11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

144. mál, Austurvegur

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég hef ekki talið mér nauðsynlegt að láta þetta mál mjög til mín taka nú, sérstaklega vegna þess, að ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þess við afgreiðslu fjárl. En af því að hv. þm. Barð. beindi til mín fyrirspurn, vil ég með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til frv. — Ég vil þá minna á, að fyrir nokkru meira en áratug síðan var samgöngumálið við Suðurlandsundirlendið til umr. hér á hæstv. Alþ. Menn greindi þá á um það, hver leið skyldi valin sem vegarstæði. Sumir voru þá þeirrar skoðunar, að hefjast bæri handa um að gera fullkominn veg, sem vandaðastan, sem líklegt væri, að verða mundi fær allan veturinn, um Þrengslin. En áður hafði farið fram athugun á þessu, og niðurstaðan af þeirri athugun varð sú, að Þrengslaleiðin var talin líklegust sem vetrarleið til frambúðar. Aðrir töldu skynsamlegast að leggja veg um Krýsuvík og Selvogsheiði yfir í Ölfus. Ég var þá þeirrar skoðunar, að réttara væri að velja Þrengslaleiðina, og bar þá fram till. um að verja fé, ekki stórri fjárhæð að vísu, í því sambandi, sem þó hefði nægt til þess að koma þessu verki af stað. En þeir, sem vildu velja Krýsuvíkurleiðina, urðu í meiri hluta á Alþ. Í samræmi við það var svo hafizt handa um að leggja veg um þá leið, sem meiri hl. Alþ. taldi, að heppilegri væri, og það er búið að leggja fleiri millj. kr. í bann veg, þannig að það er ekki eftir nema stuttur spotti ólagður á milli þeirra vega, sem lagðir hafa verið frá báðum endum á þessari leið, Krýsuvíkurleiðinni. Og þó að ég sé þeirrar skoðunar, að hér, um Krýsuvíkurleiðina, geti ekki verið um að ræða nema bráðabirgðalausn á samgöngumálunum við Suðurland, þá tel ég þó. úr því sem komið er, ekki annað fært en að ljúka vegargerð á Krýsuvíkurleiðinni áður en farið er að verja stórfé í veg yfir Hellisheiði. Það hefur ýmislegt fram komið, sem bendir til þess, að talsverð hjálp viðkomandi vetrarferðum muni vera að því að ljúka lagningu Krýsuvíkurvegarins, þótt ekki sé þar að ræða um endanlega lausn samgöngumálsins við Suðurland. Það kostar ekki nema tiltölulega lítið fé að tengja saman vegarspottana á Krýsuvíkurleiðinni, sem komnir eru, a. m. k. miðað við að leggja veg yfir Þrengslaleiðina.

Fyrirspurn, sem hv. þm. Barð. beindi til mín, var sú, hvort ég teldi, að þessi heimild, sem ríkisstj. er veitt í frv. á þskj. nr. 329, til lántöku, mundi verða notuð, ef frv. verður að l. Hann benti jafnframt á það, hv. þm., að sú skoðun hefði komið fram hjá mér og reyndar fleirum, að á næstkomandi sumri mundi verða að draga vinnuafl frá framleiðslustörfum, ef framkvæma ætti allar framkvæmdir, sem ráðgerðar hafa verið á fjárl. og í öðrum l., sem þegar hafa verið samþ. Ef maður lítur á það, hvernig atvinnuskilyrðin eru nú í landinu og hve erfitt að fá vinnuafl til nauðsynlegra framkvæmda, ef maður lítur í kringum sig þegar maður gengur hér um bæinn og sér húsin, sem verið er að byggja hér, standa óbreytt mánuð eftir mánuð og manni liggur við að segja missiri eftir missiri, svo,sem t. d. skrifstofubygginguna við Arnarhvál, sem látin var í akkorð og tveir af ágætustu byggingarmeisturum landsins tóku að sér, og þar er nú, sex mánuðum eftir að samið var um hana, aðeins búið að steypa kjallara og eina hæð, — ef maður lítur á þetta allt og bætir því við, að von er næsta vor á auknum atvinnutækjum, því að það er gert ráð fyrir, að Svíþjóðarbátarnir komi hingað flestir eða allir svo snemma, að þeir geti komizt á síldveiðar, sem hefur í för með sér, að marga fleiri menn þarf á flotann, — þá held ég, að flestir hljóti að verða mér sammála um það, að miðlungi skynsamlegt sé að bæta við enn á næsta sumri stórkostlegum verklegum framkvæmdum. Menn mega ekki gleyma því, að til þess að gera miklar verklegar framkvæmdir verður framleiðslan að standa í blóma. Það væri að vinna á móti framkvæmdum að ganga svo langt, að með því yrði dregið úr framleiðslunni.

Að þessu athuguðu get ég sagt það afdráttarlaust hvað mig snertir, — en ég tek það fram, að það er ekki fyrir hönd ríkisstj., að ég get ekki mælt með lántöku í því skyni að bæta við þær framkvæmdir, sem þegar eru ráðnar. Ég hef ekki ráðið það fyllilega, hvort ég ber fram í ríkisstj. till. um að nota heimildina um að draga úr verklegum framkvæmdum, þó að útlit sé fyrir, að hjá því verði ekki komizt. Menn eru varla búnir að gleyma því, að fjárl. voru afgr. á annan hátt en æskilegt gat talizt. Og enda þótt ég segi ekki, að þar hafi verið um fullkomið gáleysi að ræða, þá var þó teflt á tæpasta vaðið. Stórkostlegar fjárgreiðslur úr ríkissjóði eru ákveðnar og miklar lántökur heimilaðar, og sýnist því meira en þörf á að spyrna einhvers staðar við fótum.

Mín skoðun er sú, að enda þótt frv. verði samþ., sé það fyrst og fremst viljayfirlýsing frá Alþ., en ég sé ekki möguleika á að hefja framkvæmdir nema þá dragi úr öðrum nauðsynlegum framkvæmdum. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að taka slíka afstöðu til frv., sem að flestra eða allra dómi miðar í rétta átt. En ég álít þetta eðlilega lausn eins og nú er ástatt og get ekki tekið aðra afstöðu til þessa máls.