26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

144. mál, Austurvegur

Þorsteinn Þorsteinsson:

. Það er ekki ástæða fyrir mig að vera að margræða þetta mál, þegar vitað er um forlög þess. Ég vil þó eigi láta það liggja í láginni að minnast á þær brtt., sem ég hef komið fram með ásamt hv. þm. S.-Þ. á þskj. 498. Ég bið velvirðingar á því, þótt ég fari aðeins út fyrir efnið.

Nú fyrir nokkru sást ei annað hjá meiri hl. Alþ. en leiðin um Krýsuvík og Selvogsheiði. Mér kæmi ekki á óvart, þótt þriðja vegarstæðið kæmi og kannske það fjórða innan skamms.

Svo er annað í þessu máli, sem mér fellur ekki, og það er sú byrjun hjá Alþ. að semja sérstök l. um sérstaka vegi. Það skapar fordæmi, sem gæti knúið aðra þm. til að koma fram sínum málum á þennan hátt, þar sem áður var látin nægja þál. Sýnist mér, að ekki geti þeir horft á, að nú séu tekin stórlán til þessa vegar, sem getur tafið framkvæmdir á vegum í þeirra kjördæmum. Vestur þar, sem ég enn hangi sem þingmaður, álíta þeir sig bera skarðan hlut frá borði þegar hér er eytt tugum, millj. kr. í einn veg, en aðrar sveitir, eins og vestur þar, sem búa við slæm vegasambönd, falast aðeins eftir tugum þúsunda. Ég held það væri rétt að stinga hér fótum við og fara ekki lengra. Mér finnst það réttara og á ekki að gera málinu neitt til, þótt þessar brtt. okkar verði samþykktar. Ég tel það hyggilegra að veita til þessa vegar af fjárl. hvers árs.