26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

144. mál, Austurvegur

Bjarni Benediktsson:

Það er mjög skiljanlegt, að nokkrar aths. komi fram við þessa óvenjulegu aðferð. Ég held þó, að þær byggist meir á skjótu áliti en rækilegri íhugun um, hversu mikilsvert mál þetta er. Það er víst, að engin vegalagning á landinu kemur jafnmörgum landsmönnum að gagni og þessi. Hún er lífsskilyrði þess mikla fólksfjölda, sem býr hér vestan heiðar, í Reykjavík og víðar. Það er vitað, að þessir staðir eru sjálfum sér ónógir varðandi mjólk, sem ungum og gömlum er nauðsyn á. Það liggja fyrir skýrslur um það, að á undanförnum árum hafa komið fyrir ár, sem vegurinn yfir Hellisheiði hefur lokazt í 20–25 daga á ári. Þótt hægt hafi verið suma dagana að fara aðra leið, þá er ljós af þessu kostnaðurinn við þetta, og marga — daga hafa mjólkurflutningar stöðvazt alveg: Ef þetta á svo að viðgangast áfram, þá skapast neyðarástand hér vestan heiðar. Ég fullyrði, að mikilsvert sé fyrir allan þennan mannfjölda hér, að vegasamband austur yfir fjall verði betra en nú er og að vetrarvegur verði tryggður. Sumir segja, að Krýsuvíkurvegurinn sé vetrarvegur. Ég og fleiri telja nú, að betra hefði verið, að sú vegarlagning kæmi á eftir þessum mikilvæga vegi á hinu hagkvæmasta vegarstæði. Ég vil vekja athygli á því, að mér sýnist, að komið gæti til mála að setja sérstök fyrirmæli um endurgreiðslu þessa fjár. Það er vitað mál, að þegar þessi vegur verður fullgerður, mun hann spara mikið hvað viðkemur bifreiðunum, bæði gúmmí og benzín, einkum á vetrarferðum, því að nýi vegurinn yrði bæði betri og styttri. Mér sýnist liggja nærri, að þegar búið væri að koma upp þessum nýja vegi, yrði lagt á sérstakt benzíngjald eða annað gjald til endurgreiðslu á kostnaðinum að einhverju leyti. Það er hægt að sýna fram á, að þessi vegur hlýtur að spara mikið fyrir þær bifreiðar, sem um hann fara, og ef beinn sparnaður yrði metinn, mundu menn sjá, að ekki væri of mikið að leggja þetta gjald á bifreiðarnar. Sökum þess, hversu fjölfarin þessi leið er, er réttlætanlegt að fara þessa óvenjulegu leið. Ég vildi beina þeirri spurningu, hvort ekki væri tímabært að setja slíkt ákvæði inn í frv. nú, um benzínskatt. E. t. v. ætti slíkt aukagjald þó ekki að setja á fyrr en vegarbótin væri komin á. Nægur tími væri þá til að setja lög um það seinna. Ég veit, að þótt þessi skattur væri takmarkaður við þennan veg, þá yrði hann eftirsóttur.

Ég hef nú bent á þetta, og hv. þm. Dal. hefur úr sæti sínu sýnt þessu velvild og tekið því vel, svo að ég tel líklegt, að hann taki aftur brtt. sínar. Ég vil enn ítreka um nauðsyn þessa vegar og vil vitna í grg. hv. 2. þm. Árn., en hann hefur um langan tíma verið aðalhvatamaður að þessu. Alþ. hefur gert skyssu áður, nú ættu þm. að safnast saman undir forustu 2. þm. Árn. og hrinda þessu máli fram og sýndist mér rétt, að deildarmenn samþykktu frv. óbreytt.