15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Þær umr., sem farið hafa fram, síðan ég talaði síðast, sýna greinilega, að það, sem ég sagði, er rétt. Hv. frsm. meiri hl. viðurkennir, að málið hafi ekki verið til glöggvunar í n. fyrr en undir þingfund, og þá lá ekki meira á en það, að fyrri partur dagsins í gær var látinn líða án þess að nokkuð væri átt við nefndarfund. Hv. frsm. sagði, að málið hefði á nefndarfundi fengið þá sömu meðferð sem venja væri um hin mestu mál í n. Guð hjálpi þá n., sem hann starfar í, ef það er venjulegt þar, sem hér á sér stað. Það liggur fyrir, að 9 byggingarfélög hér úr bænum hafa sent grg. til Alþ. um það, hvernig þau vilja hafa þetta mál, en engin þeirra hefur verið lesin, enn síður rædd. Það liggur fyrir, að þetta mál er breyt. á tvennum eldri l., og n. bar ekki við að bera þetta frv. saman við þau l. Ef þetta er venja í þeim n., sem frsm. meiri hl. starfar í, þá er meira en lítið ábótavant starfi þeirra n., og ég veit, að það er ekki svona í þeim n., sem ég starfa í, þar er reynt að bera saman og sjá, í hverju breyt. sé fólgin, og reynt að fá upplýsingar hjá mönnum, sem málið snertir. Þess vegna eru þessi nefndarstörf, sem hv. frsm. ræddi um, ekki eins og þau eiga að vera, heldur þvert á móti. Hvað segir svo hv. frsm.? Hann segist gjarnan vilja bæta við 20 millj. kr., en mátti ekki vera að því að vita, hvort það væri fær leið. Svo mikið lá málinu á. Engum staf mátti breyta. Hvert einasta orð, sem hann sagði um þetta, sannar þess vegna það, sem ég sagði, að það er á málinu óheppileg meðferð í þinginu. Og enn greinilegar kemur þetta fram, þegar þarf að koma fram leiðréttingum, sem allir sjá, að eru sjálfsagðar, en ekki fengust ræddar í n. Hv. 2. þm. Eyf. var með leiðréttingar í n. frá hv. þm. Snæf. og vildi láta ræða þær og athuga, en um það var ekki að tala, því að engu mátti breyta. Hv. þm. sagði réttilega, að það yrði að semja um málið. En svo bezt er samið um það, að menn vilji hlusta á það, sem á milli ber, en því var ekki til að dreifa í n. að þessu sinni. Hv. frsm. sagði ekki eitt orð á móti mínum brtt. annað en það, að hann teldi verr farið að hafa stjórn byggingarsjóðsins í einu lagi og láta lána út í einu lagi til allra byggingarfélaga. Ég færði rök fyrir því í n., og á þau rök féllst hv. 8. þm. Reykv. nú í sinni ræðu, að með því að hafa þetta í einu lagi, ef menn fá lán úr sjóðnum, væri hægt að fá byggingar húsanna ódýrari en ef hvert félag potar fyrir sig. Ekki fékkst þetta heldur rætt. Ósk um að hafa félögin tvö í staðinn fyrir eitt fékkst ekki heldur rædd. Yfirleitt fengust engar brtt., sem stungið var upp á í n., ræddar. Ég vona, hvað sem annars líður meðferð þessa máls hér, að hv. frsm. n. og aðrir nm. læri það að starfa ekki á þennan hátt í nefndum og gefi sér tíma til að líta á málin og reyna að koma sér saman um þau, og þá jafnframt að þeir mæti á fundum, því að jafnvel á þennan fund komu ekki allir, þó að ég og frsm. n. kæmum á réttum tíma, 3 mættu, en ekki 2, sem eiga þó sæti í n. Hv. frsm. andmælti því ekki, að það er heill hópur af mönnum, sem þurfa að koma upp húsum, en hafa engan útveg til þess, ef það frv., sem nú liggur fyrir Alþ., verður samþ. Hv. 8. þm. Reykv. reyndi að bjarga því með því að vilja setja í frumvarpið heimild til meiri veðdeildarlána heldur en nú er gert í lögum. Það er gott, það sem það nær, en það nær heldur ekki til allra, ekki til þeirra, sem eru vinnulausir, og ekki til þeirra, sem liggja úti og búa í kjöllurum, sem hvergi geta fengið lán, nema viðkomandi sveitarstjórn telji sér skylt að fara að byggja eftir III. kafla frv., þá er það hugsanlegt, en það þarf þar ýmislegt til til þess að geta fullnægt þeim, og ég hefði talið miklu betra að geta komið ákvæði, sem er í 12. gr., í brtt. mínar. Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. Ég tel frv. í þessa átt vera mjög þarft og nauðsynlegt og skal ekki segja um það, hvernig mitt viðhorf verður, ef brtt. minar verða felldar. Það má vera, að einhverjir geti sætt sig við þá hugsun frsm. meiri hl., að þó að þetta sé ekki nema lítið spor í áttina, þá komi hitt síðar, og í því trausti, að það verði fyrr en síðar, get ég samþ. frv., þó að mínar brtt. nái ekki fram að ganga.