22.11.1945
Efri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna ég gerðist flm. þessa máls, að vísu með þeim fyrirvara, sem ég geri, þegar um slíkan flutning frv. er að ræða, sem ég tek þátt í. Ég gerðist í n. einn af flm. frv. vegna þess, að ég vildi greiða fyrir því, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, kæmist inn í þessa hv. d., með því að ég þóttist vita, að þar sem í þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefði verið lögð allmikil vinna og athugun, þá yrði ekki fært talið annað en að afgr. þetta mál, sem vissulega er mál, sem þarf afgreiðslu, húsnæðisvandamálin, og það a. m. k. að verulegu leyti samkv. þeirri athugun, sem fram hefur farið að tilhlutun hæstv. ríkisstj., enda þótt ég sé ósamþykkur mörgu í þessu frv. Það fer vel á því, að frv., sem ég flutti um þetta mál, sem er stutt, en þó vel tæmandi um þau atriði, sem leysa þarf í húsnæðismálunum, verði samferða þessu frv., þannig að þau verði bæði athuguð í þeirri n., sem ég á sæti i. Þess vegna taldi ég heppilegt, að þetta mál kæmi fram, þó að það ylti að vísu ekki á mínu atkv., hvort það yrði lagt fram eða ekki.

Það, sem maður saknar fyrst og fremst í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og vekja hlýtur athygli — enda sá hæstv. ráðh. ástæðu til að minnast á það og gera grein fyrir því, — er það, að hér í þessu frv. eru einungis bornar fram till. um lausn húsnæðismálanna í kaupstöðum og kauptúnum, en ekki gert neitt í því atriði, sem jafnframt fólst í þál. frá 5. janúar 1945 um fyrirgreiðslu bygginga í sveitum. Jafnframt tók hæstv. félmrh. fram, að þetta atriði heyrði ekki undir hans verkahring. En ekki hefði verið óeðlilegt, að nokkurt samstarf hefði verið um það í ríkisstj. að koma því máli einnig áleiðis, þar sem þetta mál er samkv. þál., sem ég greindi, að um þetta var gerð og einnig náði yfir húsbyggingar í sveitum. En það er vitað mál, að eins og nú standa sakir og verður a. m. k. eitthvað fyrst um sinn, er auðveldara um lán en var, þegar l. voru sett um húsbyggingar í sveitum og kaupstöðum. Og þess vegna er eðlilegt, að þegar réttarbætur eru gerðar á kjörum manna viðkomandi húsbyggingum, þá væru bornar fram af ríkisstj. till. til úrbóta í þessum efnum engu síður í sveitum en í kaupstöðum og kauptúnum, því að rannsóknir sýna óvéfengjanlega, að það er ekki síður þörf á bættum húsakynnum í sveitum en kaupstöðum. Og það liggja greinilegar skýrslur fyrir um það frá þeim manni, sem það hefur rannsakað, þeim manni, sem hefur rannsakað það fyrir hönd n., Arnóri Sigurjónssyni. Og það hefur verið birt um það opinber skýrsla. (BBen: Hvar hefur það komið fram?). M. a. á byggingarmálaráðstefnu, sem haldin var m. a. að tilhlutun borgarstjórans í Reykjavík. (BBen: Liggja þær skýrslur fyrir prentaðar?). Ég veit það ekki, en þeim var dreift út í 400 eintökum vélrituðum. Ég veit ekki, hvort búið er að prenta þær, en það átti að prenta þær eins og annað, sem kom frá þeirri byggingarmálaráðstefnu.

Að vísu er hæstv. landbrh. hér ekki viðstaddur, þannig að hægt sé að beina þeirri áskorun til hans, en ég vænti þess, að þegar slíkt frv. kemur fram sem þetta, er hér liggur fyrir, viðkomandi byggingarmálum kaupstaðanna og kauptúnanna, þá verði a. m. k. af ríkisstj. hálfu greiddur vegur þeirra frv., sem við framsóknarmenn berum fram um fyrirgreiðslu á því, að hægt verði að byggja upp í sveitunum. Því að ég vænti þess, að hæstv. ríkisstjórn sé ljóst, að um leið og mikið fé er lagt af mörkum til þess að greiða fyrir húsbyggingum í kaupstöðum og kauptúnum, þá ber einnig að gera hliðstæðar ráðstafanir til þess að greiða fyrir nauðsynlegum húsbyggingum í sveitum, nema áberandi misrétti eigi sér stað, sem ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. ríkisstjórn sætti sig við. Ég vænti, að hæstv. dómsmrh. flytji þau skilaboð til hæstv. ríkisstjórnar. Því að það er fráleitt, að sú löggjöf, sem hæstv. dómsrmh. gat um viðkomandi byggingum í sveit, standi við hlið þessara l., sem hér verða samþ. Þar er um svo takmarkaðan stuðning að ræða, að það er ókleift að byggja upp í sveitum eftir þeim l., vegna þeirrar dýrtíðar, sem skapazt hefur síðan sú löggjöf var samþ. Það er óhætt að taka það fram í þessu sambandi, ef hv. þm. er það ekki ljóst, að það kostar víða engu minna að byggja í sveit en í kaupstöðum. Því að það er svo komið nú, að iðnaðarmenn taka sama kaup í sveitum og þegar þeir vinna í kaupstöðum, — og fæði og húsnæði að auki og ferðakostnað frá heimili sínu í kaupstað og svo heim aftur.

Áhugi fyrir byggingum er ákaflega lofsverður. En hann kemur bara nokkuð seint hjá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ráðh. talaði um það, að það væri að verða svo mikil spákaupmennska hér í Reykjavík í húsbyggingarmálum og húsasölu, að ekki sé við unandi. Þetta er ekkert, sem er „að verða,“ þetta er löngu orðið. Sú lýsing, sem hæstv. ráðh. gaf á því, hvernig byggingarmálum væri komið og húsasölum hér í Reykjavík, er veruleiki, sem hæstv. ríkisstjórn hefur getað horft á síðan hún fæddist í þennan heim, síðan hún varð til. Allan þann tíma, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur starfað, hefur verið það ástand í húsbyggingarmálum hér í Reykjavík, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að væri nú „að verða.“

Það er vitað mál, að það kostar nú orðið að byggja hér í Reykjavík sexfalt það, sem það kostaði fyrir styrjöld, eða allt að 300 kr. hver teningsmetri. Og nú er farið að selja jafnvel einstök herbergi í húsum og geymslu í kjöllurum, og þessi einstöku herbergi, sem þannig eru seld, eru venjulega seld fyrir 350–400. kr. hver teningsmetri. Það hefur undanfarið komið til mín fólk, sem þykist fá bara ágæt kjör, sem það telur, að sé það ódýrasta, sem völ er á í þessum bæ, eftir að það hefur leitað fyrir sér, ef það getur fengið íbúð fyrir 400 kr. hvern teningsmetra. Og ég hef sannreynt, að fyrir þetta verð er allvíða selt. Þegar þess er gætt, að teningsmetrinn kostaði um 50 kr. fyrir styrjöld, þá ættu menn að geta gert sér í hugarlund, hver húsaleigan er raunverulega orðin í þessum bæ, þegar þess er einnig gætt, að húsaleigan er ekki miðuð við þetta 300–400 kr. verð á teningsmetranum, heldur víða miðuð við það, að húsin séu greidd það mikið niður á 2–3 eða 4 árum, að byggingin sé áhættulaus þar á eftir. Það er þess vegna á elleftu stundu, að þetta mál kemur frá hæstv. ríkisstjórn. Og vegna þessa aðgerðaleysis, sem í húsnæðismálunum hefur verið, og það er bezt að kannast við það og gera sér það ljóst, — er alveg útilokað, að bætt verði úr húsnæðisvandræðunum fyrst um sinn, þó að frv. þetta sé samþ. Og það er af þeirri einföldu ástæðu, að til þess að það mætti verða, þarf að koma aukið vinnuafl frá því, sem nú er. Það eru að vísu ýmsir, sem halda því fram, að það sé mikið af húsum í byggingu hér í Reykjavík a. m. k. og að húsnæðisvandræðin muni lagast verulega á næsta hausti eða næsta sumri. Ég veit ekki til, að það liggi fyrir neinar greinilegar skýrslur um það atriði. Hitt veit ég, að víða er það svo í kaupstöðum og kauptúnum hér á landi, að ekki eru það mörg hús í byggingu þar, að líkur séu til þess, að húsnæðisvandræðin verði til muna minni á þeim tíma, sem ég nefndi. Og þess vegna verður hæstv. ríkisstjórn að gera sér það ljóst, að þetta mál, sem hér er á ferð, er engin lausn á húsnæðisvandamálunum á næstunni. Það er ekki til vinnukraftur til þess að annast þær byggingar, sem reisa þarf. Það er ekki einu sinni nægur vinnukraftur til að annast þær byggingar, sem eru í smíðum. Fjöldi bygginga, sem nú eru í smíðum, er stöðvaður vegna skorts á vinnuafli. Og þess vegna er það, þótt lánað verði meira út á húsin en gert hefur verið hingað til, og með þeim hætti, sem er samkv. þessu frv., þá verður það ekki lausn á húsnæðisvandamálunum fyrst um sinn. Það þurfa að koma aðrar ráðstafanir til, og það þarf að gera þær nú þegar. Og ég sé ekki betur en að við verðum að gera það sama og aðrar þjóðir á þessurri árum, annaðhvort að flytja inn vinnuafl til þess að byggja þessi hús, sem okkur vantar, eða við verðum að flytja inn tilbúin hús og reisa þau hér. Það væri a. m. k. ákaflega fróðlegt, ef einhver skekkja er í því hjá mér, að heyra það frá hæstv. dómsmrh. og borgarstjóranum í Reykjavík, hvar þeir ætla að taka vinnuafl til þess að byggja þessi hús, sem byggja þarf. Ég fer ekki út í það hér að nefna dæmi um staðreyndir frá húsum, sem nú er verið að byggja, hvernig það gengur að fá vinnukraftinn, en ég get hæglega gert það ef það er vefengt, sem ég hef sagt hér um þetta.

Enn fremur er annað, sem gerir erfitt að byggja, sem hæstv. ríkisstj. að vísu kann að sjá sér leið til að ráða fram úr, og það er efnisskorturinn. Ég veit ekki til þess, að fyrir liggi a. m. k. á þessu stigi, að hægt sé að auka það mikið innflutning á byggingarefni, að hægt verði að byggja þau hús, sem byggja þarf, til þess að útrýma húsnæðisskortinum. Þess vegna er það, eins og ég sagði áðan, — enda hef ég flutt þáltill. um það, — að lausnin er vitanlega í þessum málum sú að flytja inn tilbúin hús, og þá yrði þar með ráðin nokkur bót á því, að húsin verði allt of dýr. Þó að húsin verði reist með þessum ódýru lánum, með þeirri eftirspurn eftir vinnuafli, sem nú er, þar sem boðið er langt fram yfir venjulegan vinnutaxta í hvern einasta mann, sem fáanlegur er, þá er fyrirsjáanlegt, að húsin verða með því móti svo dýr, að eftir því sem þessum nýju húsum fjölgar, sem þannig eru byggð, nálgast einnig það ástand, að hin nýja húsaleiga verði nálega ríkjandi í dýrtíðarmálum landsins, og það jafnvel þó að byggingarkostnaður lækki nokkuð frá því, sem nú er, á því tímabili, sem fyrirhugað er að byggja hús eftir ákvæðum þessa frv. Þess vegna er nauðsynlegt að reyna að lækka byggingarkostnaðinn. Enda er ekki hægt að leysa húsnæðisvandamálið með öðru móti.

Ég skal svo aðeins minnast með örfáum orðum á frv. sjálft. Það er vitanlega, með þeim aths., sem ég hef gert, veruleg bót frá því, sem er í gildandi l., ef þetta frv. verður samþ., þó að það, eins og ég áður sagði, ráði ekki bót á húsnæðisspillingunni, af þeim rökum, sem ég færði fram. Ég tel, að þetta frv. sé miklu síðra að flestu leyti en það frv., sem ég hef flutt hér fram. Það er í fyrsta lagi það, að í því frv., sem ég flyt hér, er gert ráð fyrir, að byggingarnar séu gerðar í einni heild, en ekki klofnar í sundur, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. á mjög ranglátan hátt, eins og ég skal færa rök fyrir í stuttu máli, því að það er hægt að gera í stuttu máli. Frv. það, sem ég flyt, er þannig hugsað, að öllum, sem vilja byggja, sé gert kleift að byggja, og er ekki verulegur, en þó nokkur, munur gerður á mönnum eftir því, hvort þeir hafa háar tekjur eða eiga miklar eignir, og mönnum eru þar veitt svo mikil réttindi, að það á að vera hverjum þegn í þjóðfélaginu mögulegt að eignast hús yfir höfuðið. Hér er farið nokkuð öðruvísi að, það er sem sé ætlazt til þess, að mönnum sé skipt í tvo flokka, eftir 1. og 2. kafla frv., þar sem svo mikið bil er á milli, að ég tel það mjög ranglátt og mjög til hins verra frá því, sem er í mínu frv. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að ef aðilar geta ekki fullnægt því samkv. 1. og 2. ákvæði frv. að byggja yfir sjálfa sig, þá geti ríkið komið til samkv. ákvæði 10. gr. frv. og samkv. ákvæði 33. gr. þess, sem ég verð að telja næsta óþarfa, þegar einstaklingum eru gefin þau vildarkjör, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það er auðsætt mál, að ef einstaklingar sjá, að þeir geta, vegna ákv. í 10. gr. frv. og ákv. í 3. kafla þess, losað sig við það framtak, sem þeir þurfa að sýna til þess að byggja yfir höfuðið, þá er það hvöt til þeirra í þá átt að skipta sér ekkert af byggingarframkvæmdum sjálfir, því að það stendur í 10. gr., að sé ekkert byggingarsamvinnufélag til í kaupstað eða kauptúni, sé sveitarstjórn heimilt að ákveða, að sveitarfélagið komi upp byggingunum, og hafi það þá sömu réttindi og skyldur sem byggingarfélög samkv. lögum þessum. Það, sem ég ætla að benda á viðvíkjandi þessum mismun á kjörunum í 1. og 2. kafla frv., sem ég tel ranglátan, er þetta: Eins og frv. ber með sér, þá er lánunum skipt niður í þrjá kafla, og má lánstíminn fara upp í allt að 75 ár, en vextir af lánunum eru 2%. Til þess að menn fullnægi þessum skilyrðum, mega þeir ekki hafa yfir 7 þús. kr. árstekjur, og eignir þeirra mega ekki nema meiru en 10 þús. krónum að viðbættri verðlagsvísitölu. Það fyrsta, sem ég vildi segja um þetta atriði, er það, að ég tel það mjög vafasamt að fara með lánstímann upp í 75 ár. Menn kunna nú að vísu að segja, að landið okkar sé auðugt, en ég hygg þó, að fáar þjóðir, sem eru þó auðugri og hafa meiri peningaráð en við, hefðu viljað fara svo hátt með lánstímann, og það verða menn að gera sér ljóst, að nm. leið og svo langt er gengið með lánstímann, er loku fyrir það skotið, aðeins margir geti fengið lán og ef lánstíminn væri styttri, en þó ekki lengri en það, að hann er viðráðanlegur fyrir flesta eða alla. Þessi kjör, sem mönnum eru þarna veitt, vextir í öllum lánsflokkum 6% og lánstíminn frá 45 árum upp í 75 ár, eru vissulega ágæt kjör, en svo er aftur rétturinn, sem menn öðlast eftir kaflanum um byggingarsamvinnufélögin, mjög takmarkaður, þannig að þegar menn eiga meira en 10 þús. kr. og menn hafa nokkrum aurum hærri tekjur en 7 þús. kr., að viðbættri verðlagsvísitölu, þá falla menn skyndilega úr náðinni og verða að byggja samkv. ákvæðum 2. kafla, þar sem rétturinn er raunverulega sáralítill, eins og hv. þm. geta séð með því að líta yfir ákvæði þeirrar gr., sem í þeim kafla er, en þau réttindi, sem menn hafa samkv. þessum kafla, eru raunverulega ekki önnur en þau, að heimila fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. að ábyrgjast þau lán, sem út á þessi hús eru tekin og mega vera allt að 80% byggingarkostnaðar. Hér er ekkert rætt um það, hvað vextir af þessum lánum eigi að vera háir, heldur muni þeir fara eftir peningamarkaði á hverjum tíma, og það munu þeir að sjálfsögðu gera. En þetta virðist mér ákaflega varhugavert, að hafa svo mismunandi rétt fyrir þegnana, þannig að sumir fái e. t. v. ekki nema 10 þús. kr. af því, sem þeir eiga, og kannske ekki nema 100 krónur af því, sem þeir hafa í árstekjur. Í því frv., sem ég flyt, er gert ráð fyrir, að betri kjör gildi fyrir þá, sem vilja sætta sig við íbúðir, sem eru 350 m 3, menn, sem hafa vissar tekjur og vissar eignir. En þeir, sem vilja byggja stærra, verða samkv. því frv., sem ég flyt, að sæta lakari kjörum, en líka tiltekið, að vextir af þeim lánum, sem þeir þurfa að búa við, séu miklu betri en gert er ráð fyrir, að menn þurfi að búa við á almennum markaði. Því hafa menn nokkru minni rétt samkv. mínu frv. en gert er ráð fyrir í fyrsta kafla þessa frv., ákvæði, sem ég tel mjög varhugavert, því að það mundi útiloka marga frá því að geta fengið lán. Hins vegar er rétturinn, sem mitt frv. veitir fyrir B-láni eða hliðstæðum lánum, sem gert er ráð fyrir í 2. kafla þessa frv., miklu betri en í því frv., sem hér er flutt:

Ég vil brýna það fyrir þessari hv. d., að ég álít það mjög vafasamt að ganga inn á ákvæði eins og þau, sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Það er áreiðanlega rétt hjá Svíum, sem kemur fram í þeim reglum, sem þeir láta gilda um þetta, að það er ekki rétt að láta efnahag ráða svo miklu um rétt manna, hvort heldur er til trygginga eða húsbygginga, sem gert er ráð fyrir í 1. og 2. kafla þessa frv., og það af þeirri einföldu ástæðu, að þar með er — sem áreiðanlega er rangt — verið að draga úr hvötum manna til þess að safna eignum. Þessi undirstrikun við öll hugsanleg tækifæri, og einkum ef hún er gerð þannig, að hún sé áberandi, er mjög hættuleg löggjöfinni.

Ég vil svo ekki þreyta hv. d. á því að ræða lengur um þetta mál, en afstaða mín til þessa frv. mun fara eftir því, hvort á því fást gerðar þær breyt., sem ég tel nauðsynlegar.