15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla stuttlega að svara hv. 2. þm. N.-M. Hans ræða nú, eins og hin fyrri, snerist að mestu um málsmeðferð í þessari d. og þá einkum innan heilbr.- og félmn. Ég hef sagt það áður í umr., að það væri ekki óvenjulegt, þegar mál er búið að ganga gegnum aðra d., í þessu falli Ed., og fá þar rækilega athugun og undirbúning og samkomulag hefur farið fram milli flokka, þó að ekki væri þá eytt mjög löngum tíma í meðferð málsins í n. í síðari d., þegar nm. eru líka flestir á einu máli um það, að nauðsyn beri til þess, að málið nái fram að ganga. Mér er vel kunnugt um það, þó að það hafi ekki komið til heilbr.- og félmn. Nd., að það lágu fyrir nokkrar umsagnir frá félögum út af þessari byggingarmálalöggjöf yfirleitt. En hv. 2. þm. N.-M. minntist ekki á það í n. og óskaði ekki eftir, að það væri tekið til athugunar í n., enda tel ég þess ekki hafa verið neina sérstaka þörf.

Sami hv. þm. sagði, að ég væri ekki búinn að átta mig á því, hvort ég teldi fært að samþ. brtt. um að skylda Landsbankann til að lána 20 millj. kr. til byggingarsjóðs verkamanna. Ég hef þegar lýst þeirri skoðun minni hér í d., þegar rætt var um þetta, að ég teldi nauðsynlegt að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að byggingarfélögum verkamanna yrði aflað nauðsynlegs lánsfjár. Ég tók það þá fram, að ég væri ekki reiðubúinn til þess að ákveða, hvort sú leið væri fær fyrir Alþ. að skylda Landsbankann til þessara lánveitinga, án þess að gerð væri minnsta tilraun til þess að ná samkomulagi við bankann um þetta atriði. En það var vitað, að á meðan sá bankastjóri Landsbankans,, sem einnig er form. byggingarsjóðs verkamanna, var erlendis, þá mundi þess enginn kostur að ræða það mál við bankann svo að nokkurn árangur bæri. Ég held því, að hv. 2. þm. N.-M. hafi haft nægan tíma til þess að flytja brtt. hv. 11. landsk. þm., því að það er ekki nýmæli hér í d., heldur er upp undir mánuður síðan þetta kom fram, þótt í nýju frumvarpsformi væri. Hv. 2. þm. N.-M. sagði einnig; að brtt. hv. þm. Snæf., sem hefði verið í höndum eins nm., hefðu ekki fengizt ræddar í félmn. Það er ekki nákvæmlega með farið. Við bentum á það í n., að sumpart teldum við þessar brtt. ekki nauðsynlegar og sumpart mætti ná því, sem í þeim fælist, með framkvæmd löggjafarinnar. Ég tel þó brtt. hv. þm. Snæf. mjög vafasama, að færa stærð samvinnubygginga úr 500 teningsmetrum upp í 600 tm. Með svo mikilli stækkun eru þetta orðnar verulega stórar íbúðir, sem vafasamt er, hvort ástæða er til að veita þau sérstöku hlunnindi, sem annars ern veitt þeim íbúðum, sem byggðar eru eftir verkamannabústaðalögunum eða 1. um samvinnubyggingar. Eins og hv. þm. Snæf. tók fram; er nú verið að byggja hér nýjar samvinnubyggingar, þar sem hver íbúð er tæpir 500 tm., og mér er kunnugt um það, að þar er um mjög stórar og myndarlegar íbúðir að ræða.

Ég tel því, að það sé fullnægt réttlátum kröfum þeirra manna, sem slík hlunnindi eiga að fá, jafnvel þótt ekki sé heimilt að fara upp í allt að 600 tm. hver íbúð. Ég skal hins vegar, úr því komnar eru fram þessar kröfur frá hv. þm. Snæf., játa að mér finnst ekki ósanngjarnt, ef á annað borð hv. d. sæi sér fært að gera nokkrar breyt. á frv., að verða við þeirri brtt. hans að lækka félagatölu í byggingarsamvinnufélögum niður í þá tölu, sem hann leggur til. Hins vegar mundi mér þykja vafasamt, að aðgengileg mundi þykja brtt. hans um það, að aftur á bak skyldi verka sú aukna ríkisábyrgð fyrir byggingar samvinnufélaga, sem hann fer fram á í sinni brtt. En ég vildi, þar sem hæstv. fjmrh. er staddur hér í d. og mun hafa látið í ljós nokkurt álit um ríkisábyrgðir í sambandi við byggingarfélög, óska þess, að hann léti til sín heyra um þetta atriði. Annars vildi ég skjóta því til hv. þm. Snæf., hvort hann vildi ekki taka aftur brtt. sína til 3. umr., þannig að tími ynnist til þess í félmn. að athuga, hvort ekki næðist samkomulag í þessa átt. Ég vildi fyrir mitt leyti stuðla að athugun á þessu, en vildi skjóta þessu til hv. þm. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða frekar um þessar brtt. hv. þm. Snæf.

Frv. 8. þm. Reykv. hélt ræðu hér, og í niðurlagi hennar vék hann mjög að mér. Framan af var ræða hans skynug og skynsamleg. Minntist hann á mig og alþýðuflokksmenn. En svo kom upp gamli Þjóðviljaandinn í síðari hluta ræðunnar, og þá fór allt út um þúfur. Hann og hv. 1. landsk. þm. minntust nokkuð á afskipti mín og raunar alls Alþ. af bráðabirgðal., sem sett voru til að breyta löggjöfinni um byggingu verkamannabústaða. Sú saga var rakin á mjög óráðvandlegan hátt, a. m. k. þær breyt., sem gerðar voru með bráðabirgðal., voru ekki annað en það, sem meiri hl. Alþ. og meginhluta þess virðist nú sjálfsagt, að eigi áfram að vera í þessari löggjöf. Breyt. með bráðabirgðal. er ekki annað en það, að stjórnir byggingarfélaga verkamanna skyldu kosnar hlutfallskosningu og form. stjórnarinnar skyldi skipaður af þeim ráðh., sem færi með félagsmál. Þegar á því stigi málsins var, það auðsætt, að ríkið hafði svo mikil afskipti af þessum málum og átti svo mikið undir stj. félaganna, að nauðsynlegt þótti, að ríkið ætti fulltrúa í hverri stj., líkt og er í fjölmörgum n., þar sem fjallað er um þau mál, sem ríkið lætur sig miklu varða. Og það er alveg áreiðanlegt, að það var ekki ótímabært og sízt af öllu til ills, en miklu fremur til góðs, að þessi breyt. var gerð á l. um verkamannabústaði. Ég ætla, að þegar í Ed. var flutt brtt. um það að breyta þessu ákvæði líkt, þó ekki nema á þann veg, að stjórn byggingarfélags verkamanna skyldi öll kosin af félaginu, en ekki hlutfallskosningu eins og áður, þá hafi sú brtt. verið felld með öllum atkv. gegn 3. Og einmitt sá maður, sem einna bezt þekkir til þessa málefnis og hefur einu sinni verið í byggingarfélagi verkamanna og hafði mikinn áhuga fyrir því, að það gæti starfað hér í bænum, Bjarni Benediktsson borgarstjóri, hann tók það skýrt fram, að hann teldi nauðsynlegt, að ríkisvaldið hefði þetta í sínum höndum að skipa formann í stjórn byggingarfélagsins. Bráðabirgðal. þau, sem ég stóð nokkuð að, hafa því sannarlega staðið tímans tönn og reynslu, og virðist sú hugmynd hér innan sala Alþ. eiga fullkomið fylgi. Hitt er svo annað mál, sem sneri sérstaklega að Byggingarfélagi alþýðu hér í Reykjavík, að forstöðumenn þess félags vildu ekki hlíta landslögum og sviptu því sjálfa sig þeim rétti, sem félagið annars hefði haft til þess að njóta réttinda til lána úr byggingarsjóði verkamanna. Það var ekki löggjafarinnar sök, þó að menn í fullmiklum hita og ofstæki vildu ekki fylgja löggjöf, sem sett var um þetta efni, nauðsynlegri löggjöf, sem hefur sýnt sig að vera ekki gert út í loftið og ekki án þess að þörf væri á.

Héðni Valdimarssyni hefur verið blandað nokkuð inn í þetta mál, en ég ætlaði ekki sérstaklega að fara að ræða um hann í þessu sambandi. Ég vil þó aðeins segja það út af því, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, að Héðinn hefði, að mér skildist einn, komið í framkvæmd löggjöfinni um verkamannabústaði, að að vísu var Héðinn þá í Alþfl. og duglegur afkastamaður, sem átti sinn þátt í þessari löggjöf og sinn þátt í framkvæmd hennar sem form. fyrsta byggingarfélagsins í Reykjavík, en að þessari löggjöf stóð Alþfl., sem Héðinn Valdimarsson stýrði á þeim tíma. Og Alþfl. með ágætri aðstoð Héðins Valdimarssonar framkvæmdi þessa löggjöf fyrstu árin. Annars finnst mér, að þessi hv. þm. ætti ekki að fara að bera Héðinn Valdimarsson fyrir sig. Ég ætla, að viðskilnaður hans og þetta sé þannig, að honum sé engin þægð í því, að þeir taki upp hanzkann fyrir sig. Ég held, að menn ættu heldur að halda sér að efni málsins.

Ég get sagt það hverjum sem er, og það vita allir, að Alþfl. lagði, á það mikla áherzlu, að eitt byggingarfélag væri starfandi á hverjum stað. Ég er á móti till. í gagnstæða átt frá hv. 11. landsk. Í einu byggingarfélagi hér hefur ekki verið haldinn fundur í hart nær 4 ár, ekki einu sinni aðalfundur. Hvað snertir bráðabirgðalögin frá 1939, þá hafa þau reynzt nauðsynleg.