01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Hæstv. menntmrh. fór að vísu nokkuð undan í flæmingi viðkomandi fyrirspurn minni um skipun formanna skólanefndanna. En ég vildi þá spyrja hann ákveðið að því: Var það að till. fræðslumálastjóra, að svo ágætir menn eins og Ingimar Jónsson, sr. Sigurbjörn Einarsson og Lárus Sigurbjörnsson voru allir reknir frá formennsku í skólanefndum hér og aðrir, þeim ekki hæfari menn — svo vægt sé til orða tekið — teknir í staðinn? Úr því að þetta ber á góma, er gott að fá um þetta örugga vitneskju. Og mér finnst, satt að segja, ástæðulaust fyrir þennan hæstv. ráðh. að vera að taka þetta á sig, — en þetta hefur verið talið hans verk, — ef þetta er gert eftir till. fræðslumálastjóra. Mér finnst ekki viðeigandi, að fræðslumálastjóri liggi undir ámæli af þessu, því að þetta mælist mjög illa fyrir meðal almennings, ef svo er ekki, að þetta sé runnið undan rifjum fræðslumálastjóra.

Þá vildi ég spyrja hæstv. menntmrh., hvaða ástæða er til þess, að í l. um hina æðri skóla er gert ráð fyrir því, — sem ég tel nú vera heppilegt, að gert sé a. m. k. í einhverjum mæli, ég skal ekki taka afstöðu til þess, í hve ríkum mæli, — að kennarar fái frí frá störfum á vissu árabili, vegna þess að það er víssulega mjög lýjandi starf að vera kennari og því nauðsynlegt, að þessir menn fái einhverja viðréttingu, ef svo má segja, öðru hverju, — ef þetta er nauðsynlegt viðkomandi hinum æðri skólum, hvers vegna er það þá talið síður nauðsynlegt um barnakennara? Nú er mér um það kunnugt — og kunnugra um það, þó skömm sé frá að segja, en hæstv. menntmrh., — að kennarar sækja það ákaflega fast að fá slík frí. Og það hefur verið gert allmikið að því hér í Reykjavík. En jafnframt er mér tjáð, að fræðslumálastjórnin hafi neitað því að taka nokkurn þátt í kostnaði við slík frí barnakennara, jafnvel þó að bæjarsjóður Reykjavíkur hafi þegar veitt stórfé í þessu skyni. Af hverju nær umbótahugur hæstv. menntmrh. ekki til þess að veita barnakennurum a. m. k. einhver hlunnindi í þessu efni á borð við aðra kennara á landinu? Er það af því. að þeir séu eitthvað betur settir til þess að taka sér þessi frí á eigin kostnað? Eða er starf þeirra minna lýjandi en starf annarra kennara? Er hagur þeirra þeim mun betri eða starf þeirra þeim mun minna lýjandi heldur en annarra, að ekki sé einsýnt, að einhverjar reglur væru settar, og þá ekki sízt fyrir forgöngu menntamálastj., um leyfisveitingar þeim til handa, og getur ríkið verið þekkt fyrir það að vera í þessum efnum miklum mun tregara en einstakar sveitarstj. eru nú? Ég skaut því inn áðan, að erindisbréfin, sem hæstv. ráðh. var að vitna í, fengju ekki staðizt, og ég verð að segja, að það er að vísu virðingarvert, að ráðh. skuli hafa lesið þessi erindisbréf, en hitt er óskiljanlegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vita, að eftir þessum bréfum er ekki farið, að þau eru í framkvæmdinni að engu höfð, vegna þess að þau hafa ekki næga stoð í 1. Þess vegna er það rétt, sem ég hef sagt, að það er verið með þessari löggjöf að brjóta framkvæmdirnar. Það er rangt, sem hæstv. ráðh. sagði, að breyt. væri fólgin í mínum ,till., vegna þess að þær eru eingöngu staðfesting á þeirri framkvæmd, sem verið hefur. Þetta getur hæstv. ráðh. aflað sér upplýsinga um, ef hann vill kynna sér, hvernig þessum málum er háttað hér í Reykjavík.