16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

184. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Ég hafði ætlað mér að kveðja mér hljóðs um þetta, er hv. 2. þm. N.-M. minntist á, að það hefði verið nokkur galli á málinu er það fór frá okkur, en eftir því hefði ekki verið tekið í Ed., og þetta gæti orðið til þess að fella niður eina skýrslusöfnun, vorskýrslurnar, í sambandi við vorhreppsskilaþing, um búfjáreign manna. Þessari skýrslusöfnun á að vera lokið fyrir 1. júlí. Nú hefur hv. þm. borið fram brtt. um, að l. gangi ekki í gildi fyrr en 1. jan. 1947, en það þýðir, að með því móti er hreppstjórum gert að skyldu að safna haustskýrslum, sem samkv. l. eiga að fást með skattframtölum. Ég sé ekki neina ástæðu til að safna tvöföldum skýrslum á síðari hluta þessa árs. Það er ekkert annað en óþarfa ómak. Og menn munu yfirleitt ekki sinna því, þegar þeir vita, að þessi breyt. stendur til og allar sömu upplýsingarnar munu koma á skattframtölum manna. Þess vegna vildi ég leggja til, að í staðinn fyrir áramót, 1. jan. 1947, verði þetta atriði orðað þannig, að l. taki gildi 1. júlí 1946. Þá er það alveg skýrt, að hreppstjórum ber skylda til að safna vorskýrslunum, en eru undanþegnir að safna þeim skýrslum, sem koma á öðrum vettvangi. Þetta hefur verið rætt við hagstofustjóra, en að hans tilhlutan er þetta frv. flutt og hann gengur út frá þessu. Það hlýtur að geta orðið samkomulag milli mín og hv. 2. þm. N.-M. um að breyta þessu á þann veg að skylda ekki hreppstjóra til að safna þeim skýrslum, sem ástæðulaust er að safna þegar svona er komið.