13.02.1946
Neðri deild: 66. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

29. mál, fræðsla barna

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál, því að ekki bar margt í milli okkar hv. frsm., en vil þó aðeins bæta nokkrum orðum við.

Í 9. gr. frv. segir — með leyfi hæstv. forseta: „Fræðslumálastjórn mælir fyrir um, hvernig fræðsluhéraði skuli skipt í skólahverfi, þó skal hún ávallt leita álits hlutaðeigandi fræðsluráðs eða fræðsluráða, áður en skipting eða sameining hverfa er ákveðin.“

Ég held, að það sé nokkurn veginn skýrt og sanni það sem ég hélt fram, að frv., eins og það lá fyrir, stefndi að því að taka valdið úr höndum fólksins í sveitunum og leggja það undir fræðslumálastjórnina hér í Reykjavík, því að þótt svo sé um mælt, að leitað skuli álits hlutaðeigandi fræðsluráðs eða fræðsluráða, þá eru engin ákvæði um það, að tekið sé tillit til þeirra. Þessu hefur n. breytt, og fyrir þetta var ég að tjá henni þakkir mínar, en tel aðeins, að hún hafi ekki gengið nógu langt. — Það er að vísu rétt, sem hv. þm. A.-Sk. sagði í framsöguræðu sinni, að þeir menn, sem kosnir eru fyrir heilt hérað til þess að hafa þessi mál með höndum, bera ábyrgð á gerðum sínum, og má treysta því, að þetta séu góðir og gegnir menn, en það er nú þannig, að í stórum héruðum er nokkur hætta á því, að þeir séu ekki svo kunnugir sem skyldi og þekki alls ekki til um hugi manna. Ég hefði því talið — án þess að ég vantreysti þessum mönnum, — það tryggilegra, að það væri a. m. k. algerlega tryggt, að fyrir lægi og fylgdi álit þeirra skólan., sem þetta snertir. Helzt hefði ég kosið, að skólan., sem þarna eiga hlut að máli, mæltu með og legðu samþykki sitt á þetta, enda þótt fræðsluráðunum væri falin þar forganga.

Sameining skólahverfanna er mikið vandamál, og farkennslan er vandræðafyrirkomulag, sem á að hverfa, eins og hv. frsm. gat um. Aftur á móti hafa nú skapazt ýmsir möguleikar, sem ekki hafa verið tiltækir fyrr en nú á síðustu árum og gera það mögulegra í mörgum sveitum að láta börnin dvelja heima í foreldrahúsum heldur en áður var, enda þótt fjarlægðin frá heimangönguskólanum sé talsverð, og að unnt er að flytja börnin frá og til skólans og skipta þeim í aldursflokka. Eru þau þannig látin mæta í skólanum annan hvern dag og nota daginn á milli til þess að undirbúa sig undir skólavistina. Ég tel, að þetta sé mjög ákjósanlegt fyrirkomulag, sem sé að börnin eru ekki slitin frá heimilunum, heldur flutt þaðan til skólans og frá honum, eins og ég sagði áðan.

Hv. frsm. drap réttilega á það, sem ég minntist á í ræðu minni, að pað væri mikilsvert hlutverk skólanna í því að mynda nokkurs konar miðstöð fyrir sveit sína og skapa þar aukið og betra félagslíf. Hann sagði í því sambandi, að það væri fjárhagsgetan, sem þarna réði miklu um. Þetta er rétt, en ég vil benda á það, að í mínum huga og margra annarra er þetta atriði stöðugt að verða æ mikilsverðara fyrir sveitirnar, sem sé það, að hver sveit eigi a. m. k. eina slíka miðstöð fyrir menningar- og félagslegt líf sitt. Ég vil halda, að ef eitt sveitarfélag getur ekki komið upp slíku heimili fyrir æskufólkið, þá er það ekki fært um að halda því í sveitinni. Unga fólkið gerir nú aðrar kröfur en gerðar voru í okkar ungdæmi. — Að svo mæltu ætla ég ekki að ræða þetta meira.