26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

144. mál, Austurvegur

Bjarni Benediktsson:

Ég stend fyrst og fremst upp til þess að leiðrétta ummæli, sem komu frá hv. þm. S.-Þ. Hann sagði, að það væri nýlunda, að þm. Reykjavíkur mæltu með frv. um samgöngubót á þessari leið eða sýndu í þessu efni verulegan áhuga. Þetta er misskilningur og fjarstæða, vegna þess að vitað er, eins og hv. þm. gat sjálfur um, að Jón heitinn Þorláksson, sem um langan tíma var forsvarsmaður mála Reykjavíkur, átti það sem eitt sitt mesta áhugamál að bæta úr þessu. Hann hafði að vísu um skeið a. m. k. meiri trú á járnbrautarlagningu en vegalagningu, en sú hugmynd fékk aldrei nægilegt fylgi til þess að hún næði fram að ganga. En vissulega skorti hann ekki áhuga í þessum efnum. Það má einnig minna á annan þm., Björn Kristjánsson, sem var þm. vestan heiðar ag hafði mikinn áhuga á nýrri vegarlagningu þangað. Þm. vestan heiðar hafa allajafna sýnt þessu máli mikinn stuðning. (JJ: Hvað hét vegur Björns?) Ég veit það ekki, en þessi vegur heitir Austurvegur. (JJ: Vegur Björns hét Þjóðgat). Ég held, þótt mönnum hafi blöskrað á þessum árum að byggja skýli yfir veginn á snjóamestu stöðunum, að þá muni engum blöskra það nú, jafnvel ekki hv. þm. S.-Þ. Sannleikurinn er sá, að þm. Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur hafa haft mikinn áhuga fyrir þessu máli. En það hefur ekki náð fram að ganga vegna þess, að öðrum hv. þm., sbr. hv. þm. S.-Þ., þm. Barð. og aðra fleiri af ólíkum stjórnmálaflokkum, hefur blöskrað það mikla fé, sem þyrfti að fara í þetta til þess að gera þennan veg fulltryggan, og hafa ekki treyst sér til þess af kjördæmaástæðum að ljá því máli lið. Og það er alveg ljóst, að það er sama sjónarmiðið, sem enn kemur fram hjá þessum hv. þm. og öðrum hér í hv. deild.

Hv. þm. Barð. heldur því fram, að ef þetta yrði samþ., þá mundi þar af leiða, að það yrði að samþ. lánveitingar til allra annarra vega. Þetta er ekki rétt, því að eins og sýnt hefur verið fram á, þá er þetta frv. flutt af því, að alveg sérstaklega stendur á um þennan veg, allt öðruvísi en um alla aðra vegi, sem nefndir hafa verið. Út af fyrir sig er nú þegar jafngóður eða betri vegur austur yfir fjall en víða um land, og margir landshlutar mundu vissulega telja sig sæla, ef þeir hefðu jafngott vegasamband og er á þessari leið. En reynslan hefur sýnt, að vegna þess, hve margt fólk á hér hlut að máli, þá er þetta ekki fullnægjandi. Af þeim ástæðum er nauðsynlegt að gera þessar sérstöku ráðstafanir.

Hv. þm. Barð. sagði, að ekki hefði farið fram nægileg rannsókn á skýrslum, sem fyrir lægju í málinu. Ég held, að allt geti orðið þessu máli til hindrunar annað en skortur á rannsókn. Ég held, að ekkert mál, sem tekið hefur verið upp í þessu landi, hafi fengið betri undirbúning en þetta mál. Menn hafa verið að stríða við að koma fram umbótum á þessu máli í fullan mannsaldur, verkfræðingur eftir verkfræðing og n. eftir n. hafa verið fengnar til þess að rannsaka, hvernig þessu yrði bezt fyrir komið. (ÞÞ : Og komast ekki til botns í því). Allir, sem skoðað hafa málið niður í kjölinn, hafa orðið sammála um að mæla með hinni svokölluðu Þrengslaleið. Leiðrétti þeir, sem betur vita, ef ég fer með rangt í þessu. Ég veit ekki betur en að þeir, sem rannsökuðu járnbrautarstæðið, teldu það bezt komið á þessari sömu leið. Þeir menn, sem af þekkingu og kappi hafa rannsakað þetta mál, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi leið yrði valin, talið hana hagkvæmasta. Ég tek ekki mark á því, þótt hv. þm. hafi verið safnað saman og farið með þá í stormi suður fyrir Hafnarfjörð og það talið svo rannsókn á því, að Krýsuvíkurleiðin væri hagkvæmust. Ég ber ekki mikið traust til þeirrar rannsóknar. Ég held hv. þm. Barð. þurfi ekki að setja það fyrir sig, að um ófullnægjandi rannsókn á þessu máli sé að ræða.

Varðandi þá till., að leggja skyldi á sérstakt gjald til að greiða fyrir þessari vegarlagningu eða standa undir kostnaði við hana, þá er, eins og ég benti á áðan, rangt að setja það gjald á fyrr en búið er að leysa þennan mikla samgönguörðugleika, sem hér um ræðir. Og það er mjög eðlilegt að taka sérstakt lán til þessara framkvæmda nú. Um það mætti svo setja sérstök l. síðar, að það skuli greitt með tekjum af þessum gjaldstofni, ef menn sjá ástæðu til þess vegna fjárhags ríkissjóðs að öðru leyti. En úr því að ágreiningur er um það, að þetta lán sé tekið til þessarar framkvæmdar, þá vil ég benda á, að sú rækilega rannsókn, sem fór fram hvað eftir annað, hefur leitt til þeirrar niðurstöðu, að þetta sé hagkvæmasta leiðin. Ég held, að um það verði ekki deilt úr þessu. Ef rannsóknin hefði leitt til þess, að í stað þess að leggja veg álitu menn, að ætti heldur að leggja járnbraut, og ef menn væru eins sammála um það og þeir eru um, að þarna beri að leggja veg, þá þætti engum það óeðlilegra, að lán væri tekið til þess að leggja járnbrautina. Það hefðu allir réttilega tekið það fram, að slíkt stórvirki og járnbrautarlagning væri ekki framkvæmt með gjöldum samkv. fjárl. á hverju ári, heldur með því að taka lán til framkvæmdanna. Um þetta mundi enginn deila. En það gegnir bara alveg sama máli með þennan veg. Menn eru nú orðnir sammála um, að rétt sé að leggja veginn, og álíta, að ekki sé um nein önnur úrræði að ræða. Því ættu menn eins að geta komið sér saman um, að lagning slíkrar fullkominnar brautar er óhugsandi stórvirki nema með lántöku fyrst í stað. Þetta sýnist mér liggja í augum uppi. Enda sýnir reynslan, eins og ég hef bent á; að samkv. l. frá 1932 var ráðgert að leggja veg, sem ætlað var svipað stæði, og átti að veita til hans á fjárl. hverju sinni. Reyndin varð sú, að vegurinn var ekki lagður, því að aldrei þóttust menn hafa fé til að leggja í svo einstakt mannvirki sem þetta umfram tekjur hvers árs. Enginn mun nú skoða hug sinn um það, að ólíkt heppilegra hefði verið, ef 1932 hefði verið tekið upp það ráð að taka lán til þessa. Höfuðatriði þessa lagafrv. er lánsheimildin. Þessu stórvirki verður ekki hrundið fram nema með sérstökum ráðstöfunum. Þótt menn hafi þau ummæli eftir hæstv. fjmrh., að hann telji hæpið, að hann, vegna skorts á vinnuafli, taki lán í þessu skyni, þá sannar það aðeins, að það, sem menn verða að beygja sig fyrir, er, hvort vinnuafl fæst til að vinna verkið eða ekki. Ef það er ekki fyrir hendi, er ekki hægt að ráðast í þessar framkvæmdir og því þýðingarlaust að taka lán. En sá fjmrh., sem nú er, mundi vitanlega beita þessari heimild strax og skilyrði væru fyrir hendi. I. mundu ekki gera ráð fyrir því, að lánið sé tekið meðan skortur er á vinnuafli, en það getur breytzt áður en varir, kannske strax í sumar. Ef frv. verður samþ., þá liggur þetta fyrir sem viljayfirlýsing Alþ. og skipun til ríkisstj. að ráðast í þessar framkvæmdir strax og skilyrði eru fyrir hendi.