09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

29. mál, fræðsla barna

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég mun ekki eyða tíma í að svara þeim hv. þm., sem töluðu á móti frv. Brtt. hv. þm. S.-Þ. miða í þá átt að gera frv. að engu, enda er hann andvígur því og hefur greinilega lýst því sjálfur. Þm. Barð. talaði mikið um spillingu kennarastéttarinnar. Slíku hirði ég ekki að svara. Ég álít, að till. hv. þm. séu ýmist einskis virði eða spillandi, og vil því eindregið mælast til þess, að þær verði felldar. — 1. brtt. mundi valda erfiðleikum, ef hún yrði samþ. — 2. brtt. mundi valda deilum um, hvað væri sambærileg menntun við kennarapróf. Og þannig má halda áfram með fleiri brtt. — 5. brtt. þýðir það, að veitingarvald kennaraembætta sé í höndum skólanefndanna. Ég álít það ekki heppilegt, tel eðlilegt og sjálfsagt, að þetta vald sé í höndum fræðslumálastj., því að hér er um embættismenn ríkisins að ræða og þeir eiga að vera skipaðir af ráðherra. Hitt tel ég algerlega óeðlilegt, að embættismenn ríkisins séu skipaðir af öðrum aðilum. Ég get ekki séð, að þetta sé sambærilegt við veitingu prestsembætta. Ef allir hugsanlegir aðilar nema skólanefndin í einhverju héraði leggja með einhverjum kennara, þá sé ég ekki ástæðu til, að skólanefndin eigi að ráða. Það getur vel staðið þannig á, að skólanefnd sé skipuð mönnum úr einum stjórnmálaflokki og af þeim ástæðum ríki þar þröng sjónarmið. Ég hygg, að hægt sé að nefna mörg dæmi þess. Og tel ég því alveg óviðunandi, að veitingarvaldið sé ekki í höndum fræðslumálastjórnarinnar.

Þá er till. frá hv. þm. Str. á þskj. 690. Fyrri till. er á þá leið, að fræðsluráð skuli kosið hlutfallskosningu af bæjarstjórn í kaupstöðum, en utan kaupstaða af sýslunefndum. Ég get fallizt á, að þessi skipun sé eðlilegri en hin. En í brtt. við 26. gr., þess efnis, að skólanefndirnar séu skipaðar á sama hátt, finnst mér vanta fulltrúa fræðslumálastj. og teldi eðlilegt og æskilegt, að ráðh. skipaði einn mann í skólanefnd. Það er vegna þess, að skólanefnd og fræðslumálastjórn hafa svo mikið saman að sælda, og hygg ég, að slíkt fyrirkomulag gæfi betra öryggi fyrir góðu samstarfi. Auk þess tel ég ekki rétt að samþ. þetta nú við 3. umr., þar sem líka er lokið að skipa skólanefndir í bæjum og kauptúnum, t. d. hér í bæ. Vil ég því leggja til, að þessar brtt. verði felldar.

Öðru máli gegnir með brtt. hv. 1. þm. Eyf., um að barnakennarar geti notið sömu hlunninda og kennarar við æðri skóla. Þar sem hér er um heimild að ræða, get ég vel fallizt á till. og tel hana líka til bóta. Vænti ég því, að hún verði samþ.