10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Þessi brtt. hæstv. ráðh. á þskj. 747, sem lýst hefur verið af honum sjálfum, er, eins og ég bjóst við, ekki veigamikil. Og ég held megi segja, að það sé meira formsatriði að vera að halda uppi fyrirvara og koma með brtt. en að það geti skipt nokkru máli um efnið sjálft. Það er vitað, eins og` hv. 1. þm. Árn. kom að, að það hafa ekki allir verið ánægðir með framkomu þessa frv., og ef svo er, þá býst ég við, að hæstv. ráðh., eftir því sem honum hafa farið orð - og heyrði ég þó ekki allt, sem hann sagði, því að ég hef ekki alltaf verið við, — sé meðal þeirra, sem hafa haft einhvern ímugust á framkomu málsins. Ég skal ekki fara að rekja neitt sérstaklega nú þessar hvatir manna, en mér er í raun og veru óskiljanlegt, að nokkur skuli geta gert þetta árabil, 6 ár eða 8 ár, að nokkru atriði, sem ætti að verka þannig, að málið mundi tefjast meir fyrir það, að brtt. er fram borin, því að hún er gersamlega þýðingarlaus eins og ákvæði 5. gr. er, þar sem miðað er við, að nægilegt vinnuafl sé fyrir hendi og stórvirkar vinnuvélar. Og þegar hv. 1. þm. Árn. fór að tala um þessa óánægju, þessi leiðindi í sambandi við framkomu þessa máls, hélt ég, að hann mundi halda áfram og mæla með því, að frv. næði fram að ganga eins og það liggur nú fyrir, alveg breytingalaust. Og ef ég er hissa á því, að hæstv. ráðh. skuli álíta taka því að tefja málið með brtt., þá er ég meir hissa á því, að hv. 1. þm. Árn. skuli taka undir þetta, því að það heyrðist mér hann gera. Er þetta kannske ekki rétt hjá mér? (JörB: Jú, það er rétt). En þá vildi ég mega spyrja: Er hér einhver, sem leiðist, að málið komi fram í þessu formi? Mér þætti mjög æskilegt að vita þetta, því að þetta er í raun og veru að deila um keisarans skegg, og það vil ég ekki. Og ég vildi ekki láta það hindra á nokkurn hátt þessa leið, þess verð ég nú að geta, þó að hins vegar megi segja, að ef tryggður er framgangur málsins og þessir tveir menn geta það, þótt áliðið sé, þá er það gott. En það hefur ekki alltaf verið þannig, að hv. 1. þm. Árn. hafi treyst hæstv. ráðh. til þess að vera með í því að framkvæma sín áhugamál. En það getur verið, að þeir sameinist í því, og þá væri öllu vel borgið að lokum. Ég neita því ekki, en þetta er alóþarft og óskiljanlegt af hálfu hv. 1. þm. Árn. að vissu leyti.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að segja, að ég undrast það heldur ekki að heyra þessar margendurteknu ástarjátningar þessara ræðumanna til Krýsuvíkurvegarins. En það var bara enginn, sem var að ráðast á hann, svo að þetta var líka óþarft. Annars vil ég segja það, að hvorugur þeirra getur um það sagt, hvort hinn nýi vegur um Þrengslin verður betri eða verri en Krýsuvíkurvegurinn, af því að reynsluna vantar, og styðjast þeir þar við ágizkun eina. En hvað um það. Ef menn við fullnaðarlausn slíkra mála geta verið nokkurn veginn sammála um framkvæmd þess, sem áður er byrjað á, og eins um framkvæmd hins, sem nú á að hefja, þá segi ég ekki meir um það og læt það gott heita og vona, að hæstv. ráðh. segi hið sama.