15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt og satt, sem sagt hefur v erið í þessum umr., að í þessu frv. felist mjög verulegar umbætur á löggjöfinni um verkamannabústaði svo og á l. um byggingarsamvinnufélög. Þó vil ég segja, að þýðingarmestu nýmælin felast í III. kafla frv., sem fjallar um íbúðabyggingar sveitarfélaga, þar sem sveitarstjórnum er beinlínis gert að skyldu að fylgjast með því, hverjir af íbúum hvers sveitarfélags búa í heilsuspillandi íbúðum, og bæta úr þörfum þeirra manna, þar sem svo stendur á. Af því að ég vil á engan hátt tefja framgöngu þessa frv. né spyrna fyrir það fæti, mun ég greiða því atkv. eins og það er nú, þótt ég kysi á því margar breyt. Það ber að viðurkenna þá staðreynd, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur bent á, að hér er um samkomulagsmál að ræða, og því verður við því að búast, að málið verði þannig afgr., að ýmsir telji, að betur hefði mátt fara. En framfarirnar eru miklar, og ég held, að ekki verði öllu lengra komizt og verði að taka því. Ég vil þó nota tækifærið til að skýra frá því, í hverju ég tel, að hér sé ábótavant, því að það er réttmætt, að skoðanir þm. komi fram í þessum efnum. Það eru tvö meginatriði, sem ég tel á skorta. Í fyrsta lagi, að allan fjárhagslegan grundvöll vantar fyrir framkvæmdir í I. og II. kafla frv., sem sé kaflanum um verkamannabústaði og kaflanum um byggingarsamvinnufélög. Það er raunar í báðum þessum köflum gert ráð fyrir, að ríkisábyrgð fáist fyrir lánsfé til byggingarframkvæmda þessara, en ekki meira. Nú er það staðreynd, sem fyrir liggur, að byggingarsjóður verkamannabústaða getur ekki fengið þau lán, sem hann þarf, þrátt fyrir ríkisábyrgð. Einmitt af þessum sökum er það, að ég ásamt hv. 1. landsk. lagði fram frv. á þskj. 579, þar sem svo er ráð fyrir gert, að Landsbanki Íslands sé til þess skyldaður að kaupa skuldabréf byggingarsjóðsins fyrir allt að 20 millj. kr. Hv. 11. landsk. hefur nú tekið upp þetta ákvæði frv. sem brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Það er vissulega eðlileg meðferð málsins og til þess ætlazt, því að með þessu frv. er gert ráð fyrir, að l. um verkamannabústaði verði úr gildi felld, og ekki annað að gera en stíla þessa brtt. við frv., sem fyrir liggur. Ég vildi mjög eindregið mæla með því, að þessi brtt. yrði samþ. Hv. 4. þm. Reykv. hefur talið sig samþykkan henni , að efni til, en hefur látið í ljós efasemdir um það, hvort fært væri að skylda Landsbankann með l. til þessara skuldabréfakaupa. Mér virðist, að Alþ. eigi að gera það upp við sig, hvort það er það, sem á að setja þjóðbankanum lög og reglur og mæla fyrir um starfsemi hans, eða hvort bankinn á að segja þinginu fyrir verkum. Ég er ekki í vafa um það, hvorum megin húsbóndarétturinn er, hann er vissulega hjá Alþ. Og það er engum vafa bundið, ef Alþ. ætlar að gera sínar skyldur um fyrirgreiðslu við atvinnulíf landsins, að þá verður það einnig að sjá til þess, að fjármunum þjóðarinnar verði varið til þeirra framkvæmda, sem það telur rétt og sjálfsagt og vill, að búið verði það. Það að gefa út l. um byggingarframkvæmdir eða aðrar stórfelldar framkvæmdir, án þess að tryggja, að fjármagni þjóðarinnar verði varið til þessara framkvæmda, það er vitanlega að fara út í bláinn. Peningarnir eru afl þeirra hluta, sem gera skal, og um leið og þingið ákveður, að hitt eða þetta skuli gert, er eðlilegt, að það gefi Landsbankanum fyrirmæli um að sjá til þess, að nægilegt fé fáist til framkvæmdanna. Alþ. hefur nú góðu heilli gengið inn á þessa braut. Það hefur sem sé afgr. frá sér frv. til l. um stofnlánasjóð sjávarútvegsins, þar sem Landsbankanum er gert að skyldu að verja 100 millj. kr. til lána til handa sjávarútveginum með mjög góðum kjörum. Þetta er góð stefna. Þingið hefur í þessu tilfelli talið nauðsynlegt að efla þennan mikla atvinnuveg þjóðarinnar, og því var ljóst, að lagafyrirmæli um slíkt voru lítils virði, nema fyrirmæli fylgdu til Landsbankans um að verja fé til þessara framkvæmda. Þingið virðist sammála um að gera stórt átak í byggingarmálum þjóðarinnar. En útlitið er ekki gott, að því er séð verður, því að það er augljóst mál, að hér ber að standa að verki á hliðstæðan hátt og gagnvart sjávarútveginum. Þingið á að gefa út fyrirmæli um það, hve mikið fé skuli notað frá bankanum. Og ég held því fari fjarri, að það sé of mikið, þó að 20 millj. skyldu renna til byggingar verkamannabústaða. Og ég vil taka það fram, að jafnvel þótt þetta yrði samþ., þá er ákaflega fjarri því, að bankinn hafi gert skyldur sínar í því efni að tryggja, að nægilegt fjármagn renni til byggingarstarfsemi í landinu. Og af þeim sökum er það, að ég hef flutt hér frv. til l. á þskj. 727, varðandi veðdeild Landsbankans, þar sem gert er ráð fyrir, að nýr flokkur komi til framkvæmda, sem hafi yfir að ráða 60 millj. kr., og þessi flokkur starfi að því að veita lán til bygginga byggingarsamvinnufélaga og sveitarfélaga, sem hafa slíkar byggingar með höndum, og til einstaklinga, sem byggja íbúðir til eigin nota. Ég tel, að Alþ. skilji illa við byggingarmálin, ef það samþ. ekki að efni til þessi tvö frv., annað sem brtt. við frv., sem fyrir liggur, en hitt sem sjálfstætt frv. Ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, að hér í Reykjavík og raunar alls staðar í kaupstöðum landsins eru byggingarsjóðir einstaklinga að basla við að byggja þak yfir sitt eigið höfuð. En lánskjörin, sem þeir eiga við að búa, eru slík, að bankinn lánar líklega sem næst 14% af byggingarkostnaðinum. Þetta er í alla staði ófullnægjandi, og ætti að hverfa að þeirri breyt., sem við höfum ráðgert, að skylda veðdeildina til þess að lána allt að 50%, og þó öllu meira, af matsverðinu sjálfu.

Ég vil ekki ræða öllu meira um þetta atriði, en legg á það áherzlu, að þingið skilur við hálfgert verk, ef það afgr. frv. í þeirri mynd, sem nú er, en tryggir ekki þeim félögum, sem frv. fjallar um, fjárhagsmöguleika til lánsfjáröflunar. Það er raunar betra hálfgert verk en ógert, og því mun ég fylgja frv. En það er ekki nema hálfgert, það mun reynslan sýna, og mun ekki langur tími líða, þar til Alþ. telur nauðsynlegt að bæta hér um.

Þetta var fyrra atriðið, sem ég tel mjög ábótavant í þessu frv. Annað atriðið er um stjórn byggingarmálanna í heild. Við hv. 2. þm. N.-M. erum sammála um það, að réttast væri og eðlilegast, að bæði byggingar verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélaga væru undir einni sameiginlegri stjórn. Ég tel nauðsyn til bera að koma hér á fót stórri allsherjar byggingarstofnun ríkisins og get í því sambandi vísað til brtt., sem hv. 4. landsk., hæstv. forseti Ed., flutti um þetta efni. Ég tel, að byggingarstofnun, sem reist yrði samkv. l., ætti að hafa margs konar verkefni með höndum. Í fyrsta lagi ætti hún að annast byggingar fyrir byggingarsamvinnufélög og verkamannabústaði. Ég efast ekki um, að með þessu móti mætti gera framkvæmdirnar stórum ódýrari og betri í alla staði. Þarna yrði stofnun sett upp, sem hefði aðstöðu og getu til þess að taka nútíma tækni í sína þjónustu. Í öðru lagi ætti þessi byggingarstofnun ríkisins að annast innflutning byggingarefnis til þeirra framkvæmda, sem byggingarfélögin hafa með höndum. Í þriðja lagi ætti slík stofnun að hafa með höndum allar teikningar að slíkum byggingum og hafa á hendi leiðbeiningarstarfsemi fyrir þau félög, sem ekki stunda beinlínis byggingar sjálf. Í fjórða lagi ætti þessi stofnun að hafa eftirlit með húsnæðisþörfinni á hverjum tíma og gera till. um, hvernig úr því skuli bætt. Og einnig væri eðlilegt, að hún hefði nokkra íhlutun um það, hvernig yrði háttað um innflutning á byggingarefni og því bezt fyrir komið, án þess að íþyngja landsmönnum, þannig að þörfinni sé eðlilega fullnægt á hverjum tíma og hverjum stað.

Ég skal ekki ræða meir um þessa stofnun. En aðalatriðið tel ég vera það, að til þess að framkvæmdirnar verði gerðar á sem haganlegastan hátt, þurfa þessi mál öll að safnast á eina hönd og hin ýmsu byggingarfélög að geta leitað til eins aðila um alla aðstoð og fyrirgreiðslu varðandi starfsemi sína. En þetta held ég að geti staðið til bóta á sínum tíma. Ég vil ekki koma fram með víðtækar brtt., sem ég þó álít, að stefna beri að, því að það mundi verða til þess að tefja málið. En ég vildi nota tækifærið til að lýsa því, hvernig ég tel, að stefna beri.

Ég þarf svo aðeins að lokum að minnast með örfáum orðum á eitt atriði, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv. Þessi þm. gat þess, að Byggingarfélag alþýðu hefði misst rétt sinn til þess að verða lántaki úr byggingarsjóðnum, vegna þess að það hafi ekki viljað hlíta fyrirmælum laganna. Ég varð undrandi, að .þessi þm. skyldi fara að ræða þetta mál hér. Ég hygg, að flestir þm. þekki sögu þess. Ég held þeir viti, að maðurinn, sem barðist fyrir því, að sett yrði löggjöf um verkamannabústaði, hét og heitir Héðinn Valdimarsson, sem þá var þm. Reykv. á Alþ. Þessi maður beitti sér fyrir stofnun hins fyrsta byggingarfélags verkamanna, Byggingarfélags alþýðu. Hefur hann stjórnað félaginu frá upphafi og til þessa dags með frábærum dugnaði. Það var viðurkennt af hv. 4. þm. Reykv. á sínum tíma, að ekki þyrfti að efast um dugnað hans í þessu máli. Svo kemur það fyrir, að þessi maður verður ósáttur við hv. 4. þm. Reykv. á hinum pólitíska vettvangi. Þá fær þessi þm. vitrun, að hann sé óhæfur maður til þess að stjórna Byggingarfélagi alþýðu. Hann notar síðan sem ráðherra vald sitt til þess að gefa út brbl. til þess eins að svipta þennan mann forustu í elzta og fyrsta byggingarfélagi verkamanna. Enginn grundvöllur annar gat verið fyrir þessum brbl. en sá að svipta Héðinn Valdimarsson völdum í þessu félagi, af því að hann hafði komizt í pólitíska ósátt við hæstv. þáverandi ráðherra. Ég verð að segja, að þetta verk sé hið skelfilegasta verk, sem nokkur ráðherra hefur unnið, og þetta sú mesta misbeiting, sem hefur verið framin í sambandi við það vald, sem ráðherra hefur til að gefa út brbl. — Ég skal svo láta þessi orð nægja í sambandi við það mál. Ég endurtek aðeins, að mig furðar á því, að þessi hv. þm. skuli vera að rifja upp þessa sögu nú, sem ávallt mun verða honum mjög maklegur vitnisburður.