10.04.1946
Efri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

29. mál, fræðsla barna

Magnús Jónsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. Mér sýnist vafasamt, hvort þessi till. um árs frí 10. hvert ár fyrir barnakennara sé framkvæmanleg. Það er vafasamt, hvort nægilega margir kennarar eru hér til. Ég vil taka undir það, að þetta er of víðtækt mál til þess að afgreiða það fljótlega. Mér hefði ekki fundizt óeðlilegt, að um þetta væru sett sérstök l., því að hér er um svo ákaflega marga kennara í hinum ýmsu skólum að ræða. Og það er mikill vandi að skipa málunum svo, að ekki hallist á aðra, t. d. háskólakennara. Þar hefur verið mikið um það rætt, að kennarar skólans fengju árs frí frá störfum til þess að kynna sér nýjungar í vísindum sínum. Og hefur verið haft orð á því, hvort ekki væri hægt að finna reglur um utanferðir háskólakennara. Þær reglur eru ekki fundnar enn, en að því er unnið. Það er mjög nauðsynlegt fyrir háskólakennara, sem eiga að fullkomna þessi vísindi við háskólann í landinu, að eiga aðgang að öllum nýjungum í þeim efnum, sem upp koma í heiminum. Og þótt að vísu sé bót að þeim stuttu utanferðum, sem eru styrktar úr sáttmálasjóði, er það þó svo, að kennarar eru þá á ferð á sumrin, en hentugast er að vera á slíkum ferðum á veturna. Mér finnst þetta augljóst mál. Og fyrir mitt leyti treysti ég mér ekki til að greiða atkv. með brtt. óbreyttri.

Aðallega stóð ég upp til að minnast á eitt atriði, sem hefur valdið ágreiningi. Það er um skipun fræðsluráðanna. Það hefur verið þannig, að í ráðin hafa verið kosnir 4 menn, en 5. maðurinn sjálfkjörinn. Var svo lagt til í frv., eins og það lá fyrir, að 4 menn yrðu kosnir, en fræðslumálastj. skipaði þann 5. Hér er um nokkuð mikinn mun að ræða. Hér liggur nú fyrir brtt. frá hv. þm. Str. um þetta á þskj. 690. Þetta eru 2 till. bæði um fræðsluráð og skólan. Ég hef veitt því eftirtekt, að þær eru stílaðar við skakka grein. (Menntmrh.: Hv. þm. tók það fram.) Það er þá búið að sjá fyrir því. Í till. um fræðsluráðin skulu þeir allir vera kosnir og fræðslumálastjórn svo skipa formann úr hópi fræðsluráðsmanna: Ég get ekki fallizt á þessa skipan. Vil ég því leggja til, að eins væri farið að við kosningu og hér er lagt til, en fræðsluráð kysi sér formann úr sinum eigin hópi. Ég hef ástæðu til að halda, að þessi miðlunartill. gæti náð samþykki, og það væri gott, að samkomulag gæti náðst um þetta atriði. Ég mun því leyfa mér að bera fram skriflega brtt., ef hæstv. forseti vildi biðja um leyfi fyrir hana. Brtt. mín er við brtt. á þskj. 690, fyrri lið. Í stað orðanna „Fræðslumálastjórn skipar formann úr hópi fræðsluráðsmanna“ kemur: Fræðsluráð kýs sér formann úr sínum hópi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.