28.03.1946
Neðri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

144. mál, Austurvegur

Pétur Ottesen:

Mér virðist hæstv. samgmrh. hafi ekki að ófyrirsynju vakið hér máls á því, að hér er gengið inn á nýja braut í vegamálum hjá okkur. Eins og hæstv. ráðh. gat um, hafa þjóðvegir landsins nær eingöngu verið byggðir upp þannig, að fé hefur verið veitt til þeirra framkvæmda á fjárl. hvers árs. Það hefur svo stundum farið svo, að nokkru meira fé hefur verið varið til einstakra vega en fjárl. gerðu ráð fyrir, þó aldrei í verulega stórum stíl. Hitt hefur einnig átt sér stað, að farizt hefur fyrir að vinna fyrir það fé, sem veitt var til einstakra vega á því ári, sem fé var veitt. Það er því algert nýmæli hér á ferðinni, að taka fyrir eina ákveðna vegaframkvæmd og gera ráð fyrir, að tekið sé lán til þeirrar framkvæmdar og jafnframt kveðið svo á um, að þessari framkvæmd skuli lokið á ákveðnu árabili. Nú er um verulega stefnubreytingu að ræða í þessu stórmáli sem vegaframkvæmdir þjóðarinnar eru, að atvinnuvegir landsmanna eiga mikið undir því, hversu sækist í þeim efnum. Og tekur það ekki eingöngu til þeirra, sem búa úti um sveitir landsins, heldur er svo komið, að þeir, er við sjóinn búa, eiga mikið undir því komið, hversu háttað er um vegaframkvæmdir. Mér finnst þess vegna talsvert eðlilegt, að slík bylting í vegaframkvæmdum og sú, er hér um ræðir, væri ekki gerð öðruvísi en að sú ríkisstj., sem að henni stendur, lýsti yfir, að þetta væri stefna, sem ríkisstj. og meiri hl. Alþ. hefði tekið upp í þessum málum, og ætlaðist ekki til, að þetta flýtti fyrir framkvæmdum eins vegar, heldur yrði þessi tilhögun látin ná til þess að flýta fyrir nauðsynlegum vegum víða á landinu. Því að þótt megi segja, að þörfin geti verið brýn hér, þá stendur víða þannig á, að það er verið að koma á vegum, þar sem engir eða mjög lélegir vegir eru fyrir. En á þessari leið eru þó að minnsta kosti tveir vegir. Og eins og hæstv. ráðh. minntist á, þá er öllum hér á Alþ. kunnugt um, að þó nokkuð langt er komið að því að opna veg austur í sveitir eftir hinni svokölluðu Krýsuvíkurleið.

Eftir því, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., þá virðist svo sem hæstv. ríkisstj. standi ekki að þessu máli. En það tel ég afar óeðlilegt, að svo stór breyting sé tekin í málinu án þess að mörkuð sé einhver heildarstefna með þeirri breytingu. Væri þá eðlilegast, að ríkisstj. og Alþ. mörkuðu þá stefnu. Ég vil þess vegna benda á, að ef inn á þessa braut er farið, þá mun verða mjög sótt af öðrum, sem seint þykir ganga með vegaframkvæmdir hjá sér, að flýtt sé fyrir slíkri vegalagningu með því, að tekið sé í l., að þessum og þessum vegi skuli lokið á ákveðnu árabili, eins og hér er opnuð leið að, og jafnframt verði heimilað að taka lán til slíkra framkvæmda að því leyti, sem ekki er hægt að sinna þessari þörf á fjárl. hvers árs. Það er því að mínum dómi ekki viðeigandi að gera þessar ráðstafanir gagnvart einum vegi, svo framalega sem þetta á ekki að verða nokkuð almenn regla þegar um stórar vegaframkvæmdir er að ræða, þar sem þörfin kallar mjög á, að hrundið sé í framkvæmd hið bráðasta, enda munu áreiðanlega á þessu eða næsta þingi koma fram till. um að bæta við fleiri vegum, ef farið er inn á þessa braut. Það er líka vitað, að þegar farið er inn á þessa braut, eru lagðar auknar byrðar á ríkissjóð, því að vexti og afborganir af þessu láni verður að taka upp á hvers árs fjárl. Ef hart er í ári, þá getur þetta beinlínis orðið til þess að draga úr möguleikum fyrir fjárframlögum til annarra vegaframkvæmda, því að það fé, sem fer til að borga vexti og afborganir af láninu, sem stofnað er til, það verður vitanlega ekki á sama tíma notað til annarra hluta. — Ég vildi hér með vekja athygli á þessu.