26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. viðskmrh. Við vitum, að gjaldeyrir vor Íslendinga er nokkuð einhæfur, en þó á sinn hátt mjög voldugur, sem sé dollarainneignin vestan hafs. Þessu er ekki þannig varið hvað snertir önnur Evrópuríki, því að öll Evrópulönd, að Bretlandi undanskildu, hafa ekki getað notað dollara fyrr en nú nýverið. Við verðum því að vera vel á verði með dollarainneign okkar, ekki einungis að verja þeim á þarflegan og hagkvæman hátt, heldur líka að gæta þeirra fyrir ásælni annarra þjóða. Einkum má búast við, að hinar Norðurlandaþjóðirnar, hafi mikinn hug á slíkum gjaldeyri. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess, að við misstum dollarana ekki úr höndum okkar, sem við eigum vestan hafs. Síðan samgöngur hófust við Norðurlöndin, hefur mikill varningur farið út úr landinu með hverju skipi, sem siglt hefur á milli, en þó mun þetta hafa verið í smáum stíl hjá því, þegar hið stóra skip, Drottningin, fór héðan í síðustu viku. Það hefur nú komið berlega í ljós, að Drottningin kom með soltna viðskiptamenn, sem hugsuðu sér gott til fanga, og talsverður hluti farþega ætlaði sér viðskipti hér. Nú leyfi ég mér að spyrja, hvað sé til varnar.

Eins og margir hafa mátt sjá og nú er orðið upplýst, hafa þessir ferðalangar og sendimenn keypt hér upp miklar vörubirgðir á okkar mælikvarða, og ef svo héldi áfram, gætu hér þrot orðið. Einkum er það vefnaðarvara, sem þeir hafa keypt mikið af, en auk þess ýmiss konar nauðsynjavara.

Þessi varningur hefur farið til Norðurlanda með Drottningunni, en þó má telja víst, að mikið sé hér pantað, en ekki sent úr landi. Nú má segja, að þetta sakaði ekki í þetta eina skipti, þar sem margir munu halda, að þetta verði frændþjóðum vorum að einhverju gagni. En svo mun farið með þessi innkaup, að þegar til Danmerkur kemur, verða þessar vörur einungis luxus, sem mjög fáir geta veitt sér, því að vörurnar verða svo dýrar.

Ég vil því beina því til hæstv. viðskmrh., hvort ekki sé rétt, að einhverjar takmarkanir séu settar, eins og gert hefur verið á Norðurlöndum, og í Svíþjóð hafa þessar reglur verið svo strangar, að vart títuprjónn hefur komizt yfir hafið. Látum farið sem farið er, en lengra ekki.

Ég veit, að þm. og ráðh. munu skilja þetta mál og nauðsyn þess, að gerðar verði ráðstafanir.