10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

144. mál, Austurvegur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það vildi svo til, að þegar þm. V.-Ísf. fór til útlanda, óskaði Alþfl. eftir því, að ég tæki sæti í samgmn.

Eins og nál. ber með sér, höfum við tveir skrifað undir með fyrirvara, og skal ég gera stutta grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari liggur, þó að þess sé að nokkru getið í nál. á þskj. 712. Enn fremur nægir nú raunar að vissu leyti að vísa til þeirra atriða og þeirrar umsagnar, sem kom fram hjá mér við 1. umr. málsins í d., því að þar rakti ég nokkuð það, sem ég hef við frv. að athuga. Ég gat þess þá, og er þeirrar skoðunar enn, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, fari inn á nokkuð óvenjulegar breyt., og hefði verið æskilegra, að tóm hefði gefizt til þess að athuga þær betur og vita, hvort ekki væri unnt að koma fram málinu í svipuðu formi fyrir framkvæmd þess og afgreiðslu með öðrum ráðum. T. d. hef ég talið og tel enn, að það væri æskilegt að þurfa ekki að taka mikinn hluta kostnaðarverðsins að láni, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég þykist sjá fram á, að margir muni á eftir koma og þess vegna sé hér farið inn á breyt., sem kannske verði erfitt að fóta sig á í framtíðinni, ef þessar reglur yrðu almennt tipp teknar. Ég gat þess einnig við 1. umr., og er enn sömu skoðunar, að langtum heppilegri vinnubrögð væri að reyna að fullgera fyrst þá vetrarleið, sem nú hefur verið unnið að að verulegu leyti, Krýsuvíkurleiðina, áður en byrjað er á framkvæmd þessa verks. Því að ég tel mig sjá fram á, þó að þetta frv. verði að l. og unnið verði eins og nú er gert ráð fyrir að lagningu vegarins, að þá verði vetrarflutningar milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur langt frá því tryggðir um næstu ár, en mundu vera það með því að nota sem svarar hálfu eins árs framlagi til þessa vegar til þess að fullgera þessa nauðsynlegu vetrarleið, sem áður hefur verið samþ. af Alþ., og munu margir vera sammála um nauðsyn þess.

Þá hef ég bent á, að það tímatakmark, sent þarna er sett, er svo þröngt, að tæplega sé hægt að ímynda sér, að hægt væri að fullgera veginn á svo stuttum tíma sem þar er gert ráð fyrir. Hins vegar hef ég lýst yfir sem minni skoðun, að ég væri sammála því aðalefni frv. að gera góðan bílfæran veg milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, eins fljótt og unnt væri og í alla staði á þann hátt, að fullnægt væri þeim kröfum, sem til hans væru gerðar. Fyrirvari minn, og að ég ætla einnig hv. þm. N.-Ísf., er þess vegna fyrst og fremst við það miðaður að reyna að koma frv. í það horf, að hægt verði að fara nákvæmlega eftir því í framkvæmd, því þótt æskilegt væri, að hægt væri að gera þennan veg á sem stytztum tíma, er til lítils gagns að setja svo stutt árabil, að fyrirsjáanlegt er, að tæplega er unnt að inna það af höndum á þeim tíma. Við höfum því orðið sammála um það, hv. þm. N.-Ísf. og ég, að flytja þá brtt. við 5. gr. frv., að í stað 6 ára, sem þar er gert ráð fyrir, komi 8 ár. Að öðru leyti geri ég ekki ráð fyrir, að ég muni standa að fleiri brtt. við frv. Ég vildi þó gjarnan skýra frá því, að ef ég á eitthvað með þessi mál að fara framvegis, mun ég reyna að undirbúa og gera ráðstafanir til þess, að ríkissjóður fái einhverja tekjuöflun, svo verulega, að ekki þyrfti að grípa til lánsheimildarinnar nema að sem minnstu leyti. Það tel ég nauðsynlegt. Hins vegar tel ég mjög nauðsynlegt, til þess að tryggja framgang málsins á þeim tíma sem hægt er að hrinda því í framkvæmd, að tryggðir verði einhverjir tekjustofnar í þessu skyni fram yfir lántökurnar. Ég er þeirrar skoðunar, að þó að þetta frv. verði samþ., þá eigi að reyna að flýta lagningu Krýsuvíkurvegarins meir en gert er ráð fyrir í fjárl., og mun ég fyrir mitt leyti vinna að því, að það verði gert, til þess að vetrarleið milli þessara staða verði tryggð eins örugglega og hægt er, hvort sem þessari vegargerð miðar áfram fljótt eða seint. En ég tel fyrir mitt leyti, þó að þessi vegargerð verði unnin, eins og hér er lagt til, að þá muni það sýna sig síðar, að full þörf er á Krýsuvíkurleiðinni til vetrarflutninga á snjóavetrum. Það er ég sannfærður um.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. n. sagði um það, að hann óskaði eindregið eftir, að hér yrðu engar breyt. samþ., er ég á annarri skoðun og vil eindregið leggja til, að þessi brtt. okkar hv. þm. N.-Ísf. verði samþ., því að þá tel ég, að frv. sé komið í það horf, að unnt sé að haga framkvæmdum að fullu í samræmi við það og ekki þurfi til fleiri breyt. að boða, því að varðandi Krýsuvíkurveginn má gera ráðstafanir um framkvæmdir með öðrum hætti. — Ég vil því leggja til við hæstv. forseta, að þessi brtt. okkar hv. þm. N.-Ísf. komi hér til umr. og atkvæða.