17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er stjfrv. það hefur verið til athugunar í fjhn., en n. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Fulltrúi Framsfl. í n., hv. þm. V.-Húnv., vildi breyta frv. þannig, að veltuskatturinn, sem á er lagður 1945, skuli dragast frá tekjum við skattaframtalið á næsta ári, áður en skattur er á þær lagður. Það er náttúrlega rétt, sem hann segir í sínu nál., sem nú er verið að útbýta hér í hv. d., að það væri gott, ef hægt væri að gefa þetta eftir. En þar sem fyrir liggur nú fyrirheit um það frá hæstv. fjmrh., að veltuskatturinn verði ekki framlengdur, þá er nú síður þörf á því en annars væri að vera að gera ívilnun í þessu efni. Ég býst líka við, að hv. alþm, hafi gert sér það ljóst, að ríkissjóð vantar tekjur, meiri tekjur en hann hefur nú yfir að ráða samkv. l., sem í gildi eru. Þess vegna hefur ríkissjóður síður ástæðu til að gefa eftir af því, sem hann hefur fengið lagalega heimild til að innheimta. Ég hef ekki gert mér ljóst, hve mikilli upphæð það kynni að nema fyrir ríkissjóð, ef frv. væri breytt á þá lund, sem hv. þm. V.-Húnv. vill gera láta. En ég geri ráð fyrir, að það geti orðið töluverð upphæð. Ég býst ekki heldur við, að hv. þm. V.-Húnv. geti gert sér það ákveðið ljóst hverju þessi upphæð nemur. Ég er ekki enn alveg búinn að lesa nál. hans til enda. En ég held, að það liggi ekki fyrir í því nein áætlun um þetta. En samkv. þeim dæmum, sem hann nefnir hér í nál., þá mætti ætla, að sá frádráttur mundi nema nokkuð miklu, þegar til samans kemur, sérstaklega á þeim einstaklingum og félögum, sem miklar tekjur hafa. Og þess vegna er síður ástæða til að breyta frv. í það horf, sem hv. þm. V.-Húnv. vill koma því í, þar sem talað hefur verið um það hér úr sölum Alþ. ekki allsjaldan, að hátekjumennirnir yrðu tiltölulega bezt úti eftir þeim skattal., sem nú eru í gildi. Mér finnst þess vegna gæta dálítils ósamræmis hjá hv. fulltrúa Framsfl. í n., hv. þm. V.-Húnv., í þessu efni, að hann skuli nú sérstaklega leggja til að láta þessa hátekjumenn og þessi hátekjufélög sleppa við þau gjöld, sem þau mundu inna af hendi á næsta ári, með því að framlengja frv. um tekjuskattsviðauka fyrir árið 1946.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að svo stöddu. Meiri hl. fjhn., þ. e. allir nema hv. þm. V. Húnv. leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.