13.02.1946
Neðri deild: 66. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Frv. þetta er samið af milliþn. í skólamálum og er annað í röðinni af frv. þeim, er fjalla um fræðslumál. Menntmn. hv. Nd. hefur athugað frv. mjög rækilega. Fyrst var frv. lesið og rætt í sameiningu af menntmn. beggja d., en síðan tók menntmn. Nd. að sér að semja brtt. Þá hefur menntmn. deildarinnar rætt mál þetta við fræðslumálastjóra, og eru honum till. þessar kunnar, enda hefur hann gefið margar góðar leiðbeiningar.

Í höfuðatriðum er frv. þetta mjög líkt l. þeim, sem nú eru í gildi um þetta efni, en að sjálfsögðu hefur orðið að taka allt þetta til endurskoðunar vegna þeirra breytinga, sem fyrirhugaðar eru á skólakerfinu. Gert er ráð fyrir, að barnafræðslu ljúki nú einu ári fyrr en er í núgildandi l. Leiðir þetta af því, að skiptingin er önnur, þar sem skólaskylda heldur áfram, þótt barnafræðslunni sé lokið. Enn er eitt mikilvægt atriði, sem kemur til greina. Ráðgert er að auka framlög til barnaskólabygginga mjög verulega frá því, sem verið hefur. Skv. frv. þessu á ríkið að leggja fram 3/4 hluta af byggingarkostnaði heimavistarskóla, en 1/2 til heimangönguskóla. Gildir hið sama um skóla í sveitum og kaupstöðum.

Þá mun ég víkja að einstökum brtt. frá n. á þskj. 321. Eins og ákveðið er nú í l., er skólaskylda bundin við 7 ára aldur. Þó er sú undantekning, að hægt er að veita undanþágu frá 710 ára, ef fræðsluráð samþ. Í frv. er gert ráð fyrir, að fræðslumálastjórn ákveði undanþáguna. En n. þótti rétt að færa það í það horf, sem nú er. — Ráðgert er, að hver sýsla og bæjarfélag sé fræðsluhérað út af fyrir sig. Ekki er hægt að sameina sýslu- eða bæjarfélög í eitt fræðsluhérað nema samþykki hlutaðeigandi fræðsluráðs komi til. Í frv. er ráðgert að leita álits fræðslumálastj., en n. þótti betur fara að binda það við samþykki fræðsluráðs. Svipað er að segja um sameiningu skólahverfa innan hvers fræðsluhéraðs. 4. brtt., við 12. gr., er naumast nema orðalagsbreyting. 5. brtt. felur í sér það ákvæði, að skólastjórar heimavistarskóla skuli ekki skipaðir fyrr en eftir tveggja ára reynslutíma. Staða þessara kennara er ærið vandasöm. Þeir eru ekki einungis kennarar, heldur og forstöðumenn skólanna, eða allt í senn, fræðarar og umsjónarmenn. N. þótti því rétt að halda ákvæði hinna eldri l. hvað snertir skipun skólastjóra.

6. brtt. n. fjallar um það, að þegar kennarar hafa náð 55–60 ára aldri, megi fræðslumálastjórn fækka skyldustundum þeirra. Hér er um heimild að ræða, en ekki skipun, eins og var í frv.

7. brtt. er um umráðarétt yfir húsnæði skólans og munum hans. Ræður skólastjóri því, sem er í þágu skólastarfsins, en að öðru leyti kveður skólanefnd á um umráðaréttinn í samráði við skólastjóra.

8. brtt. fjallar um tölu barna, er komi á hvern kennara, og er yfirleitt miðað við fullan starfstíma kennara, sem er 9 mánuðir.

9. brtt. kveður svo á, að 25. gr. frv. skuli felld niður. Sú grein heimilaði fræðslumálastj. að flytja kennara milli skóla, ef aðstæður breyttust. Í frv. þessu er svo ákveðið, að kennarar verði embættismenn ríkisins, og því lítur n. þannig á, að þeir komi undir ákvæði stjórnarskrárinnar um flutning embættismanna. Því áleit n. ákvæði þetta gagnslaust, því að allt, sem bryti í bága við stjskr., mundi ekki fá staðizt í reyndinni, þótt í l. væri.

10. brtt. felur í sér brottfall á síðasta málslið 26. gr., þar sem ræðir um fræðslu- og gagnfræðahéruð, sem falla saman. Þessi breyt. leiðir af meiri breytingu í sambandi við þetta frv., sérstaklega hvað snertir gagnfræðanámið. Upphaflega lagði mþn. til, að landinu yrði skipt í sérstök hverfi. Menntmn. kom sér saman um að halda ekki þessari skiptingu, en fannst einfaldara, að landinu yrði skipt í fræðsluhéruð og síðan í skólahéruð. Því þótti nauðsyn, að síðasti málsl. félli brott.

11. brtt. er um kosningu skólanefndar. Skv. núgildandi l. fer kosning fram með tvennum hætti, eftir því hvar kosið er. Í kaupstöðum kjósa bæjarstjórnir skólanefndirnar, en í sveitum eru þær kosnar almennum kosningum eins og hreppsnefnd. Gert er ráð fyrir, að kosningin verði þann veg samræmd, að hreppsnefndir kjósi skólanefndir.

12. brtt. er við 31. gr. frv., þar sem rætt er um tillögurétt skólanefnda og skólastjóra um veitingu og val kennara að skólanum. Sjálfsagt er bezt, að skólanefnd og skólastjóri komi sér saman um, hvaða kennarar skuli valdir, en í frv. var tilgreint, að till. skólastjóra skyldu vera forgangstillögur. Þetta þótti n. óviðeigandi og leggur til, að það sé fellt brott.

13. brtt. er orðalagsbreyting. Eftir athugun þótti n. skaðlaust að fella orðin „í upphafi skólaárs“ burt.

14. brtt. er við 39. gr., er tekur til, að starfstími heimavistarskóla í sveitum skuli vera 7 mánuðir, en þó er undantekning veitt, ef barnafjöldi er lítill, í samráði við till. fræðslumálastjórnar. Þannig háttar nú í nokkrum sveitum, að til eru skólar, sem reistir hafa verið fyrir allmörgum árum fyrir fremur lítinn nemendafjölda. Því þótti rétt að heimila fræðslumálastj. að stytta kennslutímann, þar sem svo hagar til, skv. till. viðkomandi skólanefndar í því skólahéraði. Þá þótti og sjálfsagt, að heimangönguskólar starfi jafnlengi og heimavistarskólar. Þá þótti og hentugt að skipta námstímanum í tvennt milli deilda, þannig að börn séu 12–14 vikur í skólanum, enda eiga skólastjórar að hafa eftirlit með heimanámi barnanna.

16. brtt. nemur á brott, að frídagar skuli ákveðnir með lögum. N. þótti betur fara, að um leyfi væri ákveðið í reglugerð.

Undanfarin ár hafa námsstjórar svokallaðir verið ráðnir til eftirlits með fræðslu barna í landinu. Hefur þetta gefizt vel, og þótti sjálfsagt að halda .því áfram. En í 51. gr. frv, er landinu skipt „í 6 eftirlitssvæði hið fæsta,“ það þýðir, að það er möguleiki að fjölga þessum eftirlitssvæðum. En n. fannst réttara að fastbinda tölu þessa.

18. og 19. brtt. eru ekki efnisbreyt., en aðeins tilfærsla og smávegis orðalagsbreyt., sem ég tel ónauðsynlegt að skýra nánar.

Hef ég þá lokið við að gera stuttlega grein fyrir helztu atriðum brtt., og læt ég því máli mínu lokið.