að þau séu eftir þeim teikningum og lýsingum, sem þeir hafa bezt gert sín skip með 170 feta lengd. Þegar svo er komið, er enn sett nefnd, sem á að gæta hagsmuna fólksins, sem vinna á á skipunum, svo sem útbúnað skipverja og útbúnað öryggistækja o. s. frv. Þar eru til þess settir alveg sérstaklega vel valdir menn, þaulvanir skipstjórar og útgerðarmenn, til þess að koma sér saman um, hvað eigi að velja úr þeim tilboðum, sem fyrir lágu. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að ensku tilboðin væru hagkvæmust, þó að breyta þyrfti frá þeim, vegna þess að þau eru ekki eins og við vildum helzt.

Þá leitaði ríkisstj. álits útgerðarmanna um, hvaða skip þeir vildu helzt, og af öllum þeim hópi útgerðarmanna, sem þar kom saman um málið, komu allir sér saman um, að undanteknum einum manni, að þeir vildu þessa tegund skipa, sem pöntuð voru 28 skip af. Aðeins einn maður vildi taka á sig áhættuna af því að panta dieselskip. En hinir allir vildu gufutogara með olíukyndingu. — Nú var það ekkert víst, að þessi skip lentu öll hjá þessum mönnum. Það voru þá komnar yfir 30 eða jafnvel um 40 beiðnir um skip, og gat verið, að þessi skip lentu hjá öðrum mönnum en útgerðarmönnum þessum.

Hefði það nú verið rétt af hæstv. ríkisstj. að ganga fram hjá einróma áliti þeirra manna, sem þarna voru til kvaddir til ráðgjafar, til þess að panta í stað þess eitthvað annað handa þeim, sem skip vildu kaupa, og þá eftir ráðum þeirra manna, sem minna vit höfðu á málunum? Ég held, að það hefði verið ákaflega varhugavert. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert annað en að fara eftir till. þeirra manna, sem ætluðu að kaupa og nota skipin og höfðu mesta þekkingu á því, hvernig skipin ættu að vera. Enda völdu þeir mann eins og Aðalstein Pálsson til þess að gæta hagsmuna sinna á þessu sviði við endanlega samninga. — Og svo kemur hv. 1. þm. Eyf. og lýsir yfir í nál. sínu, að ekki neitt af þessu sé hagkvæmt. Það er sagt í nál., að það sé um deilt. Og hv. 1. þm. Eyf. sagði í ræðu sinni, að það væri álit margra vanra skipstjóra, að þessir samningar væru ekki hagkvæmir (BSt: Ég sagði það ekki.) Það er ágætt, ef hv. 1. þm. Eyf. dregur nokkuð í land. (BSt: Ég dreg ekkert í land. Ég veit, hvað ég sagði.) — Um faglegu hlið málsins er það enn fremur að segja, að strax er komið er til samninga, eru allar stækkanir, breyt. og endurbætur, sem óskað var eftir á skipunum frá fyrri samningum, reiknaðar nákvæmlega á sama verðgrundvelli og fyrri tilboðin voru. Og útkoman er þannig, að kostar hvert skip, eftir nákvæmlega sömu grundvallartölum eftir fyrra tilboðinu, rétt um 100 þús. sterlingspund, eða um 36% meira en n. hafði samið um. Þetta hygg ég, að slái niður ekki aðeins orðróm, sem gengið hefur um þessi mál, heldur líka fullyrðingar um það, að það hefði verið hægt að semja miklu hagkvæmar um þessi skip, eins og þau voru endanlega pöntuð, ef samið hefði verið strax um að smíða þau þannig, er samningar byrjuðu.

Lestarrúm þessara skipa er allt að því tvöfalt á við það, sem þekkzt hefur hér áður, og þó hafa þessi skip miklu meira borð frá sjólínu og upp að þilfari en þekkzt hefur áður á íslenzkum skipum, sem alls ekki er lítið atriði til öryggis fyrir menn, sem á þeim starfa. Og það var lögð áherzla á að tryggja svo öryggi þessara manna, að aldrei komi til umræðu, að skipunum kunni að verða sökkt fyrir gleymsku, eins og hér hefur verið haldið fram, alveg rakalaust. — Útgerðarmenn ættu að vita, hve mikið lestarrúm þeim hentar í skipum sínum og hvort það er hagur fyrir þá að stækka það fram yfir það, sem eðlilegt er. Og þeir ættu að vita um þetta betur en hv. 1. þm. Eyf. Og um þetta hefur aldrei verið deila milli útgerðarmanna. Sá eini fyrirvari, sem gerður hefur verið viðvíkjandi byggingu þessara skipa, er, að útgerðarmenn hafa áskilið sér þann rétt, enda hefur hann verið tryggður, að þeir mættu á einhvern hátt breyta innréttingu skipanna fyrir mannabústaði í þeim. En í því sambandi er engar breyt. aðrar um að ræða. Og þetta er sönnun fyrir því, að útgerðarmenn séu ekki óánægðir með þessa samninga, enda var þetta málefni búið að ganga í gegnum þeirra hendur, þrautathugað af þeim og athugað frá öllum hliðum. — Og svo segir hv. 1. þm. Eyf., að það sé síður en svo, að allir hlutaðeigendur séu ánægðir með þessa samninga. Ég veit ekki, hvaða hlutaðeigendur það eru, því að allir hlutaðeigendur, sem tekið hafa þátt í undirbúningi þessa máls, hafa lýst ánægju sinni yfir undirbúningi og framkvæmd þessa máls. Það kunna þá kannske að vera einhverjir pólitískir angurgapar Framsfl., sem ekki eru ánægðir með þessi mál. En það eru ekki hlutaðeigendur, sem ætla að kaupa skipin, því að þeir hafa sannarlega fengið að segja sitt álit í þessu máli.

Ég ætla þá að snúa mér dálítið að hinni almennu hlið málsins, þar sem hv. 1. þm. Eyf. ræddi sumpart um það, að ríkisstj. hefði tekið sér hér heimild sjálf til þess að gefa út heimildarlög. Ég vil í sambandi við þetta benda hv. 1. þm. Eyf. á, hvort hann sé búinn að gleyma, hvað gerzt hefur á undanförnum árum hjá þáv. hæstv. ríkisstjórn. Er þessi hv. þm. búinn að gleyma því, er Vilhjálmur Þór rétt eftir þingslit 1944 óskaði eftir heimild til þess að gera stórkostleg kaup á vissum eignum? Og virtist okkur þm., að hann hefði getað spurt um þetta í þinginu. Svo gerði hann þetta gegn till. eins þingflokks. Og veit ekki hv. 1. þm. Eyf. líka., að fyrrv. ráðh. samdi um kaup á Svíþjóðarbátum, án þess að spyrja þingið um það og ákveðið á móti vilja eins þingflokks, eins og þau kaup voru gerð? Því að það var hægt að sanna, að miklu meira fé var gefið fyrir þann skipastól en þurfti að gera. — Hv. 1. þm. Eyf. virðist vera ákaflega gleyminn á glappaskot síns eigin flokks, en vill telja það stórkostlegar syndir, þegar önnur ríkisstjórn, sem hans flokkur ekki styður, fer ekki lengra, heldur miklu skemmra í setningu heimildarlaga. — Svo segir hann: Þetta er utanríkismál, og hvers vegna er hv. fjhn. að skipta sér af þessu máli, en því ekki vísað til utanrmn. ? Ég held, að hv. minni hl. n. hefði átt að gera till. um að senda málið þangað, úr því að þetta mál snertir að hans áliti kannske ekkert fjárhag landsins, heldur er hreint utanríkismál.

Að síðustu vildi ég minnast á brtt. hv. 1. þm. Eyf. um að lækka upphæð lánsheimildar ríkisstj. til framkvæmda togarakaupa úr 60 millj. kr. í 30 millj. kr. og upplýsa dálítið í sambandi við það atriði, sem ég er ekki viss um, hvort hv. fjhn. hefur verið ljóst. Það er að vísu rétt, að það var eitt af því, sem tókst að laga frá uppkastinu að samningnum á sínum tíma, sem fyrst var gert, — sem var almennt uppkast milli skipabyggjendanna í Bretlandi og kaupendanna, og er það prentaður samningur venjulega, sem samningan. brezku skipabyggingastöðvarinnar notar sem samning og fæst varla til þess að hvika frá viðkomandi innborgun, — að innborgunin var lækkuð um 10%, og til þess þurftu þeir, sem um það tóku ákvörðun, að halda fund. En á sama tíma varð ríkisstj. Íslands að leggja fram fé í banka á Englandi fyrir upphaflega tilteknu upphæðinni. Og ríkisstj. varð að hafa heimild fyrir láni til þessa eða ábyrgð fyrir því, að féð yrði greitt. Svo að það er eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. þyrfti að fá heimild til að taka lán fyrir allri upphæðinni. Þetta fé var sett á sameiginlegt nafn kaupenda skipanna og byggjenda, og skipakaupendur og skipabyggjendur gátu ekki hreyft það, nema með því að fullnægja samningnum. Nú var rýmkað svo um þetta, að ekki þurfti að hafa svo mikið fé þannig bundið, eins og samningurinn fyrst ákvað. En það er eðlilegt, að öll upphaflega upphæðin væri tekin á frv. þetta, og það hefur sjálfsagt verið byggt á því, þegar upphæðin var tekin í bráðabirgðal. Og þetta atriði, hvaða upphæð menn vilja hafa í þessu tilfelli í frv., er náttúrlega enginn prófsteinn á það, hvort menn greiða atkv. frjálst eða bundið um þetta mál. Það þekkist nefnilega alls ekki þessi aðferð hjá stjórnarstuðningsmönnum, að þeir séu alltaf í hlekkjum. En það er eins og hv. 1. þm. Eyf. geti ekki hugsað sér annan hugsunarhátt en þann, að menn séu við atkvgr. í stálhlekkjum. Ég veit ekki, hvort hann er vanur við þetta í flokki sínum. En hann ætti a. m. k. að hafa mjög orðið var við það þann tíma, sem við höfum átt sæti saman á þingi, að ég hef hvorki í umr. né við atkvgr. komið þannig fram í málum hér á þingi, að hann gæti haldið, að ég væri í hlekkjum. Og það er ekki sæmandi hv. þm. að bera slíkar ásakanir á meðþm. sína. Hitt er allt annað atriði, að þeir kunna að hafa aðrar skoðanir á þessu máli, m. a. af því að þeir hafi sett sig betur inn í málið en þessi hv. þm. hefur gert. Það hefur komið í ljós, að hann hefur ekkert vit á málinu, heldur fjandskapast gegn því. Og meðan svo stendur á um menn, geta þeir ekki litið óhlutdrægt á mál. Menn verða að losa sig við slík bönd, áður en þeir geta talið sig greiða atkv. frjálst um mál.

Ég vil svo aðeins að síðustu leyfa mér að leiðrétta eitt atriði í nál. hv. meiri hl. fjhn., þar sem sagt er, að 170 feta skipin með dieselvél séu um 2 þús. sterlingspundum ódýrari hvort en hinir 28 af nýju togurunum, sem eru með olíukyndingu en gufuskip. Þessi tvö skip eru 4 þús. sterlingspundum ódýrara hvort, þar sem hinir 28 eru 98 þús. sterlingspund hver, en hvor dieseltogaranna er 94 þús. sterlingspund. Og meginástæða þess, að ekki var horfið að því að kaupa fleiri skip með dieselvélum, var það, að allir útgerðarmenn, að einum undanteknum, vildu heldur hina tegundina, og auk þess var útilokað að fá eitt einasta dieselskip af þessum togurum, sem átti að smíða, hingað fyrr en árið 1948. Við hefðum því þurft að bíða til ársins 1948, ef við hefðum viljað fá dieselskipin. Hins vegar er einnig vafi á því, að rétt hefði verið að útvega 30 dieselskip til landsins á næstu árum, með því að geta átt vísa aðeins um 60 dieselvélstjóra innanlands á sama tíma. En þeir eru til hér nú. — En það, sem vakið hefur langmesta athygli nú í Bretlandi í sambandi við þessar skipasmíðar, er hitt, að enskir útgerðarmenn eru óánægðir yfir því, að Íslendingar með þessu lokuðu algerlega öllum togarabyggingastöðvum fyrir brezkum útgerðarmönnum til 1948, þannig að Íslendingar eru þá búnir að koma út með allan sinn nýja flota, 30 skip, þegar hinir geta byrjað að byggja. Og það er ekkert lítið atriði. Og þeir eru á Englandi nú að gera við sín skip, sem koma frá stríðsnotkun, og kostar það yfir 30 þús. sterlingspund að gera hvert þeirra í stand: Svo geta menn reiknað út eftir því, hvort þeir vilji ekki heldur borga 98 þús. sterlingspund fyrir alveg nýtt skip en að borga yfir 30 þús. sterlingspund til þess að gera við skip, sem er heldur minna og ekki eldra en frá 1935 og 1936. — Þetta ætti að gefa hv. 1. þm. Eyf. ofurlítið meira ljós en hann hefur haft áður um þessi atriði.