26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

144. mál, Austurvegur

Jónas Jónsson:

Það er að vísu erfitt að taka til máls eftir þessa miklu mælsku seinasta ræðumanns, en á misjöfnu þrífast börnin bezt.

Ég verð að segja, að það er nýjung, að það komi frá valdamanni í Reykjavík að vilja koma á vegasambandi milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. Það er satt bezt að segja, að gengið hefur á endalausu þófi um þetta mál í heilan mannsaldur. Ég vil segja það til fróðleiks, að þegar þeir tveir buðu sig fram, Sveinn Björnsson, núverandi forseti Íslands, og Jón Þorláksson, þá sagði einn maður, að hann mundi heldur kjósa þann, sem væri minna með járnbrautinni. Jón Þorláksson féll bæði í Árnessýslu og í Reykjavík. Það hefur áhrif á þá, er ekki styðja stjórnina, að samgmrh. mælir ekki með frv. nú og fjmrh. segist ekki nota heimildina. Satt að segja varð ég nokkuð hrifinn af því, sem samgmrh. sagði, en það var, að hann væri hlynntur veginum, en vildi ekki leggja hann fyrir lán, heldur ætti að koma upp sérstakur benzínskattur, væri það miklu farsælla en að taka lán nú. — Ég get búizt við, að fólk víðs vegar á landinu krefjist hliðstæðra samgöngubóta af sínum þm. Hins vegar er það rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að þarna er mikil umferð og því mikilsvert að hafa þennan veg sem stytztan og beztan. Á hin rökin get ég ekki eins fallizt, að þessi vegur verði alltaf auður, því að á þessari leið yrði jafnvel meiri snjór en á Krýsuvíkurleiðinni.

Ég vildi óska, að hv. 6. þm. Reykv. vildi setja inn í frv. ákvæði, sem tryggja skattstofna til þessara framkvæmda. Á þann hátt er fordæmið ekki eins varhugavert.