02.04.1946
Efri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Ég gerði fyrirspurn til hæstv. menntmrh. í gær varðandi það, hver ætti að standa undir kostnaði við skóla fyrir vandræðabörn. Hann gaf það svar, að um þessa skóla gilti hið sama og skóla almennt, eftir því ætti hvert sveitarfélag að geta haldið uppi tvenns konar skólum óskyldum. Ég hafði skilið þetta ákvæði svo, að komið yrði upp stofnunum til þess fyrir landið allt, en ef sú leið er farin, er ekki hægt að láta gilda sömu reglur um þær stofnanir og hina almennu skóla. Svar hæstv. ráðh. fær því að minni hyggju ekki staðizt. Það kynni að vera mögulegt, að mörg sveitarfélög stæðu saman um slík heimili, en það er óhugsandi, að hvert sveitarfélag rísi undir tvenns konar skólum. Þetta ætla ég, að sé enn ein sorgleg sönnun fyrir því, að þessi mál eru ekki eins vel undirbúin og skyldi. Þar með er ekki sagt, að meginhugsun og tilgangur þessara laga sé ekki góður. Og það er algerlega ástæðulaus árás hæstv. ráðh. á mig, þótt ég gagnrýndi nokkur atriði þessa máls, sem hann gat, ekki skýrt nægilega. Hann lét í það skína í gær, að hann hefði haft samráð við fræðslumálastjóra um skipun skólanefndarformanna, og þegar ég beindi til hans ákveðnum fyrirspurnum, þá taldi hann slíkt óviðeigandi. Ég tel þvert á móti skyldu mína að benda hæstv. ráðh. á þær misfellur, sem ég þykist sjá á stjórn hans, en hann lítur á þetta öðrum augum, eins og fram hefur komið. Hann hefur notað vald sitt sér til pólitísks framdráttar, og því fer fjarri, að hægt sé að taka hv. 1. þm. Reykv. til samanburðar í þessu efni. Þegar hann var menntmrh., voru einungis hans flokksbræður í skólanefnd t. d. hér í Reykjavík, en núv. hæstv. menntmrh. hefur rekið burtu sjálfstæðismenn og skipað sér geðþekk pólitísk peð í staðinn, svo að það er fullkomlega eðlilegt, að þm. reyni að gjalda varhug að sameina of mikið vald hjá núv. hæstv. menntmrh. (BSt: Væri ekki bezt að losna við þennan hæstv. ráðh.? — Menntmrh.: Já, væri það ekki bezt?) Það má nú vera, að það komi til athugunar áður lýkur, en það er nú svo í þessum heimi, að fáir menn eru án kosta og fáir án galla. Og ég er ekki þeirrar skoðunar, að loka beri augunum fyrir því, sem gott er, né heldur svo múlbundinn af nokkru málefni, að ég geti ekki metið það, sem vel er. Ég tel, að þessi hæstv. ráðh. hafi marga góða hæfileika, en sé samt ekki yfir það hafinn að sæta gagnrýni. (BSt: „Hvern hann elskar, þann agar hann.“) Já, það er mikið rétt. Ég vona, að hæstv. ráðh. taki aðfinnslum mínum vel og í réttum anda. Það er full ástæða til, að sveitarstjórnir og bæjarstjórnir hafi íhlutunarrétt um, hvernig farið er með það fé, sem veitt er til fræðslumála, þar sem viss hluti kostnaðarins hvílir á sveitarsjóðunum. — Þetta voru þau atriði, sem ég vildi einkum benda á. Varðandi aths. hv. frsm. skal ég geta þess, að þær þóttu mér lítilsverðar og utan við málið, og hirði ég því ekki að ræða þær.