15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég vil taka það fram, að ég varð fyrir vonbrigðum að heyra, að hv. 4. þm. Reykv. væri reiðubúinn til að greiða atkv. gegn því, að bankinn yrði skyldaður til að kaupa 20 millj. kr. skuldabréf til aðstoðar við byggingu verkamannabústaða. Við erum komnir á Alþingi til þess að ráða málum þjóðarinnar. Við verðum að tryggja, að ákveðið magn af fjármunum þjóðarinnar sé lagt í þetta fyrirtæki .......... Rangfærsla var hvergi fyrir hendi. En ég veit vel, eins og allur þingheimur, í hverju fyrirmæli brbl. voru fólgin. Þau voru fólgin í því, að formaður Byggingarfélags alþýðu skyldi vera stjórnskipaður. Við vitum það, að til þess að gefa út brbl. þarf alveg knýjandi ástæða að vera fyrir hendi. Löggjafarvaldið á að vera hjá Alþ., en ekki hjá ríkisstjórninni. En hvaða nauðsyn var þá fyrir hendi, þegar hann var ráðh., til þess að gefa út þessi brbl.? L. um verkamannabústaði höfðu þá staðið um áratug, og hann hafði ekkert við þau að athuga. En það, sem skeði, var það, að pólitísk ósátt kom upp milli hans og formanns félagsins. Og til hefndar notaði hv. 4. þm. Reykv. sér það vald, sem hann hafði sem ráðh., og gaf út þessi brbl. Svo sagði hann með sætu brosi, að það væri ekki vegna þess, sem þessa hefði þurft, heldur hefði félagið ekki staðið í stöðu sinni. En félagsmenn vildu ekki þola ofbeldi ráðh., og sá manndómur var hjá þeim, að þeir vildu ekki, að níðzt væri á mönnum sínum. En nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvað kom til, að ekki mátti draga þetta þar til Alþ. kom saman? En áður en þessi frægu brbl. voru sett, hafði félagið miklar framkvæmdir í undirbúningi. En þessar aðgerðir ráðh. leiddu til þess, að þær stöðvuðust. Og þegar svo þær byggingar, er reistar voru undir stjórn þeirri, er hann setti, voru komnar upp, þá voru þær orðnar langtum dýrari en ella hefði orðið. Ég er sannfærður um það, að ekkert verk hefur verið unnið skelmislegra úr ráðherrastóli en setning þessara brbl. Og réttur til að setja brbl. hefur aldrei verið verr notaður en af hv. 4. þm. Reykv. Það, að Alþ. staðfesti l. svo síðar, sannar ekkert um réttmæti þeirra, er þau voru sett. Vissulega eru svo mörg rök fyrir þessu tvenns konar fyrirkomulagi.