16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

174. mál, lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Með l. nr. 11 frá 1936 gerði Alþ. ráðstafanir til, að Hafnarfjörður gæti eignazt 4 landspildur í nágrenni bæjarins, og jafnframt skyldu þrjár þeirra lagðar undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. En nú hefur bærinn eignazt þessar 3 spildur, þótt hins vegar ekkert hefði verið gert að því er þá 4. snertir. Hafnarfjarðarbær hefur nú eignazt hana líka og þar með allar fjórar spildurnar. — Bærinn hyggur á mjög miklar framkvæmdir í Krýsuvík, enda er þar þegar hafinn undirbúningur um ýmis fyrirtæki, svo sem hitaveitu til nota bæjarbúum, ræktun með jarðhita o. fl. Til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir, telur bærinn nauðsynlegt að hafa frjáls umráð yfir landinu, fullan ráðstöfunarrétt um það, og þurfa því ekki að leita til Grindavíkurhrepps. Nú var leitað til Grindavíkurhrepps til samkomulags um þetta mál. Það hefur tekizt svo, að báðir aðilar mega vel við una. Hreppurinn mælir með samþykkt frv., þ. e. að Hafnarfjörður fái landið. Skiptar voru skoðanir um þetta í sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu, en niðurstaðan varð sú, að vart verði hjá komizt að leggja landið undir Hafnarfjarðarbæ. Hefur n. því samþ. það.

Allshn. þessarar hv. d. varð sammála um nauðsyn bæjarins og mælir þess vegna óskipt með, að frv. nái fram að ganga.